Framhaldsskólar

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 18:40:42 (6671)

1996-05-28 18:40:42# 120. lþ. 150.10 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv. 80/1996, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 150. fundur

[18:40]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi það að bóknámsbrautunum hafi fækkað og það sé bókhaldslegt atriði, þá veit ég að hv. þm. kann það bókhald betur en ég. En mér finnst satt að segja skrýtið að setja þetta ákvæði um bóknámsbrautir yfir höfuð inn í lög. Það er satt að segja mjög sérkennilegt að ætla sér að skipa fyrir um eintök atriði í fyrirkomulagi skóla í lögum. Mér finnst það miðstýring og minnkandi frelsi skólanna andstætt því sem sagt er af flutningsmönnum frv.

Í öðru lagi varðandi þrenginguna eða ekki þrenginguna á inntöku í skólana met ég orð hv. þm. mikils. Ég hlusta á þau og ég tel að það skipti miklu máli að hann hefur sagt að það standi ekki til að þrengja þetta. Ég tel mikilvægt að sú yfirlýsing hans fylgi málinu ef að lögum verður svo ekki megi megi nota 1. málsl. 2. mgr. til þess að þrengja. Það er ekki heimilt samkvæmt því sem hv. þm. segir. Og miðað við það væri auðvitað rökréttast að hann styddi tillöguna um að fella þetta út.

Hann nefndi að millifærsla á milli launaliðar og rekstrarliðar væri gömul krafa Skólameistarafélagsins. Ég kannast við það. Hann sagði að skólameistarar mætu það mikils að þeir mættu flytja þarna á milli launaliðar og rekstrarliðar. Ég ætla ekki að segja fleira um það. En fleiri forstöðumenn ríkisstofnana mætu það líka mikils ef þeir mættu færa fjármuni á milli launa- og rekstrarliða.