Grunnskóli

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 23:11:23 (6695)

1996-05-28 23:11:23# 120. lþ. 150.12 fundur 501. mál: #A grunnskóli# (yfirfærsla til sveitarfélaga) frv. 77/1996, Frsm. SAÞ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 150. fundur

[23:11]

Frsm. menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti menntmn. um frv. til laga um breyting á lögum nr. 66/1995, um grunnskóla.

Menntmn. hefur fjallað um málið sem er flutt vegna yfirfærslu grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga og er það byggt á samkomulagi milli aðilanna frá því í mars sl. Nefndin mælir með samþykkt frv. með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali. Miða breytingarnar annars vegar að því að gera ákvæði 1. gr. skýrara en samkvæmt því er Sambandi ísl. sveitarfélaga falið frumkvæði að lausn á málefnum grunnskólans sem varða fleiri en eitt sveitarfélag, ef þeim er ekki skipað með öðrum hætti í lögum, reglugerðum eða með samkomulagi aðila.

Líklegt er að á ákvæðið reyni fyrst og fremst varðandi sérskóla, en mjög mikilvægt er að tryggja grundvöll þeirrar viðkvæmu starfsemi sem þar fer fram. Hins vegar miða tillögurnar að því að endurskoða skuli ákvæði 1. gr. fyrir 1. janúar 1999 eða á tímabilinu í kjölfar flutnings grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga.