Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Miðvikudaginn 29. maí 1996, kl. 12:34:40 (6738)

1996-05-29 12:34:40# 120. lþ. 151.15 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, 364. mál: #A póstlög# (Póstur og sími hf.) frv. 107/1996, 408. mál: #A fjarskipti# (meðferð einkaréttar ríkisins) frv. 99/1996, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 151. fundur

[12:34]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Pálssyni fyrir margar ágætar ábendingar. Það kom fram í máli hans að margt væri óljóst varðandi réttindi starfsfólks. Hann benti réttilega á að ávinnsluréttur lífeyrisréttar væri ekki tryggður með þeim breytingum sem liggja núna fyrir og eins og fram kom í máli hans vísaði hann í umsögn frá BSRB og benti þar réttilega á að þar kemur fram m.a. að réttindamálin öll eru í óvissu enda hafa þau samtök og önnur sem að þessum málum hafa komið ítrekað bent á nauðsyn þess að um þetta yrði samið áður en stofnuninni yrði breytt í hlutafélag ef á annað borð yrði ráðist í þær breytingar.

Hins vegar hafa menn viljað taka alvarlega þær yfirlýsingar og þau markmið sem stjórnvöld, ríkisstjórnin og samgrh., samgn. setti í frv. um að það stæði til að tryggja þessi réttindi. Samtökin hafa hins vegar bent á að ekki sé búið að ganga frá slíkum málum og lagt áherslu á að slíkt sé gert áður en frá þessum málum er gengið.

Varðandi það sem hv. þm. kallaði hið almenna snakk, þ.e. spurninginu um hvort rétt og hyggilegt sé að breyta þessari stofnun í hlutafélag, þá er það ekki nokkuð sem menn hafa litið á sem eitthvert léttvægt, pólitískt snakk heldur eru þetta stórir hagsmunir sem snerta þjóðina alla og hvarvetna þar sem ráðist hefur verið í breytingar af þessu tagi hafa starfsmannafélög og verkalýðssamtökin látið sig þessi mál skipta og komið að þeim. Það hefur átt við um Bretland, það hefur átt við um Norðurlöndin. Þar hafa starfsmannafélögin og verkalýðssamtökin ekki einskorðað sig við það eitt að ræða um réttindi starfsmanna þröngt heldur um hinar þjóðhagslegu afleiðingar sem slíkar breytingar hafa í för með sér.