Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Miðvikudaginn 29. maí 1996, kl. 16:39:22 (6777)

1996-05-29 16:39:22# 120. lþ. 151.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 151. fundur

[16:39]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég tel að það hafi rækilega sannast í umfjöllun um þetta mál að frv. sem er nú til lokaafgreiðslu var og er reyndar enn hin versta hrákasmíð. Ég harma að jafnvel svo hófsöm tillaga eins og sú sem var síðast fram borin, að umræðunni sé frestað þannig að mönnum gefist kostur á að líta á frv. í heild sinni svo breytt áður en afgreiðslu þess lýkur, skuli vera felld af meiri hlutanum.

Herra forseti. Það er ekki í einu heldur öllu sem valdinu er beitt af meiri hlutanum til hins ýtrasta án nokkurs tillits til annarra sjónarmiða en þeirra sem stjórna framgöngu meiri hlutans. Afstaða verkalýðshreyfingarinnar í landinu er höfð að engu, mótmæli og efnislegar ábendingar stjórnarandstöðunnar sömuleiðis. Í þriðja lagi velur meiri hlutinn svo að lokum að svipta minni hlutann eðlilegum rétti hvað þingsköp Alþingis varðar.

Ég er sannfæður um að hér er á ferðinni óhappaverk að standa að lögfestingu grundvallarleikreglna aðilda vinnumarkaðarins um samskipti sín með þeim hætti sem hæstv. ríkisstjórn er hér að gera. Það væri í sjálfu sér ekki harmsefni okkur sem minni hlutann skipum ef afleiðingarnar af því óhappi yrðu einungis hausverkur hæstv. ríkisstjórnar en svo er því miður ekki. Það er stórkostlegt alvörumál fyrir aðila í þjóðfélaginu öllu að svona skuli vera staðið að málum. Það að efna til ófriðar á vinnumarkaði og stofna stöðugleika í efnahags- og atvinnumálum í hættu er mikið óhappaverk og ég lýsi fullri ábyrgð á hendur hæstv. ríkisstjórn fyrir það að standa svo að málum. Ég er algerlega andvígur frv. og segi því nei við lokaafgreiðslu þess, herra forseti.