Framhaldsskólar

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 20:47:29 (6677)

1996-05-28 20:47:29# 120. lþ. 150.10 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv. 80/1996, SJóh
[prenta uppsett í dálka] 150. fundur

[20:47]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Það fór víst ekki á milli mála þegar ég flutti ræðu mína við 2. umr. um þetta frv. að ég er ekki einn af einlægustu aðdáendum þess. Frv. hefur ekki breyst svo heitið getur síðan og skoðun mín hefur ekki breyst. Ég er ekki ein um þetta álit á þessu frv. Það fara líka sögur af þingi HÍK sem var haldið rétt fyrir jól þar sem voru saman komnir á annað hundrað manns sem lögðu það á sig að leggjast í tvo daga yfir þetta frv. í smáatriðum og ræða það alveg frá morgni til kvölds. Niðurstaðan varð sú að það var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum að samþykkt þessa frv. mundi ekki bæta íslenska framhaldsskólakerfið heldur þvert á móti.

Ég mun fara yfir nokkrar greinar frv. sem ég get einna síst fellt mig við. Hv. þm. Svavar Gestsson hefur fyrir hönd okkar í þingflokki Alþb. lagt fram brtt. við nokkrar greinar, en ég ætla að byrja á því að minnast á markmiðsgrein frv.:

,,Hlutverk framhaldsskóla er að stuðla að alhliða þroska allra nemenda svo að þeir verði sem best búnir undir að taka virkan þátt í lýðræðisþjóðfélagi. Framhaldsskólinn býr nemendur undir störf í atvinnulífinu og frekara nám.``

Fyrir það fyrsta hefði ég talið að það væri markmið slíks frv. og markmið framhaldsskólans að búa fólk ekki aðeins undir störf í atvinnulífinu og frekara nám heldur víkka sjóndeildarhring þessara ungmenna sem þarna stunda nám með því að veita þeim þar góða almenna menntun. Ég tel að góð almenn menntun sé undirstaða þess að við náum árangri í því sem ég tel eitt veigamesta viðfangsefni okkar á Íslandi í dag og það er að breyta verðmætamati unga fólksins. Þetta snýst ekki bara um það að vera nógu fljótur að eignast jeppa. Það eru aðrir hlutir í lífinu sem skipta meira máli og ég held að það þurfi einmitt á þessum árum í framhaldsskólanum að leggja undirstöðuna að þessari lífsskoðun. En það hefur höfundum frv. greinilega ekki fundist og mér fannst þegar ég leit á danska frv., sem ég hef frétt að hafi að nokkru leyti verið haft til viðmiðunar þegar þetta frv. var samið, að þeir legðu einmitt mikla áherslu á þennan menningarlega þátt í skólastarfinu. En hann er greinilega ekki eins hátt skrifaður hér.

Svo förum við yfir í 3. gr. Þar er ég hrædd um að hæstv. menntmrh. muni þurfa að klífa fyrsta klettahjallann og þó ekki þann síðasta eftir að þetta frv. hefur verið samþykkt, sem það væntanlega verður. Þarna er gert ráð fyrir að kennsludagar verði ekki færri en 145, en þeir voru áður 130. Þetta er fjölgun um 15 daga og ég hef það eftir áreiðanlegum heimildum að það sé alveg afráðið að framhaldsskólakennarar hefji ekki störf í haust fyrr en um það hefur verið samið hvernig verður greitt fyrir þessa 15 daga.

Um daginn svaraði hæstv. menntmrh. fyrirspurn frá hv. þm. Margréti Frímannsdóttur um hvort þessi breyting eða þetta sem þyrfti að borga kennurum til viðbótar rúmaðist innan fjárlaga. Hæstv. menntmrh. taldi svo vera. En ég er ansi hrædd um að það sé ekki ef reiknað er með þeim tölum sem ég hef heyrt úr herbúðum kennara að þeir ætli sér í skaðabætur fyrir þessa 15 daga sem þarna bætast á þá og þar að auki, jafnvel þótt allt verði greitt upp í topp, hafa þeir margir efasemdir um að þetta geti rúmast með prófum og öllu öðru innan þess 9 mánaða starfstíma sem skólanum er ætlaður. En það mun auðvitað koma í ljós.

Hv. þm. Svavar Gestsson hefur af hjálpsemi sinni alkunnri lagt fram brtt. um að við bætist nýtt ákv. til brb. um að þessi grein taki ekki gildi fyrr en um það hefur verið samið hvernig fyrir þetta verði greitt. Ég sé ekki betur en það sé mjög ákjósanlegt fyrir meiri hlutann sem ber fram þetta frv. að mæla með því að þetta bráðabirgðaákvæði verði samþykkt og Svavar hafi þar með skorið þá niður úr snörunni.

Það eru margar fleiri greinar í frv. sem eru athugunarverðar en ég ætla aðeins að fara yfir það sem mér finnst mest sláandi. Í 6. gr. er ákvæði sem margir hv. þm. hafa haft orð á um skipun skólanefndar. Ég hef lengi setið í skólanefnd Fjölbrautaskóla Suðurnesja og þar af mörg ár sem formaður og ég verð að segja að ég fæ ekki skilið hvaða ástæður eru fyrir þessari lagabreytingu sem hér er lögð til. Mér hefur allan tímann fundist þetta ganga afskaplega vel eins og þetta hefur hingað til verið og sérstaklega finnst mér mikilvægt að fá að hafa fulltrúa nemenda í skólanefndinni með atkvæðisrétt vegna þess að það skiptir miklu máli fyrir nemendurna í skólanum að vita að það þarf að taka tillit til þess sem þau leggja til. Þau sitja þarna með fullum réttindum. Og það sem hefur komið frá þessum fulltrúum nemenda, að ég tali ekki um fulltrúa kennara, þessi ár sem ég hef setið þarna, hefur allt verið til bóta.

Hv. þm. Svavar Gestsson leggur til að í stað þeirra þriggja sem eiga að vera tilnefndir af hæstv. ráðherra verði tveir þeirra tilnefndir samkvæmt tilnefningu starfsmannafundar. Ég verð að segja að mér finnst þetta ákvæði vera, ef það verður samþykkt, mjög til bóta.

Nú kem ég að 11. gr. sem varðar skipun skólameistara. Það er búið að fallast á það að skólameistarinn sé aðeins skipaður til fimm ára í senn, í samræmi við alræmt frv. um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna, að fenginni tillögu hlutaðeigandi skólanefndar. Það er ekkert minnst á að kennarafundur eigi að hafa nokkurn umsagnarrétt um það hver verður skipaður skólameistari í viðkomandi skóla. Ég verð að segja að sú brtt. sem hv. þm. Svavar Gestsson leggur hér til um að þarna bætist inn ,,og umsögn kennarafundar`` fyndist mér verða mjög til bóta ef samþykkt yrði. Ég veit að ef slíkt ákvæði yrði samþykkt, yrði það til að gera marga kennara mun sáttari við frv. en þeir eru nú.

Það er merkilegt hvernig hér virðist vera markvisst í hverri greininni á fætur annarrar dregið úr áhrifum kennara innan skólans sem er þó hópur sem virkilega leggur sig allan fram, leggur oft á tíðum frítíma sinn í að ræða skólamál og ræða það sem betur má fara í skólanum. Allt í einu virðist manni að þetta séu orðnir óvinir skólans númer eitt og þurfi helst að halda þeim sem allra mest fyrir utan umræðuna. Ég verð að segja að það er einhver hugsunarháttur á bak við þetta sem ég skil ekki, sérstaklega með tilliti til þess sem hefur verið rætt mikið undanfarið um gæðastjórnun sem einmitt byggist á því að það sé sem allra mest tillit tekið til tillagna frá starfsmönnum viðkomandi stofnana og þeir verði gerðir meðábyrgir.

Í 14. gr. kemur ákvæði sem ég ætla að taka mjög eindregið undir:

,,Nemendum í framhaldsskóla skal standa til boða ráðgöf og leiðsögn um náms- og starfsval og persónuleg mál er snerta nám þeirra og skólavist. Slíka þjónustu veita námsráðgjafar, kennarar og annað starfsfólk eftir því sem við á.``

[21:00]

Ég verð að segja að að mínu mati mun efling þess þáttar sem heitir námsráðgjöf bæði í grunnskólum og framhaldsskólum vera það atriði sem vegur þyngst ef við ætlum að reyna að draga úr þessu brottfalli sem verður í framhaldsskólunum og jafnvel á síðasta stigi í grunnskóla. Ég held að þar sem eru góðir námsráðgjafar og þar sem þessu ákvæði er beitt hafi þetta stýrt málum mjög til betri vegar. Ég held að fyrst og fremst þurfi að setja inn meira fjármagn þannig að enn þá meira gagn verði að þessu en er núna. Þarna held ég að sé atriði sem hægt er að beita til góðs í framhaldsskólunum. Það hefur að vísu verið inni áður í eldri lögum en það dregur ekki úr gildi þess.

Í 15. gr. er ákvæði í 1. málsl. 2. mgr. sem segir:

,,Inntaka nemenda á einstakar námsbrautir framhaldsskólans ákvarðast af þeim kröfum sem gerðar eru í viðkomandi námi.``

Ég er búin að ræða við margt skólafólk, bæði skólastjórnendur og kennara um þetta ákvæði og allir skilja þetta á einn veg, þ.e. ef einhver tilgangur er með því og ef það hefur ekki villst þarna inn þá er það til þess að hægt sé að takmarka aðgang að einstökum skólum og einstökum námsbrautum. Stjórnendur Menntaskólans í Reykjavík gætu t.d. sagt að enginn yrði tekinn inn í skólann sem er með einkunn undir átta á samræmdum prófum. Þar með er hann orðinn A-skóli. Hvert eiga þá hinir að fara sem ekki ná átta í samræmdum fögum? Þeir fara þá í B-skólann eða C-skólann. Með þessu ákvæði aukast líkur á að svo verði gert. Því miður óttast ég að sú verði niðurstaðan. Þeir sem eru neikvæðastir segja að ákveðnar námsbrautir vilji takmarka aðgang, t.d. hafa rafvirkjar alltaf verið mjög harðir á því að ekki kæmist hver sem er í rafvirkjun. Þeir geta ákveðið svo í starfsgreinaráði sínu að það verði sett lágmarkseinkunn, t.d. að enginn komist inn í rafvirkjun nema sá sem hafi átta eða níu í samræmdum greinum. Svo eigi að nota ákvæði sem er seinna í greininni og hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Heimilt er skólameistara, að undangengnu mati, að veita nemanda sem orðinn er 18 ára gamall inngöngu á einstakar námsbrautir framhaldsskóla þótt hann uppfylli ekki lágmarkskröfur um námsárangur við lok grunnskóla.``

Þarna er komið opnunarákvæði. Þarna geta þeir t.d. tekið inn á rafiðnaðarbraut mann sem hefur sérstakar ástæður, er t.d. rafvirki í allar ættir. Það er hægt að veita honum undanþágu. Þeir sem eru allra neikvæðastir segja svona. Ég vona að niðurstaðan verði ekki svona. En fólki finnst að þetta ákvæði geti opnað á slík vinnubrögð.

17. gr. fjallar um að námsbrautir framhaldsskóla skuli skipulagðar í samræmi við lokamarkmið námsins. Okkur sem höfum í gegnum árin verið aðdáendur áfangakerfisins finnst að þarna sé verið að ákveða endalok þess með því sem stendur í öðrum greinum um ákveðnar brautir til stúdentsprófs. Mér finnst það nokkuð mikil miðstýring að það þurfi að vera búið að skipuleggja allar námsbrautir framhaldsskóla í samræmi við lokamarkmið. Ég hef því miður upplifað það að þetta ágæta fólk er ekki allt alveg ákveðið hvert halda skal þegar það byrjar í framhaldsskóla og vill gjarnan leita fyrir sér og rása milli brauta og svo á endanum finnur það sér stað. Mér hefur fundist mjög gott að fólk gæti gert þetta. Mér hefur fundist þetta frelsi mikils virði.

Í 19. gr. er grein segir svo, með leyfi forseta: ,,Fatlaðir nemendur skulu stunda nám við hlið annarra nemenda eftir því sem kostur er.`` Ég tek að sjálfsögðu undir það að fatlaðir nemendur eiga að stunda nám við hlið annarra ef þess er kostur. En ég vil líka benda á það, sem mér finnst stundum gleymast, að fötlun er stundum þess eðlis að það er mjög erfitt fyrir þessi börn að stunda nám við hlið annarra. Það getur verið mjög mikil líkamleg fötlun og það getur líka verið mjög mikil andleg fötlun. Í Öskjuhlíðarskóla og Safamýrarskóla, þar sem eru mjög mikið andlega fatlaðir einstaklingar, hefur á undanförnum árum verið starfrækt tveggja ára starfsbraut fyrir einstaklinga sem koma úr þessum skólum eftir að þau hafa lokið 10. bekk. Þetta hefur verið mjög vinsælt. Þau hafa getað fengið að vera þar í sínu gamla umhverfi með sínum gömlu félögum og reynt að læra ákveðin handtök og vinnubrögð sem munu nýtast þeim í lífinu. En það fór ekki betur en svo þegar við fórum að flytja grunnskólann yfir á sveitarfélögin og samband sveitarfélaga átti að taka við sérskólunum að það var á einu augnabliki útlit fyrir að þessar deildir mundu leggjast niður. Þær áttu að fara í framhaldsskólann og þarna áttu þessi börn að stunda nám við hlið annarra nemenda eftir því sem kostur væri. Það tókst að forða því þannig að a.m.k. næsta ár verða þessar deildir starfræktar Í Öskjuhlíðarskóla og Safamýrarskóla. Ég vona að samstaða verði um að varðveita þær deildir í framtíðinni þannig að þessi börn þurfi ekki að hrekjast út í hina almennu framhaldsskóla því ég er þess fullviss að þeim mun flestum líða mjög illa þar. Það er annað mál að við setjum í almenna skóla alla sem hugsanlegt er að þar geti stundað nám. Það er annað mál.

Í 21. gr. stendur m.a., með leyfi forseta: ,,Aðalnámskrá, er menntamálaráðherra setur, er meginviðmiðun skólastarfs.``

Ég veit ekki hvort það er kjaftasaga en það gengur alla vega milli skólamanna að þessi aðalnámskrá verði tilbúinn árið 2001. Ég ætla að vona að þetta sé rangt. En ef svo er, hvers vegna liggur þá svona á að keyra þetta frv. um framhaldsskóla fram á þessu þingi ef meginviðhorfin vantar?

Ég vil taka undir brtt., hv. þm. Svavars Gestssonar, við 21. gr. um stigamatið. Ég tel mjög brýnt að hún verði samþykkt.

Í 22. gr. hljóðar síðasta málsgreinin svona, með leyfi forseta: ,,Skólanámskrá skal samþykkt af skólanefnd að fenginni umsögn almenns kennarafundar. Skólanefnd fylgist með framkvæmd skólanámskrár.``

Ég verð að segja af þeirri ágætu reynslu sem ég hef fengið af skólanefnd Fjölbrautaskólans í Keflavík að ég veit ekki hvernig ætti að réttlæta það að ein skólanefnd sæti og samþykkti eða synjaði skólanámskrá sem kennarahópurinn væri væntanlega búinn að leggja margra mánaða vinnu í að semja. Það semur náttúrlega enginn einn heill hópur þessar skólanámskrár. Þessu er skipt niður á deildir. Svo er þetta sett saman og ákveðnum yfirhópi er falið að sjá um samsetninguna. Ég verð að segja að mér finnst mjög mikilvægt að það standi í lögum að kennarafundur eigi að fjalla um þessar skólanámskrár og samþykkja þær fyrir sitt leyti eins og lagt er til í brtt. hv. þm. Svavars Gestssonar. Skólameistari þarf svo að fylgjast með framkvæmd hennar. Ég get ekki séð að það sé á nokkurn hátt nauðsynlegt að skólanefnd komi yfirleitt að málinu. Þarna er mál sem snertir innra starf skólans en ekki fjármál eða húsbyggingar eða annað sem er sérstaklega í verkahring skólanefndar. Ég legg eindregið til að þessi brtt. sem hv. þm. Svavar Gestsson hefur lagt fram við 22. gr. verði samþykkt.

Í síðari málsgrein 24. gr. stendur, með leyfi forseta:

,,Lokapróf úr framhaldsskóla, svo sem stúdentspróf og burtfararpróf af starfsmenntabrautum, er veitt geta rétt til frekara náms eða réttindi til starfa, skulu vera samræmd í tilteknum greinum sem nánar er kveðið á um í reglugerð. Í reglugerð skal einnig kveðið nánar á um framkvæmd samræmdra prófa í framhaldsskólum, svo og sveinsprófa.``

Sveinspróf hafa hingað til verið samræmd. Ég held að það sé ekkert því til fyrirstöðu að þau verði það áfram. En ég vara alvarlega við því að það séu tekin upp samræmd próf eins og við erum að vandræðast með í 10. bekkjum öllum til óþurftar. Það hefur mjög stýrandi áhrif á skólastarfið til hins verra að ég tel að við förum að stýra stúdentsprófunum yfir allt landið með slíkum hætti. Það sitji einhver stofnun í lokuðu herbergi í Reykjavík og semji samræmd stúdentspróf fyrir landið svo það þori aldrei neinn að líta upp úr námskránni sem þar að auki er ekki til. Það væri ráðlegt að fella þetta ákvæði burt og það sem skjótast.

Að lokum langar mig að minnast á það að í 28. gr. þar sem fjallað er um starfsgreinaráð er ekki gert ráð fyrir fulltrúa kennara eða starfsmenntakennara í viðkomandi starfsgrein í þessi starfsgreinaráð. Þarna er komin ein atlagan enn að virðingu kennarastéttarinnar sem mér finnst svo óskiljanleg í þessu frv. Ég þekki enga stétt hér á landi sem leggur annan eins metnað í starf sitt og í faglegan undirbúning. En eins og ég hef áður getið um virðist allt í einu eins og það eigi að forðast það sem þeir leggja til í helst öllum greinum. Ég tek undir að í starfsgreinaráði séu fulltrúar samtaka atvinnurekenda, launamanna og kennara í viðkomandi starfsgreinum. Ef þetta væri samþykkt svo og fleira sem hefur komið fram í breytingartillögunum frá minni hlutanum held ég að þessu frv. væri minna hætt en annars væri.

[21:15]

Sérstaklega vegna ákvæðis í 15. gr. finnst mér ákveðin hætta á því að verið sé að skapa möguleika til að koma upp A-skólum og B-skólum. Ekki bara því heldur með samþykkt frv. um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna sé verið að búa til möguleika til þess að það verði eins og í Bretlandi hægt að hafa A-kennara sem eru á góðum launum og eru í elskuvinafélaginu hjá skólameistaranum, og svo B-kennara sem hægt er að pota lélegustu nemendunum til og þeir verði á lægstu laununum. Ég verð að segja að sú skólastefna sem býður aðeins upp á þennan möguleika er mér ekki að skapi. Þetta frv. eykur möguleika á aukinni mismunun í skólakerfinu. Það eykur á miðstýringu, samanber hugmyndina um samræmt stúdentspróf, og að gert er ráð fyrir að menntmrh. hafi meiri hluta í skólanefnd í öllum framhaldsskólum landsins. Frv. dregur úr áhrifum kennara á stefnumótun í skólamálum. Því miður er engin trygging fyrir úrbótum í starfsmenntamálum í þessu frv. en þau hafa hingað til verið íslenskum framhaldsskóla til vansa og virðast ætla að verða það enn um hríð. Frá því að ég fór að skipta mér af skólamálum hefur í hverju einasta lagafrv. og hverri einustu ályktun, sem send hefur verið út, verið sérstök klausa um að það eigi að efla starfsmenntun. Sumir hafa verið að tala um að þetta væri orðinn tölvuvírus, þetta kæmi bara einhvern veginn alltaf inn. Ég er ansi hrædd um að sama sé með þetta frv. Þrátt fyrir mjög fögur fyrirheit um að þetta eigi að efla starfsmenntanám í landinu sé ég ekki glitta í eina einustu starfsbraut. Ég mun því ekki greiða þessu frv. atkvæði mitt.