Framhaldsskólar

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 22:10:03 (6683)

1996-05-28 22:10:03# 120. lþ. 150.10 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv. 80/1996, SvG
[prenta uppsett í dálka] 150. fundur

[22:10]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég tel út af fyrir sig fulla ástæðu til þess að ræða frekar nokkur þau mál sem hér hefur borið á góma en ég ætla ekki að gera það. Ég ætla að fara yfir fáein atriði sem fram komu í svörum við fyrri ræðu minni í umræðunni eða athugasemdum sem fram hafa komið og ætlaði að beina til hæstv. ráðherra a.m.k. einni spurningu eða tveimur.

Fyrsta spurningin er þessi: Er rétt skilið að samkvæmt hans skoðun rúmist kennslutímaaukningin skv. 3. gr. innan ramma gildandi fjárlaga? Er það rétt? Það er mjög merkilegt ef það er. Ég man ekki eftir því að við afgreiðslu fjárlaga væri gert ráð fyrir auknum framlögum til framhaldsskóla. Mig minnir að það hafi verið skorið niður. En það er athyglisvert ef það er þannig og ef það er rétt eftir tekið frá 2. umr. að hæstv. ráðherra telji að það séu nægir peningar til þessa verkefnis og þá er auðvitað ekkert annað að gera en fara í samningaviðræður við hið íslenska kennarafélag um það hvernig þeim fjármunum yrði ráðstafað. Ég hef ekki fengið nein svör við þeirri spurningu minni um hvort hafnar væru viðræður við HÍK um málið og ég skil ekki af hverju menn svara ekki jafneinföldum spurningum og þeirri.

Í öðru lagi ítreka ég þá spurningu sem fram kom hjá hv. þm. Sigríði Jóhannesdóttur varðandi aðalnámskrá framhaldsskólans. Hvenær kemur hún? Er farið að vinna í henni? Hvar er sú vinna? Það er greinilegt að aðalnámskrá framhaldsskólans er eins og þetta er hugsað algert lykilgagn í framkvæmd framhaldsskólalaganna. Mér sýnist satt að segja að menn séu komnir með framhaldsskólann inn á eins konar æðra grunnskólastig liggur mér við að segja að því er þetta varðar þannig að þetta sé eins konar gagnfræðaskóli með samræmdri námskrá sem menn ætla sér að fara að búa til að einhverju leyti en ég vil spyrja: Hvar er aðalframhaldsnámskrá framhaldsskólans? Hverjir eru að vinna í henni? Eru fulltrúar kennara og annarra aðila sem eru að koma að þessu máli þar eða hverjir eru yfirleitt að gegna því starfi?

Þá vil ég næst koma að því atriði sem fram kom í máli hv. þm. Sigríðar Önnu Þórðardóttur og er auðvitað lykilmál í þessu. Það er þetta: Færri íslensk ungmenni ljúka prófum, starfsmenntaprófum, framhaldsskólaprófum, hlutfallslega en gerist í nokkru öðru landi sem við berum okkur saman við svo að ég orði þetta tiltölulega gróft en ég held að það sé nokkurn veginn þannig. Í Þýskalandi er talað um að hlutfallið sé um 90% og það er svipað í Austurríki en hjá okkur er þetta miklu lægra. Þjóðverjar og Austurríkismenn byggja á gamalli hefð í þessum efnum sem í grófum dráttum byggist á því að þar er um að ræða verulega mikið úrval af fjölbreyttum stuttum starfsmenntabrautum, stuttum og viðráðanlegum. Þar er ekki reynt að steypa alla í sama mót og þar er ekki þetta stífa, að ég ekki segi hreinlega frosna sveinsprófakerfi sem við erum með og höfum aldrei þorað eða getað tekið á.

Hins vegar er alveg rétt hjá hv. þm. sem hér hefur komið fram og m.a. í ágætri umræðu um verkmenntun í þessum sal fyrir tveimur árum að frumkvæði hv. þm. Stefáns Guðmundssonar að meðan hér var fullt að gera, meðan það var nóg atvinna, gerði það kannski ekki svo mikið til þó að krakkarnir dyttu út úr skóla án þess að hafa endilega lokið einhverju réttindanámi vegna þess að þau fengu vinnu og fengu kaup. Staðan sem nú er uppi í þessum efnum er allt önnur en þá var. Þess vegna er þetta mikið áhyggjuefni og um það erum við öll sammála. En þá spyr ég: Hvað er það inni í frv. sem slíku sem breytir framtíðarsýninni fyrir þessa krakka? Ég sé það ekki og ég sé ekki að neitt í þessu frv., ef að lögum verður, tryggi krökkunum betra líf en gildandi lög gætu gert ef það væru settir meiri peningar í framhaldsskólann. Ég sé það ekki. Mér finnst að hv. þm., formaður menntmn., og hæstv. menntmrh. skuldi okkur skýringu á því því að ég heyri að þetta vefst fyrir fleirum en mér, hvað það er sem ræður þarna úrslitum.

Mér finnst þessum hv. þm. ekki ætlandi að búa til mynd sem á sér engar innstæður, styðst ekki við neinn veruleika. Þeim hefur láðst að gera þannig grein fyrir því að hún sé skýr í hugum þingmanna að ég hygg.

Það er búið að flytja á þingi á undanförnum áratugum ótal tillögur um eflingu starfs- og verkmenntunar. Ég minnist t.d. tillögu sem hv. þm. Stefán Guðmundsson hefur flutt á þingi aftur og aftur á undanförnum árum en því miður ekki á þessu þingi. Þessi tillaga hefur ævinlega fengið mikla umræðu og mér liggur við að segja, þeim mun innblásnari sem aðbúnaðurinn á framhaldsskólanum hefur verið vesælli hjá okkur sem hér erum. Mig grunar einhvern veginn að hérna sé líka um að ræða innstæðulítil og of mikið útblásin orð í þessu frv.

Hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir sagði að það sem skipti máli væri náms- og starfsráðgjöf til þess að leiðbeina þessum krökkum inn á viðráðanleg svið eða betur viðráðanleg svið. Það er alveg rétt, ég er alveg sammála henni um það. Ég tel að prófastefnan sem hefur verið uppi á síðustu árum af menntamálayfirvöldum að mínu mati leysi engan vanda. Það eina sem geti stutt eðlilega við bakið á þessu unga fólki sé mjög virk náms- og starfsráðgjöf, mjög virk og þá ekki bara í framhaldsskólanum sjálfum heldur líka í grunnskólanum. Nú vill þannig til að því er varðar t.d. námsráðgjöf í grunnskólanum að ekki hefur verið bætt við einu einasta stöðugildi í það verkefni, t.d. í Reykjavík, um margra ára skeið. Skólastjórar grunnskólanna í Reykjavík standa frammi fyrir algerlega óleysanlegum verkefnum af því að þeir fá ekki námsráðgjafa og það er enn þá uppi það gamaldagssjónarmið af hálfu menntmrn., finnst mér, að litið er á námsráðgjafa eins og einhverja aukakontórista í skólunum í staðinn fyrir að námsráðgjafar og starfsráðgjafar eru lykilstarfsmenn í skólunum í dag, gegna eins þýðingarmiklu hlutverki og kennararnir sjálfir og eru gríðarlega mikilvægar stéttir. En í frv. er engin trygging á þessu, virkri náms- og starfsráðgjöf, sem tekur utan um mér liggur við að segja nemandann, og leiðir hann af stað inn á einhver tiltekin verkefni sem eru þægileg og viðráðanlegri. Vandi kerfisins er sá að krakkarnir eru að byrja í námi, bóknámi eða verknámi þar sem þau berjast um missirum eða jafnvel árum saman og fá ekkert nema hraklegar einkunnir á missirisfresti og þannig er sjálfsmynd þeirra brotin niður og framhaldsskólinn framleiðir vandamál og skapar vandamál en leysir þau ekki eins og hann á að gera. Ég endurtek það, hæstv. forseti, ég sé ekkert í þessum skjölum sem leysir vandann.

Þá kemur að því atriði sem er meginmálið og það er að framhaldsskólafrv. er ekki hluti af heildarmenntastefnu eða maður sér það í öllu falli ekki nægilega skýrt. Ég held að það þurfi að tala um þá hluti þannig. Það er líka að nokkru leyti vandi Alþingis að hér er aldrei talað um menntamál heldur um menntamál í bútum, þ.e. grunnskóla, leikskóla, framhaldsskóla, fullorðinsfræðslu, endurmenntun og háskóla, en það er aldrei talað um fræðslumál í heild, menntamál í heild, menningarmál eða heilbrigðismál, heldur er talað um allt í einhverju frumvarpaformi sem í raun og veru segir manni kannski ekki nema takmarkaða sögu þegar upp er staðið. Í öðrum þingum, eins og hæstv. forseti og aðrir þekkja, er það þannig að það eru teknar stefnumótandi ákvarðanir í þingunum og síðan er ráðuneytunum ætlað að útfæra þær t.d. í norska Stórþinginu þar sem eru gerðar samþykktir um framtíðarstefnumótun í menntamálum svo dæmi sé tekið.

Ég lagði fyrir hæstv. ráðherra og hv. formann menntmn. nokkrar spurningar. Ég vænti þess að þeim verði svarað og þætti að sjálfsögðu líka vænt um ef þessar breytingartillögur sem hér hafa verið fluttar verða samþykktar. Mér finnst að stjórnarmeirihlutinn ætti að brjóta odd af oflæti sínu og samþykkja þessar breytingartillögur. Þetta eru almennar og sanngjarnar leiðréttingatillögur sumt af þessu. Ég bendi á að í þessum tillögum er komið aðallega til móts við þær kröfur sem uppi eru um að kennarar fái að vera með í verkinu. Þeir eru ekki að biðja um neitt meira og það er spurning hvort við getum ekki sammælst um þær einu sinni í einu svona frv., að sýna þeim starfsstéttum sem eiga að vinna verkin lágmarksvirðingu. Ég skora því á stjórnarmeirihlutann að velta því fyrir sér að samþykkja þessar tillögur sem hér liggja fyrir, hæstv. forseti.