Tekjustofnar sveitarfélaga

Miðvikudaginn 29. maí 1996, kl. 17:28:47 (6797)

1996-05-29 17:28:47# 120. lþ. 152.2 fundur 464. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (flutningur grunnskólans) frv. 79/1996, SJS
[prenta uppsett í dálka] 152. fundur

[17:28]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hér er á ferðinni mál sem varðar tekjustofna sveitarfélaga og tekjuleg samskipti ríkis og sveitarfélaga í tengslum við yfirfærslu grunnskólans. Svo háttar til að gert hafði verið samkomulag milli þessara aðila um kostnaðar\-áhrifin af þessum verkefnatilflutningi og samkvæmt miklum og nákvæmum formúlum reiknað upp á allnokkra aukastafi hversu mikla fjármuni þyrfti að færa yfir til sveitarfélaganna til þess að þau stæðu jafnrétt eftir hafandi tekið við þessum verkefnum. Um þetta var þokkaleg sátt og ekki var um annað vitað þegar málið var kynnt og rætt í fyrsta sinn á þingi.

Nú háttar hins vegar svo til að Samband ísl. sveitarfélaga hefur sent til þingsins mjög alvarlegar orðsendingar vegna þess að í öðru þingmáli sem hér liggur fyrir til afgreiðslu, stjfrv. um svokallaðan fjármagnstekjuskatt, eru gerðar breytingar sem hafa veruleg tekjuáhrif fyrir sveitarfélögin og mun að óbreyttu og samkvæmt brtt. meiri hlutans, sem nú liggja fyrir, valda því að tekjur sveitarfélaganna og/eða útgjöld saman vegið skerðast sem nemur hundruðum millj. kr. Þessu hafa sveitarfélögin harðlega mótmælt og líta svo á, samanber samþykkt sem þingmönnum hefur verið send, að í raun sé sagt sundur samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga um þessi tekjulegu samskipti ef svo heldur fram sem horfir.

Í erindi sínu bendir Samband sveitarfélaga á þann möguleika að áætluðum útgjaldaauka sveitarfélaganna vegna lögfestinga frv. og fjármagnstekjuskatt verði mætt með því að breyta skiptahlutföllum í því frv. sem er til umræðu og minnir mig að lítils háttar hækkun á hlutdeild sveitarfélaganna af útsvarsstofni í þeim tekjum eða upp á 0,04% ef ég man rétt mundi samsvara þeim útgjöldum sem hitt frv. hefur í för með sér fyrir sveitarfélögin.

Herra forseti. Ég tel ekki eðlilegt að umræðunni ljúki nema staða þessa máls skýrist að einhverju leyti. Þar sem nú liggur fyrir að búið er að afgreiða úr efh.- og viðskn. án þess að tekið sé tillit til þessara breytinga eða áhrifa á tekjur sveitarfélaganna, frv. til laga um fjármagnstekjuskatt, óska ég eftir því að umræðunni verði frestað þangað til skýrist með afdrif þess máls og annað tveggja gerist að álagningu fjármagnstekjuskattsins verði þannig hagað að sveitarfélögin sem slík verði ekki fyrir tekjutapi eða þá að tekjusamskipti ríkis og sveitarfélaga eins og þau birtast í frv. verði tekin til endurskoðunar í þessu nýja ljósi og lagfærð þannig að útkoman verði eftir sem áður sú sem að var stefnt, að hvorugt leiði til breytinga á tekjulegri stöðu sveitarfélaganna, yfirfærsla grunnskólans til þeirra annars vegar eða lögfesting fjármagnstekjuskattsins hins vegar.

Það er ósk mín, herra forseti, að umræðunni verði frestað eða að henni ljúki a.m.k. ekki fyrr en framhaldið skýrist.