Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Miðvikudaginn 29. maí 1996, kl. 16:34:57 (6774)

1996-05-29 16:34:57# 120. lþ. 151.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, SvG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 151. fundur

[16:34]

Svavar Gestsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Þegar breytingar voru gerðar á stjórnarskránni vorið 1991 og umræðum um lagafrumvörp fækkað úr sex í þrjár var sett inn öryggisákvæði í 40. gr. þingskapa vegna þess að nú myndaðist sá möguleiki í fyrsta sinn að frv. væri breytt við lokaafgreiðslu án þess að þingmenn ættu þess fyllilega kost að sjá áður en þeir taka endanlega afstöðu til máls hvernig frv. lítur út þegar breytingar á því sem samþykktar hafa verið við 3. umr. hafa verið felldar inn í frv. Þetta gerðist ekki við afgreiðslu deildanna á lagafrumvörpum fyrir 1991 vegna þess að væri frv. breytt við 2. eða 3. umr. í seinni deild fór það aftur til fyrri deildar og væri því breytt þar var það sent á ný til seinni deildar. Málið var því aldrei afgreitt frá Alþingi þá fyrr en lokatexti þess lá endanlega fyrir.

Frv. um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins tók miklum breytingum við 2. umr. og við 3. umr. hafa verið samþykktar á því 16 breytingartillögur, sumar í mörgum liðum. Ég tel því, herra forseti, að nú sé rétt að láta í fyrsta sinn reyna á 2. mgr. 40. gr. þingskapa, prenta frumvarpstextann upp eins og hann er nú orðinn eftir samþykkt 16 breytingartillagna, leggja hann fyrir að nýju og gefa Alþingi kost á því að ræða þetta mál í þeirri mynd sem stjórnarmeirihlutinn ætlar að hafa á frv.

Herra forseti. Ég geri tillögu um að umræðunni verði nú frestað, málinu vísað til nefndar og þegar nýju þingskjali hefur verið útbýtt verði henni haldið áfram samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 40. gr. þingskapa.