Tekjustofnar sveitarfélaga

Miðvikudaginn 29. maí 1996, kl. 17:37:11 (6800)

1996-05-29 17:37:11# 120. lþ. 152.2 fundur 464. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (flutningur grunnskólans) frv. 79/1996, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 152. fundur

[17:37]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er aðeins örstutt. Ég vek athygli hv. þm. á því að hér erum við að ræða um frv. sem er lagt fram vegna samnings sem gerður hefur verið á milli ríkis og sveitarfélaga um yfirfærslu á grunnskólanum. Þar koma fleiri aðilar að málum þannig að ég tel að við ættum ekki að tefja þetta mál lengi.

Ég vil láta það koma fram að ríki og sveitarfélögin hafa með sér ýmis samskipti, að sumu leyti lögboðin, að öðru leyti vegna samnings á milli þeirra. Það er ljóst að það mál sem varðar breytingar á fjármagnstekjuskatti verður áfram í viðræðum á milli þessara tveggja aðila og fulltrúar ríkisstjórnarinnar hafa lýst því yfir að sveitarfélögin verði skaðlaus þegar litið er á þau sem heild í því máli.

Það er ekki tækifæri til þess nú að koma með endanlega lausn. Hins vegar sé ég ekki ástæðu til þess, virðulegi forseti, að það mætti verða til þess að flýta fyrir þingstörfum hérna að menn setjist niður í eitthvert andartak til þess að fá staðfestingu á því hver staða þessa máls er því að ég veit ekki betur en að embættismenn ráðuneytanna og fulltrúar sveitarfélaganna hafi átt viðræður um þessi mál þótt ekki sé efni til þess að leysa það með þeim tiltekna hætti sem verið er að lýsa í bréfi dags. 25. maí enda hafa fulltrúar ríkisvaldsins aldrei fallist á þá lausn sem þar um getur en standa þó fyrri orð ráðherranna að öllu leyti.