Framhaldsskólar

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 21:58:28 (6682)

1996-05-28 21:58:28# 120. lþ. 150.10 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv. 80/1996, RG
[prenta uppsett í dálka] 150. fundur

[21:58]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég hef ekki í huga að blanda mér í umræður um þetta frv. almennt eða um þá stefnu sem birtist hér. Það hefur verið rætt ítarlega af fulltrúa okkar í menntmn. og hér við 2. umr. Hins vegar hef ég hug á því, virðulegi forseti, að koma hér inn á afmarkaðan þátt í frv. og nýmæli sem felst í 31. gr. Þar segir í athugasemdum við hana:

,,Grein þessi er nýmæli en með ákvæðum hennar geta framhaldsskólar eða einstakar deildir þeirra fengið sérstakt hlutverk sem kjarnaskóli, þ.e. tilrauna- og þróunarskóli í starfsnámi. Kjarnaskólar geta verið mismunandi, enda um að ræða þróunarverkefni sem tekur mið af ólíkum þörfum og aðstæðum starfsgreina og/eða atvinnuvega.

Gera þarf sérstakt samkomulag milli menntmrn. og viðkomandi skóla þar sem kveðið er á um tímalengd verkefnisins og stjórnun þess, þar með talda skiptingu hlutverka og ábyrgðar á milli aðila, svo og hvernig úttekt á árangri skuli hagað.

Í kjarnaskóla fer fram þróun á námsefni, námsskipan, kennsluaðferðum og námsmati í viðkomandi starfsnámi. Skólar sem veita menntun á sama sviði eiga að geta leitað til kjarnaskóla um leiðsögn og ráðgjöf m.a. varðandi skipulag námsins, námsefni og kennsluhætti sem og sérstök þróunarverkefni. Þannig er kjarnaskóli hugsaður sem þróunar- og þjónustustofnun fyrir allt landið.``

[22:00]

Þetta nýmæli varð til þess, virðulegi forseti, að ég ákvað að blanda mér í umræðuna og bera fram spurningu til ráðherra með athugasemd minni. Vegna þess að í þessu nýmæli felst að gera á sérstakt samkomulag milli menntmrn. og viðkomandi skóla og verði það gert fara aðrir skólar á sama sviði eiginlega í hjólfar frumkvöðulsins sem þarna um ræðir eins og ég skil greinina.

Þá er ég komin að athugasemd minni, virðulegi forseti, en hún snýr að Menntaskólanum í Kópavogi sem er ekki menntaskóli í þeirri mynd sem hugurinn kallar fram þegar þetta orð er notað heldur framhaldsskóli með fjölbrautasniði. Breytingin í fjölbrautasnið var gerð fyrir mörgum árum, 1983 ef ég man rétt. Það sem þá var ákveðið var einmitt eins konar framúrstefna á þess tíma mælikvarða. Þá voru að rísa upp fjölbrautaskólar á höfuðborgarsvæðinu og reyndar víða um land. Fleiri en einn fjölbrautaskóli risu upp í Reykjavík, í Kópavogi, í Garðabæ og í Hafnarfirði. Það var ekki mikil umræða á þeim tíma um það hvernig skyldi hagað námi í hverjum og einum af þessum skólum. Hins vegar hlutu þeir sem unnu að slíku máli að leggja fyrir sig spurninguna: Áttu allir að reyna að vera með úrlausn fyrir alla? Áttu allir skólarnir að bjóða upp á sama námið og sem fjölþættast nám og mundi það leiða til þess að við yrðum með marga vanbúna skóla, sem voru allir að keppa um að fá fjármagn til þess sama, eða áttu skólarnir að sérhæfa sig og verða e.t.v. þannig að nemendur úr einu bæjarfélagi leituðu inn í skóla í öðru bæjarfélagi sem væru með sérhæfinguna sem þeir væru að leita eftir? Þetta voru spurningarnar sem menn veltu fyrir sér þá fyrir þetta löngum tíma í Kópavogi, og var settur starfshópur á laggirnar til að undirbúa breytingarnar og sá starfshópur lagði í fyllingu tímans fram vandaða námskrá. Það var ákveðið að skólinn mundi sérhæfa sig á matvælasviði, verða matvælaiðjuskóli.

Eins og fyrr segir var þetta á árunum 1982 eða 1983. Ég þykist þess fullviss að ég muni það rétt að á árinu 1983 hafi verið gerður samningur um skólann og uppbyggingu hans á milli Kópavogsbæjar og menntmrn. Það er hins vegar dapurleg saga, virðulegi forseti, að sú uppbygging hefur gengið alveg ótrúlega hægt og á árinu 1996 hillir loks undir að matvælasviðið, og reyndar Hótel- og veitingaskólinn, sem verður innan veggja sama skóla, komist í hús.

Námskráin sem lögð var til grundvallar á árinu 1983 og sem ég hef leyft mér að segja að væri framúrstefnuhugsun tók mið af því að fólk í almennum störfum í matvælaiðnaði gæti komið í þennan skóla og sótt nám á stuttum matvælaiðjubrautum. Aðrir nemendur eða e.t.v. þeir sömu gætu síðan farið inn á lengri brautir, brautir sem á sínum tíma mundu leiða til stúdentsprófs væri þess óskað eða að tveimur árum liðnum mundi fólk vera útskrifað með ákveðin réttindi af matvælaiðjubrautinni. Ef fólk valdi stúdentsleiðina var hægt að halda áfram með námi sem mundi leiða inn á háskólasviðið og þeir sem mundu það kjósa gætu þess vegna valið að halda áfram upp í matvælaverkfræði. Það voru nokkuð mörg svið sem hægt var að fara inn á, bæði þessi stuttu, almennu verksvið sem svo sárt hefur vantað í þjóðfélag okkar sem hefur fullkomlega vanrækt það að skólar bjóði upp á styttra nám fyrir þá sem vinna almenn störf í matvælaiðnaðinum. Þetta vildu framsæknir stjórnendur í Kópavogi á þeim tíma setja á og koma í gagnið og ég harma það í hvert sinn sem ég rifja upp þessa sögu hversu stuðningurinn var í langan tíma dapur og lítill við þetta góða verkefni og í raun og veru hvað þarna var leitast við að vinna mikið brautryðjendastarf í sérhæfingu og fræðslu í því sem er grunnþáttur okkar, í matvælaframleiðslu og matvælaiðnaði.

Það var reyndar fleira sem átti að vera með í þessum matvælaiðnaði, það var talað um ferðamannabraut og því hefur verið haldið til streitu, en seinna fór það svo að Fjölbrautaskólinn í Breiðholti og skólinn á Akureyri sóttust eftir því að geta verið með þetta sama nám á boðstólum og ekki leið á löngu áður en þær raddir heyrðust að Eyjafjörður skyldi verða matvælaiðjusvæði landsins, matvælaframleiðslusvæði og þar ættu að rísa skólar á því sviði og þangað ætti að beina námsbrautum sem væru á sviði matvælaiðju. Þessu hef ég alla tíð verið mjög ósammála og hef komið í ræðustól til að kalla eftir því hvort um væri að ræða að bregða frá þeirri uppbyggingu sem væri í gangi í Kópavogi og vísa henni annað vegna þess að mér hefur fundist mjög mikilvægt að einmitt þarna, þar sem ákveðið var að Hótel- og veitingaskólinn yrðu innan borðs og þar sem var áformað svo fjölbreytt nám í matvælaiðnaði, yrði gefinn ákveðinn forgangur eða þarna yrði skapaður eins konar kjarnaskóli á þessu sviði.

Virðulegi forseti. Ég er komin að því sem var erindi mitt í ræðustól á þessu kvöldi í umræðu um framhaldsskólann sem ég hafði í raun ekki hugsað mér að taka þátt í. Sér ráðherra það fyrir sér að Menntaskólinn í Kópavogi, sem hefur haft þessa uppbyggingu og haft þessa framtíðarsýn, verði sá kjarnaskóli sem getið er um í 31. gr.? Mundi þessi skóli, sem í þennan langa tíma hefur stefnt að því að vera með þetta alhliða nám, verða kjarnaskólinn sem ryður veginn þannig að aðrir skólar sem hafa sótt í að vera með afmörkuð námskeið og afmörkuð svið í þessu sama efni, matvælaiðjunni, mundu feta í fótsporið? Hefur eitthvað verið rætt um það á milli menntmrn. og Menntaskólans í Kópavogi að einmitt þetta mundi gerast? Og er það svo að skóli, sem er um það bil að komast í gagnið af fullum þunga, eins og þessi skóli sem ég hef verið að ræða um geti orðið slíkur kjarnaskóli miðað við 31. gr. og þó að það hafi e.t.v. ekki verið gert og ef viðræður hafa ekkert farið á milli aðila um þetta efni? Ef svo færi að skólinn í Kópavogi mundi sækja um að vera þessi kjarnaskóli er það þá rétt skilið hjá mér að hann sé einmitt sú tegund skóla sem gæti fengið hugsanlegan samning og orðið sá kjarnaskóli og frumkvöðull í uppbyggingu og tilraunaþróunarskóli í starfsnámi á matvælaiðjusviði sem ég tel svo mikilvægt að verði hér á landi og verði tekið miklu snarpar á en hingað til hefur verið gert?

Þetta er spurning mín til ráðherra, virðulegi forseti, og læt ég mér nægja að tala um 31. gr.