Framhaldsskólar

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 18:38:29 (6670)

1996-05-28 18:38:29# 120. lþ. 150.10 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv. 80/1996, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 150. fundur

[18:38]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Örstutt andsvar. Mér þykir hafa gætt misskilnings í ræðu hv. þm. um að verið sé að þrengja inntöku nemenda. 1. málsl. 15. gr. gefur meginlínuna: ,,Allir sem lokið hafa grunnskólaprófi eða hlotið jafngilda undirstöðumenntun skulu eiga kost á að hefja nám í framhaldsskóla.`` Síðan er kveðið á um að reglugerð verði sett þar sem nemendur þurfa að uppfylla hugsanlega önnur skilyrði en þar um ræðir. Hér er í rauninni ekki um svo mikla nýjung að ræða eins og skilja mátti í ræðu hv. þm. Ég nefni sem dæmi að þetta er fyrir hendi t.d. hvað varðar þá sem hyggja á nám í sjómannaskóla. Þeir þurfa að hafa lokið grunnskólaprófi, þeir þurfa að hafa lokið siglingatíma. Það er atvinnulífið sem skilgreinir það. Það er eðli námsins. Ég tel því ekki að þar sé um svo róttæka breytingu að ræða sem hv. þm. nefndi. Þar er einnig gert ráð fyrir því að nemendur geti farið í fornám, þeim sem ekki hefur tekist að ljúka að öllu leyti grunnskólaprófi.

Fækkun bóknámsbrauta hefur átt sér stað. Hún er fyrst og fremst bókhaldslegt atriði eins og gerst hefur á síðustu árum. Það hefur áður gerst og ef ég man rétt í ráðherratíð hv. síðasta ræðumanns. En þótt bóknámsbrautum væri að nafninu til fækkað með ýmsum bókhaldslegum atriðum þá fækkaði þessum námsbrautum í rauninni ekki.

Af því að ræðutími minn er nú rétt á enda get ég ekki svarað öllum atriðum. En varðandi það sem hv. þm. nefndi síðast um millifærslur á milli launaliðar og rekstrarliðar þá hefur það lengi verið eitt aðalbaráttumál Skólameistarafélagsins. Það er eitt af þeim atriðum sem var tekið tillit til og því fagna skólameistarar og ýmsir skólamenn. Það tengist því að skólar hafi fjárhagslegt sjálfstæði, þeir fái til sín ákveðinn pott og geti spilað úr þeim potti. Það tel ég afskaplega mikilvægt varðandi sjálfstæði stofnananna.