Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Miðvikudaginn 29. maí 1996, kl. 12:21:49 (6736)

1996-05-29 12:21:49# 120. lþ. 151.15 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, 364. mál: #A póstlög# (Póstur og sími hf.) frv. 107/1996, 408. mál: #A fjarskipti# (meðferð einkaréttar ríkisins) frv. 99/1996, Frsm. meiri hluta EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 151. fundur

[12:21]

Frsm. meiri hluta samgn. (Einar K. Guðfinnsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því sem fram kom í þessari ræðu hv. 18. þm. Reykv. Hún telur ekki óeðlilegt í sjálfu sér að fela þetta vald til þess að gera samninga og löggerninga í nafni félagsins þessari þriggja manna undirbúningsstjórn. Það finnst mér mjög mikilvæg yfirlýsing vegna þess að það var þannig frá því gengið af hálfu meiri hluta samgn. að það væri verið að fela þessari þriggja manna stjórn afmarkað, skilgreint vald til þess að takast á hendur nauðsynlegan undirbúning. Ekkert umfram það.

Eins og ég sagði áðan er ekki hægt að ganga frá öllum málum með lagasetningu frá Alþingi. Það er ekki hægt að ganga til skuldbindinga fyrir hönd félags sem ekki er búið að stofna og ekki er búið að taka ákvörðun um, lögformlega ákvörðun um að stofna. Hvernig hefði það litið út frá sjónarhóli okkar alþingismanna ef ,,menn úti í bæ`` væru búnir að skuldbinda fyrirtækið Póst og síma hf. sem ekki væri búið að stofna með lögum frá Alþingi. Það gengur ekki upp. Þess vegna er það óhjákvæmileg aðferð sem við fórum mjög rækilega í gegnum í undirbúningsvinnunni að fara nákvæmlega þessa leið, þ.e. að fela þessari undirbúningsstjórn þetta skilgreinda, afmarkaða hlutverk.

Varðandi síðari spurningu hv. þm. um það hvort til standi að fresta þessu máli til haustsins vil ég segja það einfaldlega sem formaður samgn. að mér er ekki kunnugt um það. Það hefur aldrei verið fært í tal við mig að það ætti að fresta þessu máli. Þvert á móti hefur verið lögð á það áhersla að þessu máli yrði lokið vegna þess að það væru miklir hagsmunir í því fólgnir að ljúka því, ekki síst vegna starfsöryggis starfsfólksins. Þess vegna kom þessi frétt í Tímanum mér mjög á óvart. Ég tel að þar sé farið með staðlausa stafi og mér hefur fundist, með fullri virðingu fyrir því ágæta blaði sem ég hef góðar taugar til, að umfjöllun þess um málefni Pósts og síma og þessarar lagasetningar hafi verið í skötulíki og lítt til fyrirmyndar.