Almannatryggingar

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 23:58:25 (6708)

1996-05-28 23:58:25# 120. lþ. 150.14 fundur 529. mál: #A almannatryggingar# (eingreiðsla skaðabóta) frv. 95/1996, heilbrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 150. fundur

[23:58]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Með frv. því sem hér er lagt fram er gerð sú breytingartillaga á lögum um almannatryggingar að við útreikninga örorkulífeyris og tekjutryggingar verði Tryggingastofnun heimilt að hækka tekjuviðmiðun þeirra lífeyrisþega sem fengið hafa eingreiðslu skaðabóta vegna örorku.

Ástæða tillögflutningsins er þessi:

,,Þeir sem eiga rétt til örorkulífeyris hafa margir hverjir orðið fyrir varanlegri örorku í slysum og fengið dæmdar fébætur vegna þess með dómi eða samkvæmt ákvörðun tryggingafélags. Samkvæmt dómvenju hér á landi eru fébætur vegna framtíðarörorku miðaðar við ákveðna framtíðarávöxtun þegar þær eru ákvarðaðar. Fyrir því er einnig dómvenja að verðmæti örorkulífeyris og tekjutryggingar sem hinn slasaði á rétt á frá Tryggingastofnun ríkisins komi til frádráttar skaðabótakröfum. Vegna þeirrar breytingar sem gerð var á 10. gr. laganna um að fjármagnstekjur séu teknar inn í tekjugrunn við útreikning örorkulífeyrisbóta geta þær skert rétt hinna slösuðu til örorkulífeyris og tekjutryggingar. Með því er skertur bótaréttur örorkulífeyrisþega sem þegar hafa sætt lækkun fébóta vegna þeirra réttinda sem þeir voru taldir eiga hjá Tryggingastofnun ríkisins.``

Til nánari útskýringar má nefna að þegar um er að ræða börn og ungmenni sem fá dæmdar skaðabætur með þessum hætti sem eiga að bæta tekjutap þeirra það sem eftir er ævinnar þá er langstærsti hlutur bótanna vextir þar sem gert er ráð fyrir að hinn slasaði fái bótafjárhæðina auk þess sem verðmæti framtíðarörorkulífeyris og tekjutryggingar er dreginn frá.

,,Gert er ráð fyrir að ráðherra setji reglugerð um nánari framkvæmd þessa ákvæðis. Við ákvörðun á hækkun á tekjumörkum má gera ráð fyrir að til þurfi að koma tryggingastærðfræðilegir útreikningar.``

Þær liggja ekki fyrir nú eða yrðu grundvöllur að setningu reglugerðar um nánari framgang þessa ákvæðis svo sem lagt er til í frv.

Að lokum legg ég til að frv. þessu verði vísað til heilbr.- og trn. að lokinni umræðunni.