Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Miðvikudaginn 29. maí 1996, kl. 16:45:34 (6781)

1996-05-29 16:45:34# 120. lþ. 151.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, fjmrh. (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 151. fundur

[16:45]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Það hlýtur að vera eðlilegt að breyta rúmlega 40 ára gömlum lögum. Með frv. er verið að útvíkka gildissvið laganna en það er réttarbót fyrir stóran hóp starfsmanna ríkisins. Í öðru lagi er verið að hverfa nánast alfarið frá æviráðningunni en dregið hefur úr slíkum samningum á undanförnum árum. Í þriðja lagi er verið að koma í veg fyrir að núverandi starfsmenn ríkisins fái biðlaun greidd ofan á önnur laun ef starf þeirra er lagt niður og hverfa frá biðlaunarétti nýrra starfsmanna enda er óeðlilegt að fólk með samningsrétt, verkfallsrétt og uppsagnarrétt njóti biðlauna. Í fjórða lagi er í frv. gerðar meiri kröfur til stjórnenda en áður og þeim færð aukin völd. Þetta er gert til að gera ríkisreksturinn árangursríkari og skilvirkari.

Frv. hefur tekið breytingum m.a. vegna ábendinga frá samtökum launþega í þjónustu ríkisins. Það gat ekki komið neinum á óvart því að upp á breytingar var boðið þegar málið var lagt fram á hinu háa Alþingi og málinu hefur tvisvar verið vísað til nefndar og vinnubrögð verið vönduð. Ég fagna því að frv. skuli nú verða að lögum og vona að það verði til góðs fyrir alla. Ég segi að sjálfsögðu já.