Framhaldsskólar

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 21:19:46 (6678)

1996-05-28 21:19:46# 120. lþ. 150.10 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv. 80/1996, SJS
[prenta uppsett í dálka] 150. fundur

[21:19]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég kem aðallega í ræðustól til að ítreka rökstuðning fyrir brtt. á þskj. 910 sem hv. þm. Ragnar Arnalds og Kristinn H. Gunnarsson flytja ásamt mér.

Við 2. umr. kölluðum við þessa tillögu aftur til 3. umr. Hún liggur því fyrir hér og mun koma til atkvæða þar sem breytingar hafa því miður ekki verið gerðar á því efni frv. sem hún varðar milli 2. og 3. umr. Ég mun koma betur að efni hennar síðar.

Fyrst vil ég segja að það eru vonbrigði að sjá frv. koma til 3. umr. í óbreyttum búningi frá því sem var eftir atkvæðagreiðslu við 2. umr. Það liggur þá fyrir að það er ætlun hæstv. menntmrh. að afgreiða frv. þrátt fyrir harða andstöðu við það, m.a. frá kennarasamtökunum í landinu. Þetta er gallað frv., þetta er í raun og veru óþarft frv. þar sem allar þær breytingar innan skólakerfisins sem í orði kveðnu er ætlunin að ná fram með frv. er hægt að gera að gildandi lögum. Þetta er í þriðja lagi metnaðarlítið, svo maður segi ekki metnaðarlaust frv. hjá nýjum hæstv. menntmrh. Satt best að segja ákaflega metnaðarlítið. Það fer kannski vel á því að næst á eftir flaggskipi hæstv. ráðherra í lögunum um skólagjöldin komi þetta útþynnta mál um framhaldsskólana. Reyndar er það líka í stíl við annað að hæstv. menntmrh. gangi í klúbbinn með hæstv. fjmrh. og hæstv. félmrh., þ.e. ,,gera-það-með-illu klúbbinn``. Gera hlutina í andstöðu við samtök og við þjóðina ef valið stendur milli þess eða hins að reyna að leita samkomulags og sátta. Hæstv. menntmrh. er greinilega á línu ríkisstjórnarinnar að best sé að gera svona hluti með illu. Það sé um að gera að troða þessu með illu ofan í kokið á hvort sem heldur er kennurum eða öðru launafólki í landinu. Það sé farsælt til frambúðar varðandi skólastarf og faglegar áherslur að setja löggjöf um framhaldsskólastigið í andstöðu við þá sem eiga eftir því að starfa umfram alla aðra, þ.e. kennarana í landinu. Þessi merkilega fílósófía, þessi ,,með-illu-aðferð``, sem hæstv. ríkisstjórn er hér að festa í sessi í hverju málinu á fætur öðru, er nokkur tímamót og nokkurt umhugsunarefni. Þegar landsmenn sitja orðið uppi með ráðherra og ríkisstjórn sem eru svo vissir um eigið ágæti að þá varðar ekkert um áherslur almennings í landinu þó það séu heildarsamtök launamanna eða samtök allra kennara í landinu þá skal ekkert með það hafa. Sannfæring hæstv. ráðherra um eigið ágæti og óskeikulleika er svo rík og sterk að það hefur engin áhrif á þá að séð verður þó svona standi á. Þetta er auðvitað umhugsunarefni. Nú á eftir að sýna sig og koma á daginn hversu farsæl stefna hæstv. ráðherra og ríkisstjórnarinnar reynist. Hversu vel þetta er t.d. fallið til að efla þann rétta og góða starfsanda innan skólakerfisins sem allir heilvita menn hljóta að sjá að mikið ríður á að þar sé til staðar.

Það er líka merkilegt að þetta frv. er öfugmælafrv. að langstærstum hluta til miðað við rökstuðning í greinargerð og fögur fyrirheit í markmiðskafla sem og í ræðum hæstv. ráðherra, framsöguræðum og slíku. Er látið í veðri vaka að í frv. felist ýmislegt sem alls ekki er þar þegar betur er að gáð og þvert á móti. Að sumu leyti boðar frv. afturhvarf til alveg þveröfugra hluta við það sem sagt er. Bara lítið dæmi er þessi fjálglega umfjöllun og yfirlýsingar um að í frv. felist að auka sjálfstæði skólanna. Þetta er algjört öfugmæli. Öll helstu efnisatriðin sem varða stöðu skólanna, skólaráðanna eða forræðis yfir eigin málum ganga í öfuga átt. Þau ganga í átt til nítjándu aldar hugsunar í sambandi við próf eða mat á námsárangri, inntökuskilyrði og miðstýringu varðandi stjórn skólanna. Þetta er alveg furðuleg hugsun og maður spyr sig að því af hverju hæstv. menntmrh. taki ekki bara skrefið til fulls og taki upp námskrána úr Bessastaðaskóla eða úr latínuskólanum og striki yfir það sem síðan hefur gerst. Það vantar eiginlega sáralítið upp á að það sé í takt við þessa málafylgju.

Inntökuprófahugsunin, herra forseti, er mér ákaflega ógeðfeld. Ég hélt satt best að segja að menn væru komnir óravegu í burtu frá þessu í nútímalegri umræðu um skólamál og kennslumál, uppeldisfræði og annað því um líkt og byggðu þar á allt öðrum grunni en þessum. Þetta er eitthvað sem maður hefur haft tilhneigingu til að tengja við fortíðina og kannski afsaka með vissum hætti vegna þess að menn hafa verið börn þess tíma, tíðarandinn hafi verið slíkur. Þetta var á þeim tíma þegar ekki þótti tiltökumál að tala um heldrimanna börn sérstaklega og börn hinna. Þá voru gefin út námskver sérstaklega fyrir heldrimannabörn og svo eitthvert annað efni handa hinum ef það var þá til. Svona aðgreiningarhugsunarháttur, sortéringarhugsunarháttur, að búa til einhverja útvalda stétt í skólakerfinu eins og væntanlega annars staðar í þjóðfélaginu --- auðvitað er þetta í takt við þá hugsun sem ríður húsum og gengur út frá því að markmiðið sé ekki félagslegs eðlis, að allir fái notið hæfileika sinna og þroskað eiginleika sína og möguleika, heldur skuli menn sitja uppi með það sem inntökuprófin og aðrar slíkar formúlur stimpla þá með og dragnast með þann vitnisburð það sem eftir er ævinnar, hversu vel eða illa sem hann er ígrundaður og á hvaða tímaskeiði í þroskasögu viðkomandi einstaklings sá dómur fellur. Við vitum vel að þegar slíkt gerist getur það markað þroskabraut viðkomandi einstaklinga það sem eftir er. Þetta er að mínu mati það ógeðfeldasta við frv., þetta er forneskjan í þessu máli, forneskjan sem hæstv. menntmrh. vill merkja sig sérstaklega með. Þetta verður sennilega flagg númer tvö næst á eftir skólagjöldunum sem verður dregið að húni á hátíðisdögum utan við höfuðstöðvar hæstv. menntmrh.

Varðandi það atriði frv. sérstaklega sem við höfum flutt breytingartillögu um á þskj. 910 og hv. þm. Ragnar Arnalds, fyrsti flutningsmaður, gerði ítarlega grein fyrir við 2. umr., þá er fyrst og fremst þörf á að rifja þar upp að við teljum afar ósanngjarnt og óréttlátt að fella með öllu niður þá sérstöku kostnaðarþátttöku ríkisins við heimavistir umfram aðrar framkvæmdir í framhaldsskólum sem lög hafa gert ráð fyrir um langt skeið. Fyrir því teljum við að við höfum fært mjög sannfærandi rök og það standi þá upp á þá sem vilja leggja til þessa breytingu að rökstyðja það gagnstæða. Ég hef ekki heyrt hæstv. menntmrh. koma hér og færa fyrir því rök hvers vegna sú skipan að ríkissjóður kosti alfarið byggingu heimavista við þá skóla eða í þeim skólahéruðum, þar sem sérstaklega háttar til að heimavista er þörf, er orðin úrelt. Hvers vegna á allt í einu að láta öxina falla nú án tillits til þess hvernig menn eru staddir í uppbyggingu slíkra mannvirkja við einstaka framhaldsskóla í landinu og er misjafnt eins og kunnugt er? Þá skuli bara frá og með núna ganga frá því að hér eftir borgi sveitarfélögin verulegan hluta af þessu. Fyrir því hef ég ekki heyrt nein sannfærandi rök. Ég hélt satt best að segja að það væri eitthvað annað sem menn ættu að ræða um í tengslum við skólamál og skólamál í dreifbýlinu en það að draga úr sértækum stuðningi ríkisins við skólahaldið þar sem það er erfiðast og þar sem kostnaður fólks er mestur við það. Auðvitað endar kostnaðurinn yfir á sveitarfélögunum og fólkinu eða þeim sem eru að kosta börn sín til náms. Þykir mönnum ekki nóg um? Hefur hæstv. menntmrh. farið ofan í saumana á því nýlega hver viðbótarreikningurinn er sem fjölskyldur fá sem þurfa að senda börn sín í framhaldsskóla í fjarlæg héruð og kosta þau þar í heimavist? Væri ekki ástæða til fyrir hæstv. menntmrh. að líta nú upp úr erlendu blaði augnablik og hugsa aðeins um skólamál á Íslandi? Þótt þetta sé örugglega fróðlegt sem hæstv. ráðherra er að lesa, væntanlega The Economist frekar en Financial Times, að minnsta kosti er það gefið út á klósettbleikan pappír eins og þetta blað er sem hæstv. menntmrh. er með í höndunum. Það er sjálfsagt áhugaverðara en framhaldsskólinn uppi á Íslandi, þetta sem hæstv. ráðherra er að lesa. Sérstaklega þegar kemur að skólahaldi í dreifbýli og þeim óþolandi aðstöðumun sem þar er við lýði fyrir það fólk sem er ekki hægt að segja að búi við jafnrétti til náms í dag, það er óravegu frá.

[21:30]

Við getum t.d. tekið börn þjóðfélagshóps sem hefur átt í mikilli vök að verjast undanfarin ár sem eru sauðfjárbændur í landinu. Ætli það hátti ekki mjög víða þannig til að börn í sveitum þurfi að fara að heiman frá sér ef ekki strax í efstu bekki grunnskólans þá a.m.k. í allt framhaldsskólanám? Hvað ætli það þýði fyrir sauðfjárbændur með tekjur eins og þeir hafa borið úr býtum núna upp á síðkastið að standa undir þeim reikningi? Svo er einhver hælgilegur svokallaður dreifbýlisstyrkur borgaður sem er kannski fimmti eða tíundi partur af sannanlegum kostnaði sem menn bera umfram það sem aðrir hafa af því að koma sínum börnum til náms. Nei, þá er svar hæstv. ríkisstjórnar það að fella niður þennan þátt sem hefur þó verið viss viðurkenning í reynd á því að ríkið kæmi sérstaklega inn í kostnað af þessu tagi, a.m.k. hvað stofnkostnaðinn snertir. Það kann að vera svo að þetta valdi einstökum hæstv. þingmönnum stjórnarliðsins óróleika eða erfiðleikum að standa í þessu. En þeir eru nú samt ekki búnir að ná því fram að þessu verði breytt og voru þó haldnar um það fínar ræður við 2. umr., t.d. af hv. þm. Stefáni Guðmundssyni. Það vildi svo skemmtilega til að hv. þm. var í ræðustól og var að taka upp akkúrat þetta mál þegar dreift var á borð þingmanna brtt. um þetta efni. Það er auðvitað nærtækast að fagna því að af sjálfu leiðir að hv. þm. hlýtur að styðja hana. Það þarf auðvitað ekki að spyrja að því. En það er mér ekki nóg. Ég vil vita hvort fleiri hv. þm. stjórnarliðsins ætla að manna sig upp í það að styðja þessa brtt. þannig að þessi breyting sem hæstv. ríkisstjórn er að leggja til nái ekki fram að ganga. Eða er búið að handjárna nógu marga til að þetta verði örugglega samþykkt? Það er spurning. Kemur væntanlega í ljós í atkvæðagreiðslunni nær hún verður. Mér finnst það alveg kostulegt ef það verður uppskera hv. þm. Framsfl. í þessari umræðu. Þeir skreyta sig nú stundum með því að þeir séu sérstakir vinir landsbyggðarinnar og gæslumenn þeirra sjónarmiða sem þar eiga rætur sínar og oft erfitt uppdráttar. Á það að verða veganesti þeirra út í sveitir landsins þegar þeir hverfa heim af þingi að þeir hafi alveg sérstaklega beitt sér fyrir landsbyggðina með því að ríkið hætti þátttöku við kostnað og uppbyggingu heimavista? Hv. þm. Egill Jónsson á Seljavöllum verður áreiðanlega hreykinn af að færa Hornfirðingum þær fréttir að það þýði ekki að tala meira um heimavist þarna á Nesjavöllum eða annars staðar í kjördæmi hv. þm. þar sem svipað kynni að haga til því nú sé ríkið hætt að koma nálægt þeim málum. Örugglega finnst þeim sauðfjárbændum sem hugsanlega hafa glapist á að kjósa hv. þm. þetta sanngjarnt og í takt við annað sem að þeim snýr um þessar mundir.

Herra forseti. Mönnum finnst þetta sjálfsagt lítið mál. Ég hef orðið var við að þetta kveikir engin sérstök bál í hugum fjölmargra þingmanna sem telja þetta svo sem eins og þras um einhverja fánýta hluti að vera að röfla um þetta. Ég ætla heldur ekki að halda því fram að himinn og jörð farist þó þessu verði breytt. En mér finnst þetta mjög dæmigert og mér finnst þetta vera mál sem verðskuldi það að á því sé vakin athygli og minnt á að menn eru stundum að greiða hér atkvæði um hluti sem skipta máli. Það hefur í öllu falli táknrænt gildi og er til marks um hugarfar og vitnisburður um það hvernig hlutirnir eru að þróast. Það verður afar fróðlegt, herra forseti, að vita hversu margir þingmenn Framsfl. leggjast niður í þessu máli eins og öðru. (Gripið fram í.) Já, þeir voru sameinaðir í dag ég gleymdi því með sameiningu Stéttarsambandsins og Búnaðarfélagsins. Það má svo sem einu gilda. Staðreyndin er sú að svona mál segja oft stærri sögur en ýmislegt annað um það hugarfar sem að baki býr eða hversu mikil alvara mönnum er með stóru orðunum, fögru orðunum. Ég vænti þess auðvitað að hinar hugumstóru hetjur, m.a. úr Framsfl., standi við sína sannfæringu og efast í sjálfu sér ekki um stuðning hv. þm. Stefáns Guðmundssonar, hann eigum við vísan í ljósi ræðu hans hér við 2. umr. En við vildum hafa fleiri liðsmenn með okkur þannig að það sé tryggt að þessi forneskja hæstv. menntmrh. og þessi erlendi hugsunarháttur sem hann hefur kannski upp úr útlendum blöðum sem hann les dögum saman nái ekki fram að ganga því hæstv. ráðherra þarf af og til að reka sig á íslenskan veruleika. Þótt það standi örugglega ekki neitt um íslenskan heimavistarskóla uppi á Íslandi í Financial Times þá er samt fólk enn í þessu landi sem lætur sig þau mál varða.

Herra forseti. Ég sé í sjálfu sér ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta frv. Ég var búinn að gera rækilega grein fyrir mínum sjónarmiðum bæði við 1. og 2. umr. Ég endurtek að það er með öllu óþarft að vera að eyða tíma Alþingis í þetta mál og vera að nudda með þetta hér nú. Það hefur komið í ljós að frv. er algjörlega óþarft. Það breytir engu. Það er hægt að gera allt sem gera þarf í sjálfu sér innan framhaldsskólalöggjafarinnar eins og hún er í dag. Þetta er með öllu metnaðarlaust og verður hæstv. menntmrh. fremur til háðungar en framdráttar að vera að bjálfa hér í gegn svona metnaðarlausu máli sem fyrstu breytingum sínum á framhaldsskólalögum í sinni embættistíð. Ég býð ekki í framhaldið, herra forseti, ef þetta á allt að verða svona sem frá hæstv. menntmrh. kemur. Fyrst skólagjöldin og svo þetta. Hvað kemur næst? Ég segi alveg eins og er að ég býð ekki í það. Ef Framsfl. leggst niður í þessu öllu þá verður ekki hátt risið á mönnum hér nær kemur til kosninga, a.m.k. ekki hvað þennan málaflokk snertir. En sem sagt, herra forseti, það á eftir að telja í dilkana og við sjáum það þegar kemur að atkvæðagreiðslunni.