Framhaldsskólar

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 20:33:13 (6676)

1996-05-28 20:33:13# 120. lþ. 150.10 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv. 80/1996, Frsm. 2. minni hluta GGuðbj (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 150. fundur

[20:33]

Frsm. 2. minni hluta menntmn. (Guðný Guðbjörnsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég ræddi þetta mál, frv. til framhaldsskóla, ítarlega bæði við 1. og 2. umr. málsins og skilaði minnihlutaáliti ásamt hv. þm. Sigríði Jóhannesdóttur, Alþb. Mín skoðun á þessu frv. hefur ekkert breyst frá fyrri umræðum. Þetta er frv. sem gerir lítið annað en tryggja að menntmrh. hafi meiri hluta í öllum skólanefndum landsins og um leið eru fulltrúar kennara og nemenda teknir alfarið út úr skólanefndum. Ég vil endurtaka þá skoðun mína að þetta frv. boðar að mínu mati ómannúðlega menntastefnu sem ekki verðskuldar framgang.

Það er að mínu mati nokkurt umhugsunarefni fyrir mig sem uppeldisfræðilega menntaða manneskju hvernig stjórnvöldum dettur í hug að setja löggjöf sem ekki er í sátt eða a.m.k. samin í samráði við samtök kennara, löggjöf sem er í fullkominni andstöðu ekki bara við samtök framhaldsskólakennara heldur einnig að mér virðist við velflesta skólamenn landsins ef marka má þann fjölda athugasemda sem nefndinni bárust svo að segja við hverja einustu grein frv. Ég velti því fyrir mér hvort þessi ríkisstjórn áttar sig ekki á því að uppeldisleg samskipti eru öðruvísi en önnur samskipti og þess vegna skiptir andrúmsloftið í skólum mjög miklu máli ef árangur á að nást.

Samskiptin í skólastofum eru nefnilega allt öðruvísi heldur en samskipti úti í viðskiptalífinu. Því skiptir afar miklu máli að kennarar séu sáttir við sitt nánasta starfsumhverfi og þar á meðal lagarammann sem þeir starfa eftir. Rannsóknir sýna það reyndar svart á hvítu, að andrúmsloftið í skólum skiptir mjög miklu máli.

Ég benti á þetta atriði í fyrri umræðum en auk þess benti ég á að þetta frv. eykur miðstýringu, það eykur vald menntmrh., það fækkar í skólanefndum eins og ég sagði áðan. Þess vegna get ég alls ekki séð að sjálfsstjórn skóla verði aukin svo að nokkru nemi eins og haldið er þó fram.

Auk þessa benti ég á þrjú önnur atriði sem ég vil aðeins nefna stuttlega að þessu sinni. Í fyrsta lagi benti ég á að uppbygging starfsnámsins er mjög óviss og óljós. Um er að ræða rammalöggjöf og það eru fyrst og fremst atvinnurekendur sem eiga að ráða mestu um það hvernig þessi rammi verður útfærður eða útfylltur. Tilhögun starfsnáms á framhaldsskólastigi og háskólastigi er ekki skoðað í samhengi og því tekur þetta frv. ekki mið af ýmsum staðreyndum, t.d. varðandi tíðni stúdentsprófs nú til dags og hvernig sá hópur sem lýkur stúdentsprófi kemst í starfsnám. Staðan er núna sú að fjölmargir þeirra fara í iðnskóla að loknum menntaskóla. Það bólar ekkert á rammalöggjöfinni um háskólastigið sem er mjög miður því að það hefði verið æskilegt að móta þessa stefnu alveg heildstætt. Því má segja að þetta frv. taki ekki nægilega mið af núverandi stöðu og muni því litlu breyta. Fólk mun að mínu mati halda áfram að sækja bóknám umfram verknám, ekki síst ef ekkert viðbótarfjármagn kemur til verknámsins sem ætla má að verði raunin ef miðað er við umsagnir fjármálaskrifstofunnar um þetta frv. og það sem hingað til hefur verið sagt af hálfu stjórnvalda um það mál.

Í öðru lagi benti ég á þá staðreynd að ef stúdentsprófið er að öðlast svipaðan sess og gagnfræðaskólaprófið gerði forðum og megineftirspurnin í menntastefnu framtíðarinnar verður að öllum líkindum eftir stuttu starfsnámi að loknu stúdentsprófi er mjög óeðlilegt að framhaldsskólinn sé áfram fjögur ár. Þetta er viðurkennt í nefndarálitinu, þ.e. að það sé æskilegt og ekki síður til samræmingar við önnur lönd að stytta framhaldsskólann í þrjú ár. En í raun er ekkert gert frekar með þá hugmynd eða mjög lítið. Að þessu leyti vísar því frv. aftur til fortíðar en ekki framtíðar að mínu mati.

Í þriðja lagi vakti ég athygli á því að aukin áhersla á samkeppni, inntökupróf, samræmt próf og afnám svæðaskiptingar framhaldsskólans muni veikja stöðu þeirra hópa sem ekki fá góðar einkunnir á grunnskólaprófi eða góðar einkunnir í framhaldsskólanum yfirleitt. Þessi atriði sem ég nefndi, samkeppnin, inntökuprófin og aðalnámskráin munu að öllum líkindum stuðla að stöðlun og lagskiptingu á viðurkenndri þekkingu. Það er mjög hættulegt að mínu mati í heimi þar sem þekkingarsköpun er jafnhröð og hún er nú. Þetta er áhyggjuefni, ekki síst vegna þess að vald menntmrh. með tilliti til skólanefnda og menntmrn. með tilliti til aðalnámskrár grunnskóla er mikið og þetta vald er í höndum of fárra að mínu mati fyrir lýðræðisþjóðfélag sem á að vera í stöðugri breytingu.

Þessi atriði sem ég hef núna nefnt tengjast þeim brtt. sem hér hafa verið kynntar við 3. umr. frv. af stjórnarandstöðunni, bæði varðandi stöðu fatlaðra og skipan skólanefnda svo eitthvað sé nefnt. Þessar brtt. verða að öllum líkindum felldar ef marka má vinnubrögð meiri hlutans til þessa og því mun ég ekki ræða þær nánar hér en mun styðja þær tillögur sem til bóta horfa, eins og segir í nefndaráliti 2. minni hluta.

Að lokum vil ég minna á þær efasemdir sem ég setti a.m.k. fram við 1. umr., þ.e. að það orki tvímælis að fella úr gildi lög um almenna fullorðinsfræðslu með því að lögfesta þetta frv. Í því sambandi vil ég vekja athygli á ályktun 38. þings ASÍ núna frá 24. maí 1996. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Alþýðusamband Íslands mótmælir harðlega þeirri fyrirætlan að leggja af lög um almenna fullorðinsfræðslu. Jafnframt telur Alþýðusambandið ótækt að lög um framhaldsskóla leysi lög um fullorðinsfræðslu af hólmi.`` Þá segir síðar í þessari ályktun: ,,Alþýðusamband Íslands leggur eindregið til að lög um almenna fullorðinsfræðslu fái að standa jafnframt því sem vinna hefjist við endurbætur þeirra þar sem skoðuð verði sérstaklega fjármögnun fullorðinsfræðslunnar.``

Ég nefni þetta hér vegna þess að við fyrri umr. kom fram hjá hæstv. menntmrh. að þessi lög um almenna fullorðinsfræðslu hefðu ekki reynst auðveld í framkvæmd og þess vegna bæri að afnema þau. Ég er enn alls ekki sannfærð um að þrjár greinar, ég held að það séu þrjár greinar í þessu frv., geti leyst af heilan lagabálk. Því vil ég enn og aftur spyrja hæstv. menntmrh. hvort hann telji að þetta gangi upp með þessum hætti. Þar á ég ekki síður við ákvæði sem lúta að almennu tómstundanámi.

Það er að mínu mati áhyggjuefni, herra forseti, hvernig komið er fyrir framhaldsskólum landsins. Það var opnað á frjálsa þróun þeirra. Í u.þ.b. 20 ár þróaðist þessi skóli mjög frjálst og þetta hefur valdið því að það er stór hópur nemenda í framhaldsskólunum sem ræður ekki við það framboð sem þar er. Þess vegna er brottfall nemenda mjög mikið og stúdentsprófið er það próf sem langflestir stefna að, enda hefur starfsnámið verið vanrækt. Starfsnámið hefur orðið út undan og við skulum minnast þess að starfsnám kostar meiri peninga og það er að mínu mati fyrst og fremst fjármagn sem vantar til þess að efla starfsnámið í landinu. Ekki ný lög sem horfa til fortíðar.

Þá vil ég geta þess að fulltrúar frá Iðnskólanum í Reykjavík hafa nýlega bent okkur þingmönnum á það að sú ákvörðun sem liggur fyrir um skólagjöld, innritunargjöld heita þau víst í þessu frv., geti orðið til þess að framlög til framhaldsskólans verði skorin niður með tvennu móti og látið í ljós verulegar áhyggjur að þessu leyti. Ef það reynist rétt, má ljóst vera að þetta frv. verður ekki lyftistöng fyrir starfsnámið í landinu, enda er í reynd dálítið athyglisvert að hæstv. menntmrh. og þeir sem flytja þetta frv. hafa ekki sett það á oddinn í þessari umræðu. Þetta er frv. sem mun fyrst og fremst tryggja vald örfárra aðila yfir framhaldsskólum landsins. Ég lét þá skoðun í ljós við 1. umr. þessa máls að þar sem framhaldsskólinn hefur þróast mjög stjórnlítið eða stjórnlaust í 20 ár, sé e.t.v. nauðsyn á því að grípa inn í málin með markvissum hætti núna til að tryggja að skólakerfið sé í takt við tímann og þjóðfélagið.

Það má segja að hér er svo sannarlega verið að grípa inn í málin. En að þetta frv. taki mið af þeirri þróun sem átt hefur sér stað bæði hér og erlendis er af og frá að mínu mati. Ég mun því ekki greiða þessu frv. mitt atkvæði við afgreiðslu þess.