Framhaldsskólar

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 23:09:48 (6694)

1996-05-28 23:09:48# 120. lþ. 150.10 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv. 80/1996, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 150. fundur

[23:09]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa ábendingu. Það er rétt að kannski var ég ónákvæmur í orðum. Eins og ég skil það þá hefur Hamrahlíðarskólinn verið tilnefndur og síðan koma sérfræðingar frá Evrópusambandinu til að meta hann núna í sumar. Vonandi rætast þau orð að hann fái þessa viðurkenningu á grundvelli þessa verkefnis.

Það hefur einnig gerst innan þess skóla að það hefur verið ákveðið að stofna þar embætti kennslustjóra fyrir fatlaða og kennarafundur hefur nýlega samþykkt það. Til þessa verks verður því gengið og það er mikilvægt skref í þessa átt. Ekki má gleyma því að í Borgarholtsskólanum er einnig verið að leggja sérstaka áherslu á kennslu fyrir fatlaða og þannig er víða verið að byggja þetta upp. En ég held að hvað sem þessu líður eigi þetta að falla inn í almenna skólakerfið og það sé nauðsynlegt að hafa þessa heimild til þess að stofna sérdeildir til þess að bregðast við í slíkum tilfellum.