Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Miðvikudaginn 29. maí 1996, kl. 14:44:26 (6746)

1996-05-29 14:44:26# 120. lþ. 151.15 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, 364. mál: #A póstlög# (Póstur og sími hf.) frv. 107/1996, 408. mál: #A fjarskipti# (meðferð einkaréttar ríkisins) frv. 99/1996, EgJ
[prenta uppsett í dálka] 151. fundur

[14:44]

Egill Jónsson:

Virðulegi forseti. Ég skal með mikilli ánægju flytja orð mitt í umræðunni og með því að beðið er eftir hæstv. samgrh. verður tæpast sagt að stjórnarþingmaður sé að tefja þingstörf og umræðu (ÖS: Þetta er víst málþóf.) því að undir öðrum kringumstæðum hefði trúlega orðið hér hlé á fundi.

[14:45]

Ég hef fylgst með þessari umræðu að mestu leyti frá því hún hófst. Mér þykir eðlilegt að það sjónarmið mitt komi hér fram að mér finnst margt gott um þessa umræðu. Mér finnst hún á margan hátt málefnaleg. Það sýnir nú kannski að styttra er hér á milli manna en oft hefur reynst vera í þessari vorumræðu sem fram hefur farið hér upp á síðkastið. Ég tel að þær formbreytingar sem hér eru lagðar til á rekstri símaþjónustunnar séu af hinu góða. Reyndar hefur það verið rökstutt af öðrum og þá kannski sérstaklega framsögumanni meiri hluta hvaða kostir felast í þessari breytingu. Það er auðvitað óþarfi að vera að endurtaka það sem aðrir segja þegar menn eru sammála um hlutina. Þess vegna vísa ég til þess sem fram kom í framsöguræðu formanns samgn. Ég vil hins vegar leggja á það sérstaka áherslu að með þessari formbreytingu á að fást meiri virkni í ákvarðanatöku í þessum málaflokki. Það er í rauninni það sem fylgir því að hafa hlutafélagaform á félagsstarfsemi hvers konar sem reyndar er ekki sérstaklega þróað rekstrarform hér á Íslandi og ég held að við ættum að leggja áherslu á að taka meira af slíku inn í okkar starfsemi, rekstur fyrirtækja og stofnana.

Ég skil vel þann ótta sem virðist búa í brjósti ýmissa þeirra sem flutt hafa mál sitt hér. Þeir eru reyndar á vinstri kanti stjórnmálanna og þá ekki sérstaklega sinnaðir í þá veru að fyrir forræði einstaklinga gangi fyrirtæki með sama hætti og hér er lagt til. Þetta er náttúrlega spurningin um ríkisforsjá sem greindar pólitískar skoðanir eru um. Þess vegna skil ég mætavel þegar stjórnarandstaðan dregur fram allar þessar neikvæðu hliðar.

Það er þó eitt mikilvægt atriði sem ég held að allir þeir virðulegu þingmenn sem hafa verið hér að andmæla þessu frv. og sumpart verið að mála skrattann á vegginn hafa sleppt að minnast á og það er að breytingar frá þessari löggjöf verða að eiga sér stað á Alþingi. Alþingi hefur ekki tekið aðra ákvörðun en þá einu sem fellst í þessu frv. og væntanlega þessum lögum. Auðvitað verður svo tíminn að leiða í ljós hvað vel reynist og enginn lifandi maður getur sagt fyrir um það hverjar breytingar kunna að verða á þeim málum. Ég held að það sé miklu betri kostur að leitast við að fylgja þróuninni, leitast við að gera breytingar, breytingar sem menn hafa fullt vald á, en að reyna að streitast á móti í þessum efnum og láta síðan atburðarásina taka völdin í sínar hendur. Þess vegna finnst mér einmitt þessi breyting vera trúverðug. Hún tekur í rauninni ekkert vald frá Alþingi en gerir hins vegar mögulegt að fá meiri virkni inn í starfsemi þessa mikilvæga fyrirtækis.

Annað atriði sem hér hefur verið mikið rætt og er afskaplega þýðingarmikið er hvernig þessi breyting snertir starfsfólk stofnunarinnar. Yfir þau mál var farið afar ítarlega í störfum samgn. og raunar gerðar breytingar sem fela það í sér að treyst er staða starfsfólksins frá því sem var í frv. Þetta er auðvitað það sem leiðir af góðum vinnubrögðum og er alþekkt hér í störfum Alþingis að fara með sem allra mestri nákvæmni yfir mál af þessum toga. Ég verð að segja eins og er að það kom mér svolítið á óvart sem kom fram í máli hv. þm. Kristínar Halldórsdóttur um viðhorf starfsfólksins til Pósts og síma. Ég held nefnilega að forustumenn Pósts og síma og samgönguráðherrar sem hafa farið með þessi mál hafi rækt sín verkefni og ræktað sinn garð býsna vel gagnvart starfsfólki þessara stofnana.

Ég minnist þess sérstaklega að fyrir nokkrum árum var fjallað um málefni í efri deild Alþingis sem snertu hugsanlega kjör þessara starfshópa, póstmanna og símamanna. Ég stjórnaði þá þeirri umræðu í þinginu. Þetta var í tíð Matt\-híasar Bjarnasonar og ég minnist þess hve gott var á milli ráðuneytisins og forustumanna þessara stofnana. Það vakti með öðrum orðum sérstaka athygli mína það traust sem þetta forustufólk hafði á þessum mikilvægu stofnunum, Pósti og síma, og eins samgrn. Ég hef ekki fundið breytingar í þeim efnum. Mér er fullkomlega ljóst að núv. hæstv. samgrh. hefur lagt sig fram um að skýra þessi málefni og ræða við starfsmenn þessara mikilvægu stofnana.

Nál. samgn. er býsna ítarlegt að þessu leyti. Ég held satt að segja að það sé mjög mikilvæg framsetning sem þar kemur fram og til hennar vísa ég alveg sérstaklega í þessum efnum. Þar er skýrt nákvæmlega hvernig þessi mál horfa nú við. Ég fæ ekki betur séð, eins og auðvitað er alveg sjálfsagt mál, en að hlutur starfsfólksins sé fullkomlega tryggður í þessum efnum. Ég get vel borið um það sem einn af nefndarmönnum samgn. Alþingis að þar voru áherslur frá hinum einstöku nefndarmönnum þær hinar sömu hvar sem menn annars skipa sér í pólitískar fylkingar hér á Alþingi. Ég óttast því ekki að hér sé haldið til hins verri vegar fyrir starfsfólkið, enda hefði ég þá ekki stutt þær breytingar sem hér eru lagðar til.

Þá kem ég að þriðja meginatriðinu í þessum efnum sem er jöfnun á kostnaði við símaþjónustuna. Það er reyndar nokkuð eftirtektarvert hvernig sú umræða hefur farið við þessa umræðu. Ég fylgdist t.d. vel með ræðu hv. þm. Ragnars Arnalds sem nú situr í forsetastóli. Raunar met ég mikils margt af því sem kom fram í hans málflutningi að því er þessi mál varðar. Auðvitað geta menn farið yfir það hvernig þessi mál hafa þróast allt frá því að hann var samgrh., þessi hv. þm., og tók upp skrefagjaldið eins og hann áréttaði hér sérstaklega, allt til þess tíma sem nú er þegar tekin er ákvörðun um fullan jöfnuð í þessum efnum. Hins vegar finnst mér að það sé nú kannski ekki sérstök ástæða til að elta ólar við fortíðina að þessu leyti. Ég held að það hafi vakað fyrir þeim ráðherrum sem hafa með þessi mál farið að ná fram jöfnun í símkostnaðinum. Auðvitað er það svo að hver tími gefur sína möguleika í þeim efnum. Það kemur mér reyndar líka á óvart og það tengist einmitt þessari ákvörðun þegar menn eru að sakna skattlagningarinnar sem verið hefur á símaþjónustuna að undanförnu. Það er rétt sem hér hefur komið fram að Póstur og sími hefur skilað álitlegri upphæð í arðgreiðslur til eiganda síns sem er ríkissjóður. En menn verða líka að líta á það hvaðan þessir peningar hafa komið. Þetta er svona hér um bil sama upphæð og nemur kostnaðinum annars vegar á símaþjónustunni á fyrsta gjaldsvæði og hins vegar á öðru og þriðja gjaldsvæði. Síðan þessi skattur var lagður á hefur ekki náðst fram jöfnuður á símakostnaði á milli þessara gjaldsvæða. Það eru sem sagt notendurnir á öðru og kannski sérstaklega þriðja gjaldsvæði sem hafa greitt þessi gjöld í ríkissjóð. Ég veit ekki hvort það þarf að sjá svo mikið eftir skattheimtu sem gerir þannig upp á milli fólksins eftir því hvar það býr. Ég sé ekki eftir þeirri skattheimtu.

[15:00]

Með þeim breytingum sem hér eru ákveðnar segir fyrir að hún skuli ekki lengur eiga sér stað heldur fer skattheimtan eftir almennum lögum um skattheimtu á hlutafélögum. Hún er því ekki bundin við það hvar fólkið býr á Íslandi heldur er hún fyrst og fremst bundin við það hver verður rekstrarleg útkoma hjá þessu nýja fyrirtæki. Í huga mínum er þetta veigamikil grundvallarbreyting. Ég er ósammála þeim áherslum sem hafa komið fram í umræðunni að það sé eðlilegur kostur að halda slíkri skattheimtu áfram sem tekur jafnmismunandi til þeirra sem nota símann eftir því hvar þeir búa á Íslandi. Ég sé ekki eftir þessum skatti, virðulegi forseti, nema síður sé.

Í þessu sambandi hefur verið talað um að ákvörðunin um sama gjaldstofn eigi frekar að vera í frv. um póstþjónustuna, sem er aðalmálið hér, en í frv. um fjarskipti. Stjórnarandstaðan hefur lagt fram tillögu sína við frv. um póstinn en nál. tekur aftur mið af breytingum á fjarskiptalögunum. Um býsna ólíkar leiðir er að ræða. Ég held að það sé grundvallaratriði að menn átti sig á því hver mismunurinn er á þessum leiðum. Ef við tölum um símgjöldin ein út af fyrir sig eins og stjórnarandstaðan leggur til er það að sjálfsögðu augljóst mál að þetta tekur aðeins til rekstrar þessa eina fyrirtækis. Eins og meiri hlutinn leggur aftur á móti til tekur þetta til sambærilegrar þjónustu hvaða fyrirtæki sem kann að eiga í hlut. Þetta er mikil grundvallarákvörðun. Engu er að leyna um það að forustumenn Pósts og síma höfðu ýmislegt við það að athuga að talsambandið skyldi verða jafnað með þessum hætti, m.a. út frá því að samkeppnisstaða símans yrði skert miðað við það sem kann að verða þegar fleiri geta farið að keppa á þessum vettvangi. Þá hefði verið vel hugsanlegt að þeir sem vildu hefja sambærilega þjónustu hefðu tekið út úr viss svæði á landinu hver svo sem þau hefðu verið og hugsanlega getað farið þar fram með lægri gjöld en annars staðar væri. Nú er í rauninni girt fyrir að svo verði. Það er tekin ákvörðun um að talsímagjöld verði þau sömu alls staðar á landinu. Það er tekin ákvörðun um það í fjarskiptalögunum sem taka væntanlega til allra þeirra sem hyggjast reka slíka þjónustu í landi hér. Það liggur alveg í augum uppi að þegar nýir rekstraraðilar leita eftir heimildum til samgrh., hver svo sem hann kann að verða, verða þeir að lúta sambærilegum skilyrðum að því er þessa þjónustu varðar. Þar er auðvitað ekki hægt að gera upp á milli aðila. Hér er því um að ræða afar mikilvæga niðurstöðu varðandi það að tryggja í framtíðinni sambærileg skilyrði gagnvart þeim sem kunna að taka sér fyrir hendur þessa þjónustu.

Ég minni á í þessu sambandi að út frá því er gengið að t.d. leiga af ljósleiðaranum verði hin sama hver sem þar á í hlut. Gildir þar einu hvort þar verður þessi nýja símastofnun eftir að hún hefur verið einkavædd eða einhver annar aðili. Þessi skilyrði eiga að verða hin sömu og þeir sem ætla að keppa á þessum vettvangi verða þar af leiðandi að sinna sömu þjónustu og samkeppnisaðilinn hvar sem er á landinu. Fyrir mér er þetta mikið grundvallaratriði. Ég get sagt það alveg hreinskilnislega að þetta var frá minni hendi forsenda fyrir því að ég gæti stutt þessar breytingar því að ég vil að þær leiði til þess að það verði jafnræði milli fólksins í landinu að því er þessa símaþjónustu varðar í stað þess að samkeppnin gæti orðið til þess að vissir hlutar landsins gætu orðið að bera uppi kostnaðinn við samkeppni sem ætti sér stað á staðbundnum svæðum á landinu.

Ég vil hins vegar taka fram í þessu sambandi að mér finnst að tillaga minni hlutans sé út af fyrir sig mikilvægt innlegg í umræðuna. Það er fjarri því að ég ætli með einhverjum hætti, einum eða öðrum, að draga úr gildi tillögunnar. Mér fannst reyndar ofurlítið broslegt þegar það heiðursfólk, sem skipaði minni hlutann og undirritaði tillöguna með tölu, er að þakka sér tillögu okkar. Það er mikill misskilningur. Ég hef hins vegar jafnmikla ástæðu til að þakka minni hlutanum tillögu þeirra þrátt fyrir að hún standist ekki þær kröfur og áréttingar sem ég vil hafa til þessa máls. Hins vegar er afar þýðingarmikið eins og hefur t.d. komið fram í fjölmiðlum vegna efnis þessara tveggja tillagna að þessi sanngirnisþáttur málsins er undirstrikaður bæði af meiri hluta og minni hluta í samgn. og vonandi síðar meir á hinu háa Alþingi, mikilvæg árétting um það að nú verði gengið til enda í þeim efnum að þessi þjónusta verði seld sama verði hvar sem er á Íslandi enda eru engin rök fyrir öðru. Af þessari ástæðu tel ég tillögu minni hlutans mikilvægt innlegg í umræðuna og undirstrika það sérstaklega að hér vilja menn fara sömu leiðir í þessum efnum.

Í lok umræðunnar vil ég nefna sérstaklega tímasetningarnar í þessum efnum. Eins og hv. alþingismönnum er býsna vel kunnugt um eru þær aðrar í tillögum minni hlutans en okkar sem skipum meiri hlutann. Eins og hefur komið fram í umræðunni er verið að taka afar mikilvægar ákvarðanir um þetta leyti. Þriðja gjaldsvæðið er fellt af þar sem óréttlætið í þessum efnum er hvað mest. Þetta jafngildir nærri því að þriðja hvert símtal á þriðja gjaldsvæði, miðað við þann taxta sem gilt hefur, verði nú látið í té án endurgjalds. Ég held að þetta sé mjög mikilvæg breyting. Tæplega þriðjungs lækkun á þriðja gjaldsvæði. Reyndar má sjá fyrir sér að það komi aftur tekjur og aukning á móti en þá eru menn líka að borga fyrir aukna þjónustu. Þessi ákvörðun er afar mikilvæg og hún er einmitt að eiga sér stað um þessar mundir.

Ég held ég fari líka rétt með, herra forseti, þegar ég nefni það sem ég minnist ekki að hafi komið fram í umræðunni, það má samt vera, að aðgangur að Internetinu verði innan skamms seldur með sama verði alls staðar á landinu. Þar er líka verið að jafna. Sú ákvörðun er afar mikilvæg, ekki síst í þeim tækniheimi sem við erum nú að búa okkur undir í sambandi við fjarskiptin. Þetta er mikilvæg ákvörðun líka.

(Forseti (RA): Forseti vildi spyrja hv. ræðumann að því hvort hann eigi mikið eftir af ræðu sinni. Ef svo er væri æskilegt að hann gerði hlé á ræðu sinni þannig að hægt væri að koma nokkrum málum fram áður en atkvæðagreiðsla fer fram klukkan hálffjögur.)

Ég held að það fari vel á því að ræðumaður taki tillit til þessara aðstæðna og ljúki ræðu sinni á stuttum tíma.

(Forseti (RA): Þá veljum við þann kostinn.)

[15:15]

Í þriðja lagi stendur núna fyrir dyrum endurskoðun á kostnaði eða leigu á svokölluðum leigulínum hjá símanum. Eftir að þessar ákvarðanir hafa verið teknar, þessar jöfnunarákvarðanir, liggur alveg ljóst fyrir að þar verður líka um mikilvæga jöfnunaraðgerð að ræða. Þetta eru allt saman stórar ákvarðanir, þ.e. að fella niður þriðja gjaldsvæðið og selja Internetið og leigulínurnar við sama verði. Þegar horft er yfir þetta svið hlýtur það að vera sanngirnismál að Póstur og sími fái ofurlítinn umþóttunartíma og færi á að búa sig undir þá breytingu. Það er afar þýðingarmikið frá mínum bæjardyrum séð. Í þessari umræðu allri er út frá því gengið, og það skulu vera mín síðustu orð, herra forseti, að þessar breytingar leiði ekki til almennra taxtahækkana. Það er ekki út frá því gengið að það þurfi að færa og eigi að færa þessar breytingar í gjöldum á milli símnotenda hér á landi, heldur á breytt rekstrartilhögun að gera það að verkum að fólkið í landinu þurfi ekki að búa við misjöfn kjör í þessum efnum eftir búsetu. Þar af leiðandi finnst mér afar þýðingarmikið að Póstur og sími fái tækifæri til að laga sig að þessum breyttu aðstæðum. Ég minni á að ef mál ganga þannig fram að unnt verði með góðu móti að láta þessar ákvarðanir ganga í gildi fyrr, er svo um hnútana búið að lögin heimila þá meðferð mála. Þegar farið er yfir þetta mál í heild sinni held ég að það verði ekki með nokkrum hætti annað sagt en að vel sé frá þessu máli gengið í nál. meiri hlutans. Það er bæði hv. formanni samgn. og hæstv. samgrh. til mikils sóma ef frv. með brtt. meiri hluta samgn., eins og ég á fastlega von á, verður afgreitt á þessu vori sem lög frá Alþingi.