Framhaldsskólar

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 18:42:36 (6672)

1996-05-28 18:42:36# 120. lþ. 150.10 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv. 80/1996, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 150. fundur

[18:42]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil bara ítreka að ég fagna því að þetta ákvæði um millifærslu sé inni. Ég tel að það muni styrkja sjálfstæði skóla og í rauninni get ég tekið undir það sem hv. þm. ýjaði að, þ.e. að fleiri stofnanir mættu búa við sömu skilyrði.

Varðandi þrengingu tel ég að mesta opnunin í frv. felist í megináherslum þess sem er áherslan á starfsmenntabrautir. Eins og fram hefur komið í umræðunni er í undirbúningi mikill fjöldi starfsmenntabrauta sem er eitt stærsta skrefið í jafnræðisátt fyrir nemendur, en starfsnámið hefur einmitt verið mjög veikur hlekkur í skólakerfi okkar. Þegar þessar námsbrautir verða komnar í rekstur munu þær einmitt svara ólíkum kröfum þess unga fólks sem kemur inn í framhaldsskólann. Það er meginstefna frv. og því ber að fagna af því að í því felst mikið jafnrétti.