Grunnskóli

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 23:43:15 (6702)

1996-05-28 23:43:15# 120. lþ. 150.12 fundur 501. mál: #A grunnskóli# (yfirfærsla til sveitarfélaga) frv. 77/1996, ÁÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 150. fundur

[23:43]

Ásta B. Þorsteinsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir hæstv. menntmrh. bregðast mjög undarlega við. Það stendur mjög skýrt í frumvarpsdrögunum að Samtökum íslenskra sveitarfélaga skuli falið frumkvæði að lausn á málefnum grunnskólans sem varða fleiri en eitt sveitarfélag og ekki er kveðið á um hvernig farið skuli með í lögum eða reglugerðum ef samkomulag hefur náðst um. Það er verið að fela Sambandi íslenskra sveitarfélaga að hafa ábyrgð á því að sérskólarnir, sem eru reyndar allir hér í Reykjavíkurborg, verði reknir áfram. Það er reiknað með að þetta verði ekki endurskoðað fyrr en árið 1999, þ.e. að þremur árum liðnum. Ég segi enn og aftur að ég held að þarna hafi því miður gleymst að vinna heimavinnuna hvað þessa nemendur varðar og minni á að 95% þessara nemenda búa í Reykjavík eða á Reykjanesi. Þetta er ekki málefni sem varðar öll þessi sveitarfélög eins og látið er að liggja í frv. Auk þess hefur hæstv. menntmrh. ekki svarað spurningu minni um það hvort hann hafi leitað eftir því af kostgæfni og borið það undir aðila hvort það samræmist jafnræðisreglu stjórnarskrár Íslands að fela forsjá ákveðinna hópa í þjóðfélaginu undir hagsmunasamtök á borð við Samband íslenskra sveitarfélaga.