Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 18:45:29 (6674)

1996-05-28 18:45:29# 120. lþ. 150.11 fundur 500. mál: #A Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins# (aðild kennara og skólastjórnenda) frv. 98/1996, fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 150. fundur

[18:45]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir örlitlu frv. sem er eitt þeirra frumvarpa sem þarf að afgreiða vegna yfirfærslu grunnskólans til sveitarfélaganna. Þetta er einfalt frv. í einni grein, reyndar tveimur með gildistökugreininni.

Í athugasemdunum við lagafrv. kemur fram að með frv. sé lagt til að kennarar og skólastjórnendur greiði áfram iðgjald til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins eftir að rekstur grunnskólans hefur verið fluttur frá ríki til sveitarfélaga. Efni frv. er í samræmi við ákvæði a-liðar 1. mgr. 57. gr. laga nr. 66/1995, um grunnskóla, en samkvæmt þeirri lagagrein er það meðal skilyrða fyrir því að fyrrgreind lög um grunnskóla taki gildi 1. ágúst 1996 að Alþingi hafi þá þegar samþykkt breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins sem tryggi öllum þeim kennurum og skólastjórnendum við grunnskóla, sem rétt hafa átt til aðildar að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, aðild að sjóðnum.

Í frv. er lagt til að réttur til aðildar að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins nái bæði til þeirra kennara og skólastjórnenda sem greitt hafa í sjóðinn sem ríkisstarfsmenn og til þeirra sem að óbreyttu verða ráðnir til starfa hjá grunnskólum eftir að sveitarfélög hafa tekið við rekstri þeirra. Heimild þessi nær ekkert frekar en áður til starfsmanna við einkaskóla.

Í frv. er lagt til að kennurum og skólastjórnendum við grunnskóla verði heimilt að greiða iðgjald í annan lífeyrissjóð ef þeir kjósa en þá þarf viðkomandi sveitarfélag að samþykkja viðkomandi sjóð.

Ég sé ekki ástæðu til þess, virðulegi forseti, að fjölyrða frekar um þetta frv. en bendi á að í umsögn fjmrn. um frv. kemur fram að í skýrslu kostnaðarnefndar og í samningum sem gerðir hafa verið er lagt til í fyrsta lagi að sveitarfélög beri ábyrgð á lífeyrisskuldbindingum vegna áunninna réttinda grunnskólakennara í þjónustu þeirra frá 1. janúar 1997, en ríkissjóður beri ábyrgðina til þess tíma. Í öðru lagi verði skuldbindingarnar fullnustaðar með greiðslu fulls iðgjalds til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og í þriðja lagi skal Jöfnunarsjóður sveitarfélaga bera bakábyrgð á þessum skuldbindingum.

Þetta samkomulag frá 4. mars þýðir í raun að hækka þarf framlag vinnuveitenda úr 6% í 10,5% miðað við núverandi aðstæður. Hækkunin er talin nema um 160 millj. kr. á ári og er hún innifalin í þeim tekjum sem fluttar verða frá ríki og til sveitarfélaga samkvæmt frv. til laga um breytingu á lögum nr. 4/1995.

Það er ekki ástæða til þess, virðulegi forseti, að fara frekari orðum um þetta. Þetta er mál sem hv. þingmenn þekkja rækilega. Það hefur verið rætt í tengslum við yfirfærsluna og er þetta gert í fullu samkomulagi við þá aðila sem að því samkomulagi standa. Ég leyfi mér að leggja til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.