Framhaldsskólar

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 23:05:06 (6691)

1996-05-28 23:05:06# 120. lþ. 150.10 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv. 80/1996, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 150. fundur

[23:05]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Það læðist alltaf að mér sá grunur þegar ég heyri hv. þm. tala um frv. að við séum að tala um ólíka hluti. Það getur ekki verið að frv. sé eins og hv. þm. er að lýsa því. Ég hef lesið það oft og ég hef farið oft gegnum það og það er ekki svona eins og hv. þm. er að lýsa því. Þess vegna tel ég að það sé með öllu óréttmætt að tala um að hér sé ómannúðlega að verki staðið. Það er ekki verið að loka ungt fólk inni á neinum brautum eða setja það á einhverja námsklafa sem það losnar ekki af. Ég andmæli þessu enn og tel að við séum í raun og veru að tala um eitthvert annað mál en þetta frv. ef við ætlum að ræða það á þeirri forsendu sem hv. þm. gerði.

Varðandi tómstundanámið þá er það nám sem unnt er að stunda og ráðuneytið mun ekki hafa nein sérstök afskipti af því. Það er hins vegar í annarri grein en þeirri sem fjallar um fullorðinsfræðsluna fjallað um að þeir sem hafa upp á tómstundanám að bjóða geta fengið viðurkenningu ráðuneytisins ef þeir kjósa, sem ætti þá að auðvelda þeim að sýna fram á að þeir séu með nám í boði sem fellur að skólakerfinu. Einnig eru í frv. opnaðar nýjar leiðir að þessu leyti, bæði fyrir aðila til þess að fá viðurkenningu ráðuneytisins og einnig varðandi rekstur á einkaskólum og annað slíkt. Ég held því að það sé ekki heldur unnt að segja að það sé verið að leggja stein í götu tómstundanámsins og þeir sem fjalla um fullorðinsfræðsluna í ráðuneytinu og í tengslum við þetta munu að sjálfsögðu huga að tómstundanáminu og sjá hvernig unnt er að bregaðst við óskum á því sviði.