Framhaldsskólar

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 18:49:27 (6675)

1996-05-28 18:49:27# 120. lþ. 150.10 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv. 80/1996, ÁÞ
[prenta uppsett í dálka] 150. fundur

[18:49]

Ásta B. Þorsteinsdóttir:

Herra forseti. Ég þakka fyrir að fá að mæla fyrir brtt. við frv. til laga um framhaldsskóla. Ég mun mæla fyrir þessum brtt. en þær eru lagðar fram af mér og hv. þm. Lúðvík Bergvinssyni, 6. þm. Suðurl. Áður en ég geri grein fyrir einstökum brtt. vil ég aðeins fá að fara nokkrum orðum um framhaldsskólann og frv. sem hér er til umræðu og vona að það skýri að einhverju leyti þau rök sem ég hef fram að færa varðandi þessar brtt.

Það hefur ekki farið fram hjá okkur að framhaldsskólinn hefur átt í verulegum vanda og jafnvel má segja að hann hafi átt í hálfgerðri tilvistarkreppu. Framhaldsskólinn hefur átt erfitt með að ná fótfestu í breyttu þjóðfélagi og hefur átt erfitt með að axla þá ábyrgð sem lög um hann hafa lagt honum á herðar og hefur e.t.v. vantað þar skýrari markmið og skýrari ramma í kringum þetta skólastig.

Það kemur fram í rannsókn sem prófessor Jón Torfi Jónasson við Háskóla Íslands gerði að allur þorri grunnskólanemenda sækir nú inn í framhaldsskóla landsins en langflestir sækja í bóknám en ekki í verknám. Það hefur komið á daginn að framhaldsskólinn er óskaplega óskilvirkur fyrir þessa nemendur og brottfall nemenda er á milli 40--50% í hverjum árgangi. Þetta eru vísbendingar um það að mikið sé að skipulagi náms og kennslu á þessu skólastigi sem og á framboði námsefnis. Fatlaðir nemendur, sem eru álíka margleitur hópur og ófatlaðir, eiga enn sem komið er afar erfitt uppdráttar víðast í framhaldsskólum landsins. Líkamlega fatlaðir nemendur komast þó nú orðið í fáeina framhaldsskóla þótt víða komist þeir enn ekki á milli hæða þar innan húss. Nemendur með ýmsar skynfatlanir hafa um enn þrengri kost að velja. Þó hefur Menntaskólinn við Hamrahlíð vakið verðskuldaða athygli hér og erlendis fyrir námsbrautir fyrir heyrnarskerta nemendur á framhaldsskólastigi og það má segja að nemendur með þroskaskerðingar reki lestina inn í framhaldsskóla landsins. Þó hefur Iðnskólinn í Reykjavík og örfáir aðrir skólar opnað dyr sínar að einhverju leyti fyrir þessum hópi nemenda.

Mikið þroskaheftir nemendur eru algerlega utan garðs á þessu skólastigi og setjast í raun á varamannabekk í lífinu sjálfu með því að eftir að skólagöngu á grunnskólastigi lýkur, lokast þeir inni í sérstökum námskeiðum eða brautum sem oft hafa mjög takmarkaða þýðingu fyrir þroska þeirra og hindra jafnvel þátttöku þeirra í hinu almenna samfélagi okkar allra. Ég held að það verði að segjast, herra forseti, að það sé mjög varhugavert þegar þetta frv. til laga um framhaldsskóla er lesið að fallast á að það verði settar svo miklar sérreglur um fatlaða eða með hvaða hætti og hvar skuli unnið með tilteknum hópum fatlaðra nemenda í skólakerfinu. Að mínu viti ætti meginreglan að vera sú að allir framhaldsskólarnir væru skyldaðir til að annast menntun allra nemenda í sínu skólaumdæmi. Innan slíks ramma mætti svo tryggja nauðsynlegan sveigjanleika svo sem að heyrnarlausum nemendum, sem er brýn nauðsyn á að vera saman í námsáföngum, verði tryggt það og að skólarnir skipti með sér verkum eftir framboði á menntunarbrautum og mannafla þannig að nemendur sem hafa áhuga á tilteknum námsbrautum verði þá beint inn á þær brautir svo sem nú er gert ráð fyrir. En það þarf að gilda fyrir alla nemendur.

Ég vil minna á að áhugi nemenda og þarfir en ekki fötlun ætti að vera forsenda fyrir vali á framhaldsnámi í hverju einstöku tilviki.

Herra forseti. Mér er kunnugt um að hagsmunasamtök fatlaðra og hagsmunasamtök foreldra fatlaðra hafa ítrekað komið á framfæri athugasemdum við frv. um framhaldsskóla en því miður hefur lítið af þessum ábendingum komist inn í þetta frv. sem hér liggur fyrir Alþingi til afgreiðslu. Því hef ég valið þann kost að kynna tillögur til breytinga sem ég vona að muni fá jákvæða umfjöllun þótt þær komi seint inn í umræðuna um framhaldsskólann.

Ég vil gera grein fyrir, herra forseti, brtt. við 15. gr. frv. þar sem talað er um inntökuskilyrði í framhaldsskólann og viljum við, meðflm. og ég, gera það að tillögu okkar að breyting verði á orðalagi í síðustu málsgrein þessarar greinar. Í stað þess að þar standi, með leyfi forseta: ,,nám í sérstökum deildum`` komi breyting sem hljóði svo: nám á ýmsum brautarkjörnum eða kjörsviðum. Ég vil gjarnan rökstyðja þetta örlítið og vitna þá til þess orðalags sem í frv. er. Ég vil beina þeim tilmælum til hv. menntmn. Alþingis að það verði tekið til greina að haga orðum þannig að aðgreining á fötluðum nemendum verði ekki meiri en þörf er á. Ég vil rökstyðja þetta aðeins frekar hér. Við höfum hér sett þau lög að einn skóli skuli vera fyrir alla og það er í raun úrelt sjónarmið að stofna sérstakar deildir fyrir sérstaka hópa nemenda, hvort sem um er að ræða nemendur á grunnskóla- eða framhaldsskólastigi.

Eins og ég sagði áðan, herra forseti, eru fatlaðir nemendur ekki einslitur hópur og eru þarfir þeirra og áhugamál jafnmörg jafnmismunandi og meðal ófatlaðra. Stundum getur verið kostur að fatlaðir nemendur sem þess æskja og þurfa hafi afdrep í skólanum vegna ýmissa persónulegra þarfa, en sérstakar deildir þurfa fæstir þeirra og ég vil leyfa mér að fullyrða enginn í raun.

En ef ég vík aftur að 15. gr. og þeim breytingartillögum sem við höfum lagt fram, höfum við í b-lið óskað eftir því að gera tillögu um að við hana bætist ný mgr., svohljóðandi:

,,Óheimilt er að synja nemanda um skólavist í framhaldsskóla vegna slæms aðgengis hreyfihamlaðra að húsnæðis skólans, samanber byggingarreglugerð.``

Herra forseti. Þetta er tekið inn í okkar breytingartillögur að gefnu tilefni. Á því herrans ári 1996 stöndum við enn frammi fyrir því að það er verið að reisa skólahúsnæði fyrir framhaldsskóla landsins og það hefur því miður láðst að tryggja að þar sé aðgengi fatlaðra í lagi frá upphafi reksturs þessa skóla. Ég er að vitna til þess skóla sem mun taka til starfa á hausti komanda, Borgarholtsskólans í Reykjavík. Ég hef af því fregnir að þar muni ekki verða mögulegt fyrir hreyfihamlaðan nemanda að komast um húsnæði skólans, alla vega ekki á þessu ári og ekki fyrr en í næsta áfanga þessarar skólabyggingar. Ég tel það mjög alvarlegt mál að þetta skuli henda menntamálayfirvöld í ljósi allrar þeirrar umræðu sem hefur orðið um réttindi fatlaðra til þess að hafa aðgengi að samfélaginu alls staðar og á öllum stigum þess og að menntamálayfirvöld sem vilja reka skóla fyrir alla skuli láta það henda sig að skóli sem hefur störf skuli ekki geta tekið við öllum nemendum sem þangað óska að koma til að sækja sér nám.

Ef ég held áfram, herra forseti, og mæli fyrir þeirri brtt. sem við gerum við 19 gr., þá höfum við lagt til, með leyfi forseta, að í stað 2. mgr. komi þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:

,,Tryggja skal nemendum sem eru fatlaðir námstilboð við hæfi og búa þeim aðgengilegar námsaðstæður og umhverfi.

Brautarkjarnar og kjörsvið, sem og frjálst val nemanda, skulu skipulögð í samræmi við lokamarkmið námsins og löguð að þörfum nemenda.

Nemanda, sem vegna þroskaskerðingar eða fötlunar getur ekki axlað sömu námskröfur og ófatlaðir, skal gert kleift að færast á milli áfanga eða bekkja í samræmi við námsframvindu og aldur.``

[19:00]

Ég held að þessar greinar skýri sig nokkuð vel sjálfar, herra forseti, en ég vil þó aðeins fjalla örlítið um anda þessa frv. Ástæður þess að við gripum til þess ráðs að koma með þessar brtt. núna er að það virðist vera sem hv. menntmn. Alþingis hafi á einhverju stigi í vinnu sinni við þetta frv. látið af fyrri áformum sem birtust okkur í grunnskólalögum eða frv. um grunnskólalög þegar það var til meðferðar á hv. Alþingi. Mig langar til að vísa í þann málflutning sem hv. menntmn. hafði þar uppi, en það voru mjög sterk og vönduð rök sem hún færði gegn því að það ætti að setja sérstaka sérkennslureglugerð fyrir nemendur með sérþarfir í grunnskólum. Sérstök reglugerð er aðgreinandi og brennimerkir þá sem hún nær til. Það er skynsamlegt að hafa almennar reglugerðir, skólanámskrár o.s.frv. þannig úr garði gerðar að þær skapi skólanum svigrúm til að prófa mismunandi útfærslu náms og kennslu. Hið eina sem þarf að tryggja vendilega er að framhaldsskólar sem taka við mikið fötluðum nemendum fái nægilegt fjármagn með nemandanum til þess að unnt sé að mæta nauðsynlegum kostnaði vegna hans.

Ég held að ég verði að undirstrika að ég hefði óskað þess að menntmn. Alþingis hefði verið þeim sjónarmiðum sínum trú við gerð grunnskólalaga og fært þau áfram inn í þetta frv. sem nú liggur fyrir um að það væri óþarfi að aðgreina nemendur sérstaklega með sérstökum sérkennslureglugerðum eða sérstökum sérdeildum. Ég vona að þessar brtt. muni fá jákvæða umfjöllum þó þær komi seint fram.

Ég vil gjarnan, með leyfi forseta, minna á að á sl. ári skilaði starfshópur á vegum menntmrn. tillögum um námsframboð til fatlaðra í framhaldsskólum á höfuðborgarsvæðinu. Þessi starfshópur var sammála um að hætta að tala um sérstakar deildir fyrir ákveðna hópa nemenda, heldur værum við að horfa á námstilboð og námsáfanga á sama hátt og gagnvart öðrum nemendum, við værum auðvitað að búa þessum nemendum nám við hæfi en það þýðir ekki endilega að það þurfi að loka þau námstilboð inni í sérstökum deildum. Þau eiga að vera eins fjölbreytt og margbreytileg og þessir nemendur eru vissulega.

Herra forseti. Ég minntist áðan á þann vanda sem framhaldsskólinn hefur staðið frammi fyrir um að mæta þeim kröfum sem hafa verið gerðar til hans um námsþarfir ólíkra nemendahópa. Ég vitnaði enn fremur til rannsóknar prófessors Jóns Torfa Jónassonar þar sem fram kom að brottfall nemenda fyrstu ár í framhaldsskóla væri allt að 40--50% og eru þetta vissulega alvarleg tíðindi. Það gefur auga leið að þessi stóri hópur nemenda hefur ekki fundið sér nám við hæfi innan framhaldsskólans þrátt fyrir skýr markmið laganna um rétt þeirra sem þess óska og hafa lokið grunnskólanámi eða hlotið jafngilda undirstöðumenntun til þess að setjast í framhaldsskóla og finna sér nám við hæfi. Þannig er ljóst að framhaldsskólinn hefur ekki staðið undir þeim væntingum sem voru gerðar til hans.

Ég tel nauðsynlegt gagnvart þeim hópi sem ég hef talað um og vakið athygli hv. Alþingis á að mjög skýrt sé að orði kveðið í lögum um réttindi þeirra, ef þeir eiga ekki áfram sem hingað til að knýja á dyr framhaldsskólanna án þess að þeim sé lokið upp fyrir þeim. Það er allt of oft þannig að þessir hópar hverfa úr námi 18 ára gamlir og hafa ekki nokkra möguleika á að undirbúa sig undir fullorðinsárin, það líf og það starf og þær kröfur sem gerðar eru til fólks á fullorðinsárum. Því vona ég, herra forseti, að þessar brtt. sem hér hafa verið kynntar og mælt fyrir hljóti umfjöllun og vonandi samþykki Alþingis þó seint séu fram komnar. Ég tel alveg nauðsynlegt að ef við viljum meina eitthvað með markmiðum þessara laga um að allir eigi rétt á námi við hæfi í framhaldsskólum landsins, þá verðum við að gera ögn betur en þetta framhaldsskólafrv. sem hér liggur fyrir boðar.