Framhaldsskólar

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 22:23:08 (6685)

1996-05-28 22:23:08# 120. lþ. 150.10 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv. 80/1996, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 150. fundur

[22:23]

Svavar Gestsson (andsvar):

Ég verð að viðurkenna, hæstv. forseti, að hv. þm. tókst ekki að láta mig sjá ljósið í þessu máli. Hv. þm. sagði að frv. opnaði leiðir. Hv. þm. sagði að í frv. væri áhersla á fjölbreytni starfsnáms eða fjölbreytilegra starfsnám. Hv. þm. sagði: Hér er áhersla á stuttar brautir. Svo sagði þm.: Hér vantar útfærslu og við erum ekki að lögfesta útfærslu. Það er alveg rétt. Hér er ekki verið að lögfesta útfærslu en þar með er í raun og veru sagan sögð á enda vegna þess að í frv. er ekkert sem tryggir það sem verið er að tala um umfram það sem er í gildandi lögum. Það er ekkert umfram það sem er í gildandi lögum. Og þegar hv. þm. segir að hér sé ekki verið að lögfesta útfærslu, þá er það náttúrlega bæði rangt og rétt. Það er verið að lögfesta mjög nákvæma útfærslu á bóknámsbrautunum. Það á að standa í lögum að það séu þrjár eða fjórar bóknámsbrautir í framhaldsskólum. Hvaða vitleysa er þetta? Af hverju er verið að skrifa það ofan frá, frá Alþingi, hversu margar bóknámsbrautir eiga að vera í skólum þegar menn taka ekki á því sem máli skiptir, þ.e. því að útvega fjármuni til framhaldsskólans sem ég held að sé lykilatriðið?