Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Miðvikudaginn 29. maí 1996, kl. 12:26:55 (6737)

1996-05-29 12:26:55# 120. lþ. 151.15 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, 364. mál: #A póstlög# (Póstur og sími hf.) frv. 107/1996, 408. mál: #A fjarskipti# (meðferð einkaréttar ríkisins) frv. 99/1996, KPál
[prenta uppsett í dálka] 151. fundur

[12:26]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Að breyta Pósti og síma í hlutafélag er að mínu mati nauðsynleg aðgerð svo samkeppnishæfni stofnunarinnar sé tryggð á alþjóðamarkaði. Það er öllum ljóst sem starfað hafa við fyrirtækjarekstur að þunglamaleg ákvarðanataka ríkiskerfisins mun á alþjóðamarkaði drepa þá miklu þróun sem orðið hefur innan Póst og síma síðust árin í dróma. Að starfa eftir áætlunum til eins árs er ekki forsvaranlegt. Að auka sveigjanleika og opna leiðir til samstarfs heima og erlendis er nauðsynlegt. Um þessi grundvallarsjónarmið tel ég að ríki veruleg samstaða inni á hinu háa Alþingi og meðal starfsmanna Pósts og síma.

Þau mál sem mestu skipta að þessu gengnu er hvernig formbreytingin tekst gagnvart starfsfólkinu. Um þau mál hefur mikið verið rætt í hv. samgn. Í lögum nr. 77/1993, um aðilaskipti, er skýrt tekið fram að réttindi og skyldur starfsmanna flytjist á milli með starfsmönnum. Þá er um að ræða umsamin réttindi eins og ráðningarsamninga og launakjör.

Ekki er að sjá í umsögnum BSRB að breyting á lögbundnum réttindum valdi þeim áhyggjum nema þá helst biðlaunaréttur. Ég tel þó að allir skilji að tvöfaldur biðlaunaréttur er ekki verjandi.

Það er eitt atriði varðandi réttindi starfsmanna sem ég vil gera að umræðuefni og veldur mér áhyggjum en það eru lífeyrisréttindi þessara starfsmanna. Það er ljóst að núverandi starfsmenn munu hafa rétt til að greiða í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins miðað við þau laun sem þeir eru með þegar breytingin verður. Þeirra réttur til ávinnslu mun síðan einvörðungu miðast við launahækkanir sem verða hjá ríkinu miðað við sambærilegan launaflokk þegar breytingin átti sér stað. Það þýðir með öðrum orðum að þó svo meiri hækkanir yrðu hjá Pósti og síma á þessum launaflokkum eða þessum störfum, mundu þau ekki gilda til hækkunar á lífeyrisgreiðslum í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Þetta þýðir að launaflokka- eða þrepahækkanir vegna starfsaldurs og/eða lífaldurs, námskeiða og þess háttar munu ekki skapa rétt til töku lífeyris úr Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins né hækkanir á stöðuhlutfalli eða vegna nýrrar stöðu innan fyrirtækisins. Athugum lífaldurshækkanir. Ein hækkun er vegna þess að menn ná 40 ára lífaldri, þá hækka starfsmenn ríkisins um eitt þrep. Það tekur nokkur ár að vinna sér inn þetta ákveðna þrep. Maður getur verið búinn að starfa í allt að 20 ár hjá Pósti og síma og er orðinn 39 ára, búinn að vera að vinna sér inn þetta þrep í fjögur ár. Hann á eftir eitt ár til að ná þessu þrepi. Hann tapar þessari hækkun inn í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Hann vantar aðeins eitt ár af fimm og hann tapar þessari ávinnslu sem hann var búinn að vinna sér inn hjá fyrirtækinu Póstur og sími. Þetta færist ekki yfir í Póst og síma hf.

Þetta þýðir í mínum huga skert réttindi til starfsmanna Pósts og síma. Og í mínum huga eru þessi réttindi mikils virði fyrir starfsmenn. Það er þó ljóst að eldri starfsmenn sem eru komnir langt í sínu starfi hjá Pósti og síma og eru farnir að nálgast eftirlaun munu lítið skaðast af þessu. Reglur eins og 95 ára regla og 32 ára regla munu halda og fólk mun taka sér lífeyri eftir þeim reglum alveg óháð þessari breytingu. Í því tilliti er því ekki um neina breytingu að ræða. Ég tel mjög nauðsynlegt að þessi breyting og þessi réttindamissir komi skýrt fram. Forustumenn starfsmanna sem hafa með umsögnum til hv. samgn. lýst skoðunum sínum virðast ekki hafa verulegar áhyggja vegna þessa sérstaka máls, lífeyrisréttindanna. Ef ég vitna í umsögn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja er almennt verið að tala um að formbreyting Pósts og síma sé óþörf. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Stjórn BSRB hefur ekki komið auga á nauðsyn þess að breyta Pósti og síma í hlutafélag. Stjórnin hefur ekki fengið í hendurnar rök fyrir því að núverandi skipulag hamli samkeppnisstöðu stofnunarinnar á þann hátt sem fullyrt hefur verið né heldur að formbreyting stofnunarinnar í hlutafélag muni bæta hana.`` Stjórn BSRB lýsir því yfir á bls. 2 að allt sé í óvissu um stöðu starfsmanna innan stofnunarinnar og segir í lokaorðum sínum, með leyfi forseta:

[12:30]

,,Því verður ekki að óreyndu trúað að formbreyting af þessu tagi sé gerð til þess að rýra kjör starfsmanna stofnunarinnar eða til að auka launamismun innan hennar. En meðan ekki hefur verið sýnt fram á að hér sé um óyggjandi hagsmuni notenda að ræða er erfitt að verjast þeirri hugsun að hér sé á ferðinni tilraun til að lækka rekstrarútgjöld stofnunarinnar á kostnað starfsmanna.``

Mér finnst þessi umsögn vera meira almennt snakk, ekki það að verið sé að taka á einstökum atriðum sem skipta kjör starfsmannanna máli. Ég vitna til þeirra vinnubragða sem ég sá til forustumanna Kennarasambands Íslands þar sem þeir kröfðust yfirlýsinga um það sem þeir töldu ekki nógu ljóst þannig að þegar yfirfræsla á grunnskólunum til sveitarfélaganna fór fram var allt njörvað niður sem þeir töldu nauðsynlegt þannig að réttindi og skyldur kennara væru ljós, ekki almennar bollaleggingar um það hvernig þetta ætti ekki að vera vegna þess að forustumenn BSRB eru á móti því að þetta verði hlutafélag. Það er ekki stóralvarlegt mál að Póstur og sími verði hlutafélag. Það hefur hvergi reynst verða alvarleg skerðing á kjörum fólks. Að því leytinu til er ég hræddur um að forustumann Bandalags starfsmanna ríkis og bæja hafi hellt sér einum of mikið út í pólitíska umræðu um málið frekar en að reyna að velta því fyrir sér hvernig formbreytingin mundi tryggja kjör starfsmanna þegar af henni verður. Mér finnst að vantað hafi á þetta nema og ég ítreka það, nema, og ég vona að það sé ástæðan að forustumenn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja telji sig geta náð þessum réttindum til baka í frjálsum samningum við Póst og síma hf. Ég hef enga ástæðu til að ætla annað en það takist. Í þeirri umræðu sem farið hefur fram innan hv. samgn. höfum við gert ráð fyrir því að nefndin geti fylgst með því hvernig formbreytingin verður og það að réttindi starfsmanna verði tryggð í þeim samningum sem gerðir verða milli stofnunarinnar og starfsmanna áður en yfirtakan á sér stað.

Ég hef sjálfur verið þeirrar skoðunar að mjög lág laun starfsmanna Pósts og síma séu vegna þess að þarna sé um ríkisstofnun að ræða, að eina leiðin til þess að brjóta þessa starfsmenn út úr því launahelsi sem þar er sé að formbreyta stofnuninni í hlutafélag og ná þannig upp betri launakjörum starfsmanna Pósts og síma og ég er þess fullviss að þetta eigi eftir að bæta kjör starfsmanna þarna. Ég heiti liðsinni mínu til þess að starfsfólkið haldi öllum réttindum sínum og fái alla þá ávinnslu sem það ætti að hafa fengið miðað við almennar breytingar og ég vona að í samstarfi við BSRB muni það síðan nást. Ég mun leggja mig allan fram um það að aðstoða BSRB við að ná þeim sanngjörnu réttindum sem þeir starfsmenn eiga rétt á.