Vörugjald af ökutækjum

Miðvikudaginn 29. maí 1996, kl. 16:03:37 (6759)

1996-05-29 16:03:37# 120. lþ. 151.10 fundur 533. mál: #A vörugjald af ökutækjum# (gjaldflokkar fólksbifreiða) frv. 48/1996, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 151. fundur

[16:03]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ég verði að vísa þessu máli þannig til föðurhúsanna að þetta frv. er flutt í samráði við hæstv. fjmrh. Ég tók eftir því að hér var á ferðinni stjórnarþingmaður sem spurði þannig að ég gef mér að það verði að einhverju leyti viðfangsefni meiri hlutans við fjárlagagerð á komandi vetri að meta áhrifin af þessum tekjuáhrifum á ríkissjóð. Það liggja í raun ekki fyrir aðrar upplýsingar en þær að reiknað er með að tekjuáhrifin eða tekjutapið verði mjög óverulegt. Það er að vísu ljóst að miðað við núverandi bílaflutning er hægt að reikna það út ef ekkert annað breyttist hvert tekjufallið yrði, kannski á bilinu 100--200 millj., en það er nokkuð ljóst að áhrifin af breytingunum yrðu síðan aftur jákvæð á tekjur ríkissjóðs í því formi að eitthvað stærri og dýrari bifreiðar verða keyptar í staðinn enda er það tilgangurinn með breytingunum að umferðaröryggi verði aukið í því formi að auðvelda fólki að kaupa öruggari bifreiðar sem eru heldur dýrari og þar af leiðandi leggst vörugjaldsálagningin á aðeins stærri stofn. Þegar upp er staðið er þar af leiðandi gert ráð fyrir því að áhrifin verði óveruleg eins og þarna segir og nákvæmar er í sjálfu sér ekki hægt að áætla það.

Varðandi meðferð þessara mála að öðru leyti leyfi ég mér með vísan til þess sem ég áður sagði að málið er flutt í samráði við hæstv. fjmrh. að mælast til þess að hæstv. fjmrh. svari spurningum af þessu tagi frá stjórnarsinnum.