Vörugjald af ökutækjum

Miðvikudaginn 29. maí 1996, kl. 15:48:58 (6756)

1996-05-29 15:48:58# 120. lþ. 151.10 fundur 533. mál: #A vörugjald af ökutækjum# (gjaldflokkar fólksbifreiða) frv. 48/1996, HG
[prenta uppsett í dálka] 151. fundur

[15:48]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Hér er allmerkilegt mál á ferðinni og heyrði ég það vissulega nefnt í þingflokki að til stæði að flytja mál af þessu tagi á vegum nefndar. Það eru sjálfsagt gild sjónarmið á sinn hátt sem koma fram í sambandi við þessa tilfærslu á gjaldflokkum vörugjalds en mér finnst hins vegar nauðsynlegt að hv. þingnefnd kanni sem flestar hliðar þessa máls. Ég sakna sérstaklega eins þáttar úr því dæmi sem hér er rætt. Hv. síðasti ræðumaður kom aðeins að þeim þætti í forminu orkusparnaður sem felst vissulega ekki í þessu frv. en þar með erum við komin að áhrifunum á umhverfið, þ.e. á það mál sem við ræddum allheitt í gær, ég og hæstv. umhvrh. í sambandi við losun á lofttegundum, þar á meðal koldíoxíði sem menga andrúmsloftið og leiða til hins mesta ófarnaðar yfir mannkynið sem kunnugt er. Eitt af því sem þarf að koma til er að draga úr þessari mengun. Það gera menn ekki með því að taka í notkun stærri og aflmeiri bíla handa almenningi eða yfirleitt, það gerist ekki þannig, heldur með því að taka í notkun aflminni tæki eða leggja af notkun þessara tækja.

Það er svo að mikill þáttur í koldíoxíðmengun hérlendis er frá umferð og auðvitað frá skipastólnum eins og fram hefur komið. Mér finnst nauðsynlegt að taka mál af þessum toga með af því að það gengur ekki annað en líta heildstætt á þau. Auðvitað eru fjölskyldupólitísk rök þarna, efnahagsleg rök og þægindaleg rök o.s.frv. Ég mun hugsa mig um áður en ég fer að reyna að bregða fæti fyrir þetta mál. Ég er ekki að boða það með þessum orðum heldur vil ég fá það athugað milli umræðna og það getur hv. þingnefnd sem hægast gert eða vísað málinu til umhvn. til þess að fara yfir þennan þátt. Hvað áætla menn að þetta leiði til árlegrar aukningar á bensíni eða öðru brennsluefni, sem notað er, og hversu mikil mengun hlýst af? Það er ekkert markmið nema síður væri að allur þorri almennings í landinu æki á sem stærstum bílum. Það er eitthvað annað. Auðvitað er æskilegt að menn hagi slíku eftir þörf og það er auðvitað langt frá því að það sé gert. Menn eru að aka einir á tröllstórum bílum sem kunnugt er. Mér skilst að lækkun á vörugjaldi lækkaði dýrustu bílana um 400 þús. kr. Getur það verið? Eru menn bara vissir um að það sé eitthvað af hinu góða að lækka bíla í landinu almennt séð? Ég set stórt spurningarmerki við það.

Landsbyggðarsjónarmið, auðvitað. Það má færa rök fyrir því en hér á landi eru menn á tröllstórum bílum sem leiktækjum í stórum stíl. Ég vil gjarnan sjá tölur um að það sé svona miklu meira af slíkum leiktækjum á þéttbýlisstöðum úti á landi en í Reykjavík. Ég er ekki að biðja um flokkun í leiktæki og alvörubíla eða bíla sem eru notaðir til nauðsynja. Ég held að það sé orðinn ansi myndarlegur floti torfærubíla sem menn eru með sem leiktæki í höfuðstaðnum með þeim afleiðingum sem fylgir: Hækkun sjávarborðs. Það er samhengið. Það fer að vatna upp á húsin í Kvosinni í Reykjavík fyrr en ella ef menn fylgja þeirri stefnu að bæta í mengunina ef trúa má þeim mælingum sem fram fara. (Gripið fram í: Það eru tvær aldir í það.) Það eru tvær aldir í það og nú róumst við væntanlega öll í þingsal. Það eru tvær aldir í það --- í hvað, hv. þm.? Ég vil gjarnan fá vitneskju um það, tvær aldir í hvað? (Gripið fram í: Að það vatni upp á húsin í Kvosinni.) Að það vatni upp á húsin í Kvosinni. Þarna hafa komið fram mjög þýðingarmiklar upplýsingar sem er auðvitað nauðsynlegt að efh.- og viðskn. taki til sérstakrar athugunar og kalli hv. þm. á sinn fund til að hann reiði fram hvaðan hann hefur þessar merku upplýsingar um hvaða tími sé til stefnu áður en mannkynið, sem býr mest í strandbyggðum, fer að drekkja sér, fer að drukkna vegna losunar mengandi efna og breytingar andrúmsloftsins. Það er nú svo, hv. þm., að hækkun sjávarborðsins vegna loftmengunar er farin að hafa áhrif á tryggingapólitík vestur í Bandaríkjunum. Tryggingafélögin í Bandaríkjunum eru farin að endurmeta stefnu sína í tryggingu fasteigna út frá því sem er í vændum, sem er að koma, er þegar í gangi. Hækkun sjávarborðs vegna hækkaðs hitastigs sem er afleiðing af mengun andrúmsloftsins. Ætli bílafloti heimsins hafi ekki talsverð áhrif í því samhengi? Ég er ansi hræddur um það. Það er kannski það sem væri auðveldast og útlátaminnst að draga úr um leið og menn tækju upp reiðhjólið og gætu fækkað smávegis stundunum í fimleikasölunum. Það væri full ástæða fyrir mig að gera það á gamalsaldri að fara að stunda slíkt annars staðar en í slíkum salarkynnum, rifja upp kunnáttu frá yngri árum.

Ég segi þetta í fullri alvöru sem varðar þetta mál og bendi á þetta samhengi vegna þess að menn auðvitað þurfa mjög fljótlega að taka upp til athugunar álagningu orkuskatta til þess að draga úr orkunotkun en hugsanleg jöfnun á milli gjaldflokka út frá einhverjum sérstökum matsatriðum getur auðvitað komið til greina, en þarf hún að vera almenn? Má ekki hugsanlega taka upp gjaldtöku þar sem barnafólki hyglað væri sérstaklega í sambandi við gjöld? Væri það ekki hugsanlegt? Væri nokkuð fráleitt að gera það? Það kæmi þá viðkomandi til góða sem hér er verið að höfða til eða fólki úti á landi sem býr við þannig aðstæður og þar sem mönnum hefur ekki tekist að leggja brúklega vegi heim í hlað. En fara að létta undir með fólki í sporti upp um fjöll og firnindi á tryllitækjum, tröllauknum bílum að gamni sínu til að flýta fyrir því sem ég hef minnt á að Reykjavík fari á kaf í Kvosinni og víðar og þéttbýlisstaðir úti um allt land og menn þurfi að fara að leggja stórfé til að verja hafnirnar og mannvirki sem standa við sjávarsíðuna. En þetta er það sem kemur ef trúa má þeim mælingum og þeim forspám sem menn telja nokkuð öruggt að séu á ferðinni. Og það eru ekki 200 ár í það. Þó það væru 200 ár ættu menn að taka mark á því nú þegar því það eru afkomendur okkar sem í hlut eiga.

Ég bið hv. þingnefnd og þá fulltrúa sem flytja þetta mál að taka þetta ekki sem einhvern reiðilestur af minni hálfu gagnvart þessu frv. Ég tel bara nauðsynlegt að menn átti sig á því að ég er ekki alveg viss um að við séum á réttu spori með flutningi þessa máls. Ég leyfi mér þess vegna að koma fram með efasemdir mínar að þessu leyti vegna þess að við erum öðrum þræði að ræða í fúlustu alvöru að reyna að draga úr mengun andrúmsloftsins og láta það kosta okkur eitthvað, t.d. með því að leggja ekki út í þá atvinnustarfsemi sem ýmsir teldu æskilega vegna þess að hún mengar svo mikið. Við verðum að fara að taka alvarlega á þessum málum og líta á hlutina í því samhengi sem þeir eru.