Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Miðvikudaginn 29. maí 1996, kl. 11:52:51 (6733)

1996-05-29 11:52:51# 120. lþ. 151.15 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, 364. mál: #A póstlög# (Póstur og sími hf.) frv. 107/1996, 408. mál: #A fjarskipti# (meðferð einkaréttar ríkisins) frv. 99/1996, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 151. fundur

[11:52]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Við erum að ræða eitt af stórmálum þingsins í vetur um breytt rekstrarform á Póst- og símamálastofnun. Áður en ég hef mál mitt um frv. langar mig að velta fram spurningu þó ég viti svo sem að henni verði ekki svarað fyrr en ég hef lokið máli mínu en hún er sú hvort það standi til hjá ríkisstjórninni að fresta málinu til hausts. Ég sé að á forsíðu málgagns annars stjórnarflokksins, forsíðu Tímans á laugardaginn var, er forsíðufrétt þar sem er yfirfyrirsögn: Póstur og sími bíður hausts. En það er einmitt það sem við í minni hluta samgn. höfum lagt til í nefndaráliti okkar að málinu um stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar verði frestað til haustsins vegna þess hve illa hefur verið staðið að málinu. Ég er þó ekki að gagnrýna vinnu í samgn. sem hefur verið til fyrirmyndar þar sem menn hafa farið vel yfir frv. Engu að síður eru mjög margir lausir endar og þar vil ég sérstaklega nefna málefni starfsfólksins sem hafa verið mjög til umræðu í meðferð þingsins á málinu.

Ég hef satt best að segja haft skilning á því að símareksturinn þurfi að búa við líkt rekstrarform og samkeppnisaðilar, sérstaklega þegar samkeppni verður gefin frjáls og einnig til þess að aðlaga okkur þeim skilyrðum sem við gengumst undir með samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði. Aftur á móti hefur enginn rökstuðningur komið um það í samgn. hvers vegna það á frekar að vera hlutafélag en eitthvað annað form. Eins og hefur komið fram í umræðunni og kom það reyndar fram í samgn. er verið að vinna frv. um sjálfseignarstofnanir sem margir hafa nefnt í þessu sambandi að væri e.t.v. betri kostur.

Annað sem við í minni hlutanum höfum gagnrýnt er að það vantar alla framtíðarstefnumótun í frv. og sama gildir um fylgifrumvörpin sem eru hér einnig til umræðu. Það er aðeins verið að breyta því sem verður að breyta í fylgifrumvörpunum þar sem eru nauðsynlegar lágmarksbreytingar en ekki tekið á neinni heildarstefnumörkun þó svo að það sé boðað að það verði farið í að vinna að heildarlöggjöf um fjarskiptamál í haust. Það er eitt af því sem maður hefði talið rökstuðning fyrir því að málið yrði geymt til haustsins og unnið betur í sumar. Þá hefði verið hægt að gera þær breytingar á fjarskiptalögunum og póstlögunum sem nauðsynlegar eru vegna þeirrar lagabreytingar. En málefni starfsmannanna hafa verið helstu áhyggjuefni okkar og kannski ekki að ástæðulausu því að þeir hafa ekki fengið svör við grundvallarspurningum sem varða réttindi þeirra. Lausn meiri hlutans og samgrh. er sú að þriggja manna nefnd er ætlað að sjá algerlega um alla þá vinnu án þess að þingið komi þar nokkurs staðar að. Þó kom fram í máli formanns samgn. þegar hann mælti fyrir málinu fyrir nokkrum dögum og það sama kom einnig fram hjá hv. þm. Magnúsi Stefánssyni að samgn. yrði leyft að fylgjast með þeirri vinnu og er það af hinu góða. Engu að síður hefði ég talið réttara að Alþingi kæmi beint að málinu. Þetta yrði geymt til hautsins og síðan skoðað í haust þegar vinnunni verði lokið.

Ég tel einnig óeðlilegt að samgrh. hafi algert umboð um það hvernig málum Pósts og síma verði hagað í framtíðinni. Eins og frv. kom inn í þingið er margt í því náttúrlega ámælisvert og sýnir að það hefur verið kastað til þess höndunum. Það kemur líka fram í brtt. meiri hlutans að þar er ýmislegt sem bar að taka á sem eru klaufavillur í undirbúningnum í samgrn. eins og gildistökuákvæðið og aðrar dagsetningar sem menn eru að reyna að bjarga sér fyrir horn með því að breyta.

Okkur nokkrum þingmönnum gafst kostur á að kynna okkur þær breytingar sem hafa orðið á rekstri póst- og símastofnana á Norðurlöndum áður en þetta mál kom inn í þingið og tel ég að það hafi verið mjög jákvætt og til fyrirmyndar að gefa þingmönnum kost á að kynna sér hvernig þessum málum er háttað þar sem þessar breytingar eru lengra komnar. Engu að síður tel ég að ýmislegt sem þar kom fram hefði átt að vera samgrh. og ráðuneytismönnum lexía við samningu frv. og einnig okkur í þinginu því að bæði í Noregi og Danmörku var undirbúningur mun lengri, þeir gáfu sér betri tíma og virðist hafa verið markvissari.

[12:00]

Það sem vekur ugg hjá starfsfólki Pósts og síma er einmitt reynslan frá Norðurlöndunum þar sem starfsmönnum hefur fækkað mjög eftir að rekstrarformi var breytt og eins og kom fram í máli hv. þm. Kristínar Halldórsdóttur var hjá símamálastofnuninni í Noregi sett á laggirnar stuðningsdeild til þess að endurmennta starfsmenn og finna þeim nýja atvinnu. Eins og komið hefur fram í umræðunni hefur starfsmönnum fækkað um 30% í Noregi eftir þessa formbreytingu og þess vegna er skilningur okkar á því að menn séu uggandi um hvað bíður þeirra hér við þessar breytingar.

Annað sem hefur valdið mönnum áhyggjum er það sem gerðist á Norðurlöndunum að launin hjá yfirmönnunum hækkuðu. Forstjórarnir hækkuðu í launum en hinn almenni starfsmaður, fólkið á gólfinu, stóð í stað og þar varð fækkunin. Fækkunin var ekki hjá yfirmönnunum heldur fækkaði hinu almenna starfsfólki þannig að það er mjög skiljanlegt að menn hafi áhyggjur af því hver þróunin verður. Þess vegna gagnrýnir maður að Alþingi skuli ekki koma að þeirri vinnu sem fram undan er varðandi starfsfólkið.

Við erum ekki sátt við að láta þriggja manna nefnd, sem valin er af pólitískum ráðherra, algerlega um að ganga frá öllum málefnum starfsmannanna sem eru ófrágengin. Á fundum samgn., þar sem starfsmenn komu, lýstu þeir yfir áhyggjum af þessu og einnig því að tíminn hefði verið illa nýttur frá því að málið kom fram í þinginu og þangað til verið er að taka málið út og afgreiða það út úr þinginu sem lög. Eins og hefur komið fram eru hlutirnir í lausu lofti og lítið verið gert til að ganga frá málum starfsmannanna. Þó svo þeir hafi verið kallaðir saman og hópar hafi verið settir á laggirnar eru málin allsendis ófrágengin.

Við skulum nefna t.d. eitt sem var þó nokkuð til umræðu í samgn. og það er fæðingarorlofsrétturinn. Fæðingarorlofsreglur gilda þangað til um annað semst og þriggja manna nefnd ráðherrans á líklega að semja um það. Þetta er náttúrlega mjög óljóst og skiljanlegt að menn séu áhyggjufullir yfir því hvernig þessi mál munu fara. En réttarstaða starfsmannanna er algerlega í uppnámi.

Varðandi umræðuna sem hefur verið um sama gjald um allt land fyrir símtöl sem er brtt. okkar í minni hluta samgn. við þetta frv., vil ég ítreka það að tillaga minni hlutans stefnir að því að sama gjald gildi alls staðar á landinu frá 1. júlí 1996 þannig að þar er gengið mun lengra en í tillögu meiri hlutans sem er að vísa langt fram í tímann þegar ný lög hafa tekið gildi og við erum komin inn í allt annað rekstrarumhverfi.

Menn hafa líka lýst áhyggjum sínum varðandi þetta frv. að verið sé að lauma einkavæðingu í gegnum þingið. Þó svo það komi skýrt fram í frv. að það þurfi samþykki Alþingis til þess að selja hluta af Pósti og síma þekkjum við að það er hægt að koma málum í gegnum þingið á örskömmum tíma. Menn vakna nánast upp næsta dag og þá er búið að keyra mál í gegnum þingið. Reyndar ætla ég ekki að taka afstöðu til þess. Það er greinilega möguleiki á því að selja hlutabréf Pósts og síma en það þarf samþykki Alþingis til.

Einnig er óljóst hver réttarstaða starfsmanna er í dótturfyrirtækjum við skiptingu fyrirtækisins. Það hefur verið óljóst í umræðunni og ekki fengist viðhlítandi svör við því hvar starfsmenn þeirra fyrirtækja sem munu verða dótturfyrirtæki Pósts og síma standa. Svo sem þegar búið er að brjóta upp pósthlutann annars vegar og símahlutann hins vegar eins og hefur verið nokkuð í umræðunni og eru hugleiðingar sem maður hefur heyrt. Reyndar hefur það komið fram í máli mínu fyrr þegar þetta mál var til umræðu að það hefði átt að ganga strax hreint til verks og skipta þessu nú þegar upp í sérstaka símamálastofnun og sérstaka póstþjónustu eins og menn hafa gert á Norðurlöndunum. En e.t.v. vill ríkisstjórnin hafa það í hendi sér þegar hún er komin með málið út úr þinginu og geta þá ráðskast með þetta að vild.

Ég ætla að fagna því aftur að þessi þriggja manna nefnd, sem mun starfa hér, þó ég sé mjög ósátt við hana sem sérskipaða nefnd ráðherrans, skuli ætla að leyfa samgn. að fylgjast með vinnu sinni en hún hefur í raun alræðisvald í samningamálum við starfsmann, bæði hvað varðar kaup þeirra og kjör. Ég tel óeðlilegt að vísa því valdi út úr þinginu og til einhverra þriggja manna úti í bæ, sérstaklega þegar maður horfir til þess hversu margir þættir eru óljósir í málefnum starfsmannanna. Þar hefði ég talið að Alþingi hefði þurft að koma að málinu sem heild, ekki aðeins samgn. (Gripið fram í: 63 þingmenn.) Allir 63, já.

Nokkur umræða hefur verið um það að við það að breyta rekstrarformi símans sérstaklega muni gjald fyrir símtöl lækka en ég held að það sé búið að rökstyðja það í umræðunni að svo er ekki því að það hefur komið í ljós að hin lágu símgjöld eru ekki því að þakka að Póstur og sími hafi verið einkavæddur eða hlutafélagavæddur því eins og við vitum öll er svo ekki en við búum við ein lægstu símgjöld sem um getur. Það kom einmitt fram í umræðunni að t.d. í Finnlandi þar sem búið er að breyta rekstrarforminu á símanum eru símtölin 60% dýrari en hér á landi.

Þó svo hæstv. samgrh. sé farinn úr húsinu til þess að sinna opinberum skyldum sínum væri fróðlegt að heyra hvers vegna ekki var búið að ganga frá málefnum starfsmannanna áður en frv. kom inn í þingið. Ég hefði talið það eðlilegt og maður heyrir að það hafði verið tónninn í þeim á Norðurlöndum að vera með málefni starfsmannanna á hreinu. Ég held að menn hefðu átt að hafa þá að fyrirmynd hér. Einnig lýsi ég áhyggjum mínum yfir réttindum starfsmannanna. Talað er um að menn haldi áunnum réttindum en svokölluðum ávinnsluréttindum, sem hafa verið skilgreind sérstaklega, þ.e. réttindi sem menn eru að ná, munu ekki haldast. Þetta er náttúrlega stórt áhyggjuefni, sérstaklega hjá Pósti og síma þar sem menn hafa verið á mjög lágum launum og kannski sætt sig við það vegna þess að þeir voru þarna að vinna sér ákveðin réttindi. Ef þeir tapa svokölluðum ávinnsluréttindum finnst mér það gersamlega óviðunandi.

Í umsögnum sem samgn. fékk frá hinum ýmsu umsagnaraðilum er það mjög víða gagnrýnt harðlega að ekki hafi verið gengið frá starfsmannamálum áður en formbreytingin verður lögfest.

Margt af því sem við í minni hlutanum gagnrýnum hefur þegar komið fram hjá hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni þegar hann mælti fyrir nefndaráliti minni hluta samgn. í síðustu viku en þar er mjög margt varðandi þetta frv. gagnrýnt og ég sé ekki ástæðu til þess að fara að tína það allt til. Ég vil þó gjarnan að það komi fram í umræðunni vegna þeirra lífeyrisþega sem eiga rétt á niðurfellingu fastagjalds á síma í gegnum almannatryggingarnar að það kom mjög skýrt fram í nefndinni þegar ég spurði að því þar að það yrði ekki breyting á þeim þætti að lífeyrisþegar með fulla tekjutryggingu muni halda þessum réttindum nema annað verði ákveðið eins og sagt var þannig að það er undir þessu nýja félagi komið eða samgrn. Ég er ekki alveg viss hvar það stendur en við vorum fullvissuð um það í nefndinni að lífeyrisþegar mundu halda réttindum sínum um niðurfellingu á fastagjaldi af símanum þó svo þessi formbreyting yrði.

Ég ítreka að ég hef verulegar áhyggjur af þessum 2.500 starfsmönnum, hverra réttindi eru í uppnámi og eins og kom fram fyrr í umræðunni eru 70% af starfsmönnum Pósts og síma konur.

Ég bendi líka á að miklir fjármunir eru í húfi varðandi þessa breytingu. Eigið fé Pósts og síma eru um 13 milljarðar miðað við efnahagsreikninginn um síðustu áramót. Þá eru ótaldar eignir Póst- og símamálastofnunar og viðskiptavild sem eru taldar í kringum 8 milljarðar til viðbótar.

[12:15]

Samkvæmt fjárlagafrv. fyrir árið 1996 er hagnaður fyrirtækisins áætlaður 1 milljarður 581 millj. kr. og hagnaður söludeildar 225 millj. Það er því gert ráð fyrir því að í ríkissjóð renni alls 860 millj. kr. Það eru miklir peningar í húfi hvað varðar þessa stofnun. En eins og hefur komið fram í máli okkar í minni hluta samgn. og áheyrnarfulltrúa í nefndinni, Kristínar Halldórsdóttur, þá erum við mjög ósátt við frv. eins og það liggur fyrir hér með brtt. Við teljum að það vanti mikla vinnu í þetta mál. Það hefði átt að taka sumarið í það að ganga frá málefnum starfsmannanna og þingið síðan að koma að því í haust. Við gagnrýnum að málið skuli vera tekið út úr þinginu og lögfest áður en þessi mál hafa verið til lykta leidd. Þess vegna höfum við lagt til að frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar og tekið síðan aftur til umræðu þegar nauðsynlegri undirbúningsvinnu hefur verið lokið. Ég vil aðeins ítreka það hér og lýk því máli mínu í þessu máli að sinni.