Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Miðvikudaginn 29. maí 1996, kl. 12:39:18 (6740)

1996-05-29 12:39:18# 120. lþ. 151.15 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, 364. mál: #A póstlög# (Póstur og sími hf.) frv. 107/1996, 408. mál: #A fjarskipti# (meðferð einkaréttar ríkisins) frv. 99/1996, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 151. fundur

[12:39]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Að sjálfsögðu skipta réttindi og kjör starfsfólks höfuðmáli eins og fram hefur komið í málflutningi þeirra samtaka sem starfsmennirnir heyra til. Umræður um þau atriði hafa fléttast mjög inn í umræður liðinna daga eins og þeir þekkja sem hafa setið þingfundi þar sem fjallað hefur verið um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og önnur skyld mál. Þar hefur verið komið mjög rækilega inn á þessi mál, m.a. hjá starfsmönnum Pósts og síma.

Hinu vil ég vekja athygli á og ég mun koma inn á það í ræðu minni síðar í dag hvað um er að tefla þegar stofnun á borð við Póst og síma er breytt í hlutafélag. Mér hefur sannast sagna fundist harla léttvæg þjóðfélagsumræða um þau mál. Mér finnst hún hættulega léttvæg og mun ég færa mjög rækilega rök fyrir máli mínu síðar.

Í þriðja og síðasta lagi vildi ég nefna það vegna ummæla hv. þm. Kristjáns Pálssonar þar sem hann ræðir mjög góð vinnubrögð af hálfu kennara í sambandi við flutning grunnskólans þá er náttúrlega ekki um sama hlut að ræða að því leyti að við erum að flytja þar starfsfólk á milli réttindakerfa sem um margt eru sambærileg sem eru í rauninni mjög svipaðs eðlis og má þar jafna saman um flutning á verkefnum milli ríkis og sveitarfélaga á liðnum árum. Hér er hins vegar um það að ræða að fara úr einu réttindakerfi yfir í annað og ég legg aftur áherslu á það sem ég hef áður sagt og margítrekað að nær hefði verið að ganga endanlega frá samningum um þessi efni áður en ráðist er í að breyta stofnuninni í hlutafélag sem ég tel reyndar vera mjög óráðlegt að gera.