Framhaldsskólar

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 21:53:10 (6681)

1996-05-28 21:53:10# 120. lþ. 150.10 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv. 80/1996, Frsm. 2. minni hluta GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 150. fundur

[21:53]

Frsm. 2. minni hluta menntmn. (Guðný Guðbjörnsdóttir):

Virðulegi forseti. Það er ekki ætlun mín að bregðast sérstaklega við orðum hv. þm. og formanns menntmn., Sigríðar Önnu Þórðardóttur, þar sem mér fannst ekki mikið bitastætt í hennar máli. Þó vil ég rökstyðja það sem ég kom að í 2. umr. að ég er sannfærð um að þetta frv. endurspeglar ómannúðlega menntastefnu. Og ég vil aðeins nefna örfá dæmi. Í fyrsta lagi er ég sammála hv. þm. Sigríði Jóhannesdóttur um að sú skipan sem hér er lögð til mun fljótlega leiða til þess að það myndast hér A-B-C og D-skólar. Mér finnst ekki mjög mannúðlegt að sundra t.d. vinahópi þannig að sumir komist í A-skóla og sumir komist í B- eða C-skóla vegna einkunna í grunnskóla sem oft reynast ekki áreiðanlegasti spádómurinn um það sem síðar kemur. Mér finnst heldur ekki mannúðlegt að fólk komist ekki í heimaskólann sinn vegna þess að einkunnin á grunnskólaprófi var ekki alveg nógu góð. Síðast en ekki síst finnst mér mjög ómannúðlegt að ætlast til þess að 15--16 ára unglingar hafi mótaðar skoðanir á því hvað þeir ætli að verða og vissu um það hver þeirra framtíðarbraut verður.

Það kom fram áðan í umræðunni hjá hv. þm. Sigríði Jóhannesdóttur að það væri mikið um það núna að nemendur í framhaldsskólum væru ekki búnir að ákveða sig og það tæki þá nokkurn tíma. Ég fullyrði, ekki síst í ljósi minna fræðirannsókna, að það er fullkomlega eðlilegt að unglingar allt fram að tvítugu séu með ómótaða sjálfsmynd og hafi ekki heildstæðar hugmyndir um sjálfa sig eða hvað þeir vilja gera. Þess vegna er mjög líklegt að ákvarðanir sem 15--16 ára unglingar taka um sín framtíðarstörf séu byggðar á hugmyndum annarra, foreldra eða vinahópsins, um það hvað þeir eigi að gera fremur en að þeir séu búnir að móta sínar hugmyndir sjálf. Ef það á að fara að þvinga 15 ára gamla krakka inn í starfsnám sem þau kannski ljúka er allt eins líklegt að um tvítugt standi hugur þeirra til allt annarra mála. Þess vegna finnst mér mun eðlilegra og allt benda til þess miðað við þróun skólamála í nágrannalöndunum að framhaldsskólinn verði í vaxandi mæli almennur skóli og síðan verði byggðar stuttar starfsnámsbrautir ofan á hann. Þetta er ekki síst nauðsynlegt í ljósi þess að um vaxandi atvinnuleysi hefur verið að ræða í þjóðfélaginu og það er ólíklegt að þessir krakkar fái vinnu strax að loknu framhaldsskólanámi.

Í annan stað vil ég aðeins koma inn á orð hv. þm. Sigríðar Önnu Þórðardóttur, þess efnis að þetta frv. endurspegli ekki aukna miðstýringu heldur aukna sjálfsstjórn. Að mínu mati er það rétt að það eru viss atriði sem hún taldi upp sem hugsanlega stuðla að aukinni sjálfsstjórn eins og t.d. setning skólanámsskrár. En meginmálið er að það eru skólanefndirnar og aðalnámskráin sem eru mikilvægustu stjórntækin og þessi atriði munu hafa það mikið miðstýringarvald að allt annað mun falla í skuggann af hinu tvennu. Þess vegna eru þetta viss áhrif sem kennarar fá og skólarnir sjálfir, en valdið og hin raunverulega stjórn verður í höndum æ færri aðila.