Tekjustofnar sveitarfélaga

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 17:35:41 (6664)

1996-05-28 17:35:41# 120. lþ. 150.8 fundur 464. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (flutningur grunnskólans) frv. 79/1996, Frsm. KÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 150. fundur

[17:35]

Frsm. félmn. (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frv. til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, með síðari breytingum. Félmn. leggur til að frv. verði samþykkt og undir það rita allir nefndarmenn nema Pétur H. Blöndal. Hann er með fyrirvara sem hann mun gera grein fyrir á eftir.

Þetta frv. byggist á því samkomulagi sem gert var milli Sambands ísl. sveitarfélaga og ríkisins vegna flutnings grunnskólans. Við leggjum til að frv. verði samþykkt óbreytt, enda gefur auga leið að þessum samningi verður ekki breytt.

Vegna ýmissa spurninga sem upp komu við vinnu nefndarinnar er rétt að taka fram að frv. kallar ekki á neinar breytingar á tekjuskatti einstaklinga eða lögaðila nema hvað varðar þá tilfærslu sem verður á milli ríkis og sveitarfélaga og samið var um milli sveitarfélaganna og ríkisins. Sama gildir um persónuafslátt. Á honum verða ekki neinar breytingar.

Þessi lög og samningurinn kalla á breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt en þingmönnum til upplýsingar skal þess getið að sú lagabreyting er ekki væntanleg fyrr en í haust. Það kom fram í vinnu nefndarinnar að sumum þótti eðlilegt að sú breyting yrði gerð jafnhliða þessari, en hér er um það að ræða að þessar skattabreytingar og tilfærslur taka ekki gildi fyrr en um næstu áramót. Hér er jafnframt gert ráð fyrir því og um það samið að ríkissjóður brúi bilið fram til áramóta vegna flutnings grunnskólans með sérstakri fjárveitingu sem samkvæmt ákvæði til bráðabirgða I nemur 2 milljörðum og 734 millj. kr. Síðan er einnig gert ráð fyrir því í bráðabirgðaákvæði III að ríkissjóður verji allt að 265 millj. kr. á ári af tekjuskatti áranna 1997 til 2001 til að styrkja framkvæmdir við grunnskólabyggingar þannig að hér er um margþátta samning að ræða.

Ég vil líka nefna að í samtalli við hæstv. fjmrh. kom fram að jafnframt var samið um sérstakar breytingar á útsvari um 0,05% á árunum 1997 og 1998 til að mæta því ef þessum flutningi fylgdi meiri kostnaður en menn hafa gert sér grein fyrir. Við í nefndinni kölluðum m.a. á fulltrúa frá Reykjavíkurborg sem er langstærsta sveitarfélagið og það sem þarf að kosta mestu til til að koma á einsetningu grunnskólans. Það kom fram hjá fulltrúa Reykjavíkurborgar að borgin gerði ekki athugasemd við þennan samning, en hefði jafnframt áhyggjur af því hvort borgin fengi nægjanlegan skerf af aukaframlagi til þess að standa við sitt. En það er síðari tíma mál og ég ítreka, hæstv. forseti, að nefndin leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt.