Tilskipanir Evrópusambandsins um orkumál og stefna íslenskra stjórnvalda

Miðvikudaginn 29. maí 1996, kl. 10:28:11 (6717)

1996-05-29 10:28:11# 120. lþ. 151.91 fundur 322#B tilskipanir Evrópusambandsins um orkumál og stefna íslenskra stjórnvalda# (umræður utan dagskrár), StG
[prenta uppsett í dálka] 151. fundur

[10:28]

Stefán Guðmundsson:

Virðulegi forseti. Að gefnu tilefni vil ég taka það fram sem formaður þeirrar nefndar sem hér er verið að ræða um að ljóst er að það er ekkert óeðlilegt sem tefur störf þessarar nefndar. Hún hefur haldið marga fundi. Málið er hins vegar umfangsmikið og það sem skiptir höfuðmáli er að það verði vandað til þessa verks.

Það vekur athygli mína við þessa umræðu að hér koma núna upp hvorki fleiri né færri en fjórir fyrrv. ráðherrar til að finna að því að þessi nefnd skuli ekki hafa lokið störfum á örfáum mánuðum. Mér er spurn: Hvað aðhöfðust þeir meðan þeir höfðu öll völdin til þess að leysa þessi mál? Hvað aðhöfðust þeir þá, þessir fjórir hæstv. ráðherrar sem hér hafa geyst fram í ræðupúlt til þess að fjargviðrast yfir því að við skyldum ekki vera búnir að leysa jafnumfangsmikið mál á eins skömmum tíma og okkur var settur? Það er staðreynd að það var hugsun ráðherrans að við gætum lokið störfum og þetta mál gæti komið inn í þingið og væri kynnt núna fyrir þinglok. Því miður er málið umfangsmeira en svo. Og ég legg höfuðáherslu á það sem formaður þessarar nefndar að það sé vel unnið að þessu starfi og það höfum við allir sem í nefndinni erum viljað gera.

Í umræðum fyrir nokkrum dögum var óskað eftir því að þetta mál yrði tekið upp í iðnn. þingsins og kynnt þar hvernig staða málsins væri. Að sjálfsögðu tók ráðherra því vel og hafði samband við mig þegar um það mál. Ég leitaði til annars lögfræðingsins í þessu máli og óskaði eftir því að hann kæmi á fund nefndarinnar sl. föstudag til þess að kynna þetta mál þar. Því miður náðum við ekki mætingu í nefndinni þennan föstudag til þess að hægt væri að kynna stöðu málsins þá. En ég gerði grein fyrir því á fundi nefndarinnar í þessari viku að ég vildi verða við því að reyna að koma á fundi nú í þessari viku til þess að kynna það. Þetta eru staðreyndir málsins, virðulegi forseti.