Framhaldsskólar

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 21:36:34 (6679)

1996-05-28 21:36:34# 120. lþ. 150.10 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv. 80/1996, Frsm. meiri hluta SAÞ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 150. fundur

[21:36]

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil bregðast við nokkrum atriðum sem hafa komið fram í máli þingmanna hér við 3. umr. Ég verð að segja að mér finnst ýmsar fullyrðingar sem hafa komið fram hér við umræðuna býsna lítið rökstuddar og líkast því að sumir þingmenn a.m.k. hafi lesið eitthvað allt annað út úr frv. en í því stendur.

Ég vil gera að sérstöku umtalsefni rétt allra nemenda til náms. Það er algjörlega ljóst að það skortir mikið á að öllum nemendum framhaldsskólans eins og hann er í dag sé tryggt að þeir geti fengið nám við hæfi þrátt fyrir að gildandi lög geri ráð fyrir því að sá sé réttur allra nemenda. Gildandi lög hafa verið túlkuð á þann veg að nemendur eigi rétt á að hefja hvaða nám sem er í framhaldsskólanum óháð árangri grunnskóla. Skólarnir hafa alls ekki verið í stakk búnir til að veita stórum hópi nemenda viðhlítandi þjónustu. Það er mikið fall við upphaf framhaldsskólans. Nemendur eru oft mun lengur að ljúka námi heldur en námskráin segir til um og mjög margir hverfa frá námi án formlegra námsloka. Þetta er í raun og veru sá vandi sem við blasir í framhaldsskólanum. Það er hins vegar þannig að íslenskir nemendur virðast skila sér nokkuð svipað inn í framhaldsskólann og nemendur í nágrannalöndunum. En það eru miklu færri nemendur hér sem ljúka skilgreindum prófum við framhaldsskóla. Þessi vandi hefur að ýmsu leyti ekki verið mjög sýnilegur hér hjá okkur því ungt fólk hefur getað fengið vinnu þó það hafi ekki haft formlegt lokapróf. En það er alveg ljóst að með samdrætti á vinnumarkaði hefur orðið breyting í þessu efni og kröfurnar um árangur í skólastarfinu hafa líka aukist. Það er líka sjálfsagður réttur nemanda að þeir geti innritast í nám sem hæfir undirbúningi og áhugasviði hvers og eins og líkur eru til að nemandi geti lokið á eðlilegum tíma. Það er talið að það megi helst koma til móts við námsþarfir þeirra nemenda sem nú hverfa frá námi með aukinni fjölbreytni í starfsnámi. Það ber þá að stefna að því að efla verulega námsframboð framhaldsskólans á því sviði. Það er einmitt það sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Og til að gera námsval markvissara eru sett inntökuskilyrði á námsbrautir framhaldsskólans. Þau skulu vera sveigjanleg og í samræmi við kröfur sem gerðar eru á viðkomandi braut þannig að það verði hægt að taka tillit til mismunandi undirbúnings nemenda í einstökum námsgreinum. Það er líka gert ráð fyrir því að nemendum standi til boða námsráðgjöf til að auðvelda námsval í upphafi náms og líka á síðari stigum þess. Með inntökuskilyrðunum, námsráðgjöf og meiri áherslu á náms- og starfsfræðslu í unglingadeildum grunnskóla skapast skilyrði til þess að nemendur geti valið sér nám í framhaldsskóla sem hentar námsundirbúningi þeirra og áhugasviði.

Það er líka sjálfsagður réttur nemenda að nám sé sambærilegt að gæðum milli framhaldsskóla og lokapróf úr framhaldsskóla séu jafngild hvar sem þau eru tekin. Það hefur verið gagnrýnt að það skorti á samræmingu í námsframboði og námskröfum milli framhaldsskólanna og jafnvel innan sama skóla. Inntökuskilyrði á námsbrautir framhaldsskóla auka líkurnar á því að nemendur innritist í nám sem þeir hafa forsendur til að stunda með fullnægjandi árangri og ljúka á þeim námstíma sem kveðið er á um í námskrá eins og ég sagði áðan. Það verður þá hægt að miða námskröfur á einstökum brautum við undirbúning nemenda úr grunnskóla. Það má þá gera ráð fyrir sanngjarnari starfsháttum í framhaldsskólum þegar kröfur til nemenda eru í samræmi við námsgetu þeirra og undirbúning.

Hv. þm. Svavar Gestsson nefndi að hann væri með brtt. við 22. gr. sem er um skólanámskrá. Ég tel að við höfum þegar brugðist að nokkru leyti við gagnrýni kennara. Almennur kennarafundur gefur umsögn til skólanefndar. Það er skólameistari sem hefur forgöngu að því að skólanámskrá sé samin og það eru þá kennarar og starfsmenn skólans sem vinna skólanámskrána. Skólanefndirnar fá aukið vægi og meiri ábyrgð í stjórnun skólanna en verið hefur og þess vegna er mjög eðlilegt að það sé skólanefndin sem samþykkir skólanámskrána eftir að starfsmenn skólans undir forustu skólameistara hafa unnið hana.

Það kom aftur fram í máli Guðnýjar Guðbjörnsdóttur að hér væri um ómannúðlega menntastefnu að ræða sem kæmi fram í þessu frv. Ég vísa því algjörlega til föðurhúsanna að um nokkuð slíkt sé að ræða í frv. Ég hef áður svarað því að þvert á móti er betur tryggt í frv. en áður hefur verið t.d. réttur þeirra sem minna mega sín.

Hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir talaði líka um aukna miðstýringu. Hún tók þar með undir klisjukenndan málflutning sem oft hefur heyrst þegar þetta frv. hefur verið rætt. Það er þvert á móti verið að efla sjálfstæði skóla í þessu frv. Ég ætla að nefna nokkur atriði til að rökstyðja það. Skólanefndirnar fá aukna ábyrgð. Skólameistarar fá aukið ráðningarvald. Gert er ráð fyrir að það verði starfandi skólaráð sem verði þá skólameistara til aðstoðar við stjórn skóla og í skólaráðinu er fulltrúi nemenda og kennara ásamt aðstoðarskólameistara og skólameistara. Þar koma því bæði nemendur og kennarar að innri stjórnun skólans. Skólanámskráin er unnin af fagfólki skólans undir forustu skólameistara. Gert er ráð fyrir að starfsfólk skóla vinni að svokölluðu sjálfsmati á starfsháttum. Það er í 23. gr. frv. Þróunarsjóður fyrir framhaldsskóla er líka nýmæli þar sem í gegnum hann geta skólarnir fengið styrki t.d. til nýbreytnistarfs og þróunarstarfs. Því finnst mér það vera mikil öfugmæli að tala um aukna miðstýringu í frv.

[21:45]

Hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir gerði að sérstöku umtalsefni 2. gr. frv. þar sem segir í 2. mgr. sem hún sleppti að lesa hér áðan:

,,Framhaldsskólinn skal leitast við að efla ábyrgðarkennd, víðsýni, frumkvæði, sjálfstraust og umburðarlyndi nemenda, þjálfa þá í öguðum og sjálfstæðum vinnubrögðum og gagnrýninni hugsun, kenna þeim að njóta menningarlegra verðmæta og hvetja til stöðugrar þekkingarleitar.``

Þarna er m.a. verið að lýsa almennu menntunarhlutverki framhaldsskólans. Í hlutverkagreininni kemur því fram bæði almennt og sérhæft menntunarhlutverk framhaldsskólans. Hún gerði líka að umtalsefni að það væri dregið úr áhrifum kennara. Ég hef þegar svarað þeirri gagnrýni a.m.k. að hluta til. Að sjálfsögðu eru kennarar burðarásinn í skólastarfinu. Það er alveg ljóst að þeirra áhrif eru mjög vel tryggð í þessu frv. Þar bendi ég alveg sérstaklega aftur á skólanámskrána og 23. gr. frv. Skólanámskráin er mjög mikilvægt tæki í skólastarfinu í þessu frv.

Ég vildi líka gera hér að umtalsefni tillögur Ástu B. Þorsteinsdóttur og Lúðvíks Bergvinssonar sem snúa að fötluðum. Ég tel að það sé hvergi verið að hvika frá því að fatlaðir nemendur skuli stunda nám við hlið annarra nemenda eftir því sem kostur er. Það er alveg ljóst samkvæmt 19. gr. en þar segir:

,,Á framhaldsskólastigi skal veita fötluðum nemendum samkvæmt skilgreiningu á hugtakinu fatlaður í 2. gr. laga nr. 59/1992, um málefni fatlaðra, kennslu og sérstakan stuðning í námi. Látin skal í té sérfræðileg aðstoð og nauðsynlegur aðbúnaður eftir því sem þörf krefur að mati menntamálaráðuneytisins. Fatlaðir nemendur skulu stunda nám við hlið annarra nemenda eftir því sem kostur er.``

Ég tel því að þessar brtt. sem eru lagðar þarna fram séu óþarfar og að í raun og veru séu réttindi fatlaðra nemenda ágætlega tryggð í þessu frv.

Ég vil svo að lokum þakka þessa ágætu umræðu sem hefur verið hér í dag. Það hefur vissulega margt ágætt komið hér fram. Það er ánægjulegt að sjá að það er þó reytingur af þingmönnum hér í salnum. Svo var sannarlega ekki þegar við fjölluðum um þetta mál hér við 2. umr.