Framhaldsskólar

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 22:25:11 (6687)

1996-05-28 22:25:11# 120. lþ. 150.10 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv. 80/1996, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 150. fundur

[22:25]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Í gildandi lögum er ákvæði um það að fulltrúar atvinnulífsins eigi að koma að mótun starfsnámsins. Það er m.a. gert ráð fyrir því í starfsgreinaráðunum gömlu eða iðngreinaráðunum eins og þau eru núna. Þeir geta því komið að því. Síðan er það þannig að það hafa verið í gangi á vegum menntmrn. á undanförnum árum viðræður við atvinnurekendur, t.d. við Vinnuveitendasamband Íslands um aðild þess að því að byggja upp starfsnám og verkmenntun í landinu. Vinnuveitendasambandið hefur tekið því máli öllu mjög vel og mín reynsla var sú þegar ég fór með þessi mál að það væri ekki lakara að tala við Vinnueitendasambandið en Alþýðusambandið um þessi mál af einhverjum ástæðum. Meðal annars vegna þess, fannst mér, að Alþýðusambandið var að nokkru leyti í erfiðleikum með það að vera límt fastar á sveinsprófa- og sveinsréttindakerfið en Vinnuveitendasambandið var. Þannig að í rauninni leysir þetta svar ekki þann vanda sem eftir stendur. Það er ekkert hér, ekki neitt af neinu tagi sem tryggir það sem á þó að vera meginleiðarhnoða þessa frv. Ekkert. Það hefur ekkert komið fram í ræðum eða andsvörum eða nokkru sinni, því miður. Ég hefði haft gaman af því að heyra það, ég segi það eins og er, hæstv. forseti. (Gripið fram í: Þú sérð ljósið seinna.)