Stéttarfélög og vinnudeilur

Fimmtudaginn 30. maí 1996, kl. 10:02:59 (6803)

1996-05-30 10:02:59# 120. lþ. 154.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, Frsm. minni hluta KÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 154. fundur

[10:02]

Frsm. minni hluta félmn. (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Hér er að hefjast 3. umr. um margnefnt frv. um stéttarfélög og vinnudeilur. Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að ræða það miklu meira enda gerðust ekki þau tíðindi varðandi þetta mál eins og í málinu um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna að það þyrfti að kalla það aftur til nefndar og gera á því 30--40 breytingar. Það var löngu orðið ljóst að meiri hlutinn var ekki reiðubúinn til þess að gera frekari breytingar á málinu eða kalla það til baka hvað sem kann að gerast í síðustu umræðu. Það má alltaf reyna að koma vitinu fyrir meiri hlutann til síðustu stundar en við sjáum hvað setur varðandi það atriði.

Frá því að 2. umr. lauk er einnig lokið þingi Alþýðusambands Íslands í tilefni af 80 ára afmæli sambandsins. Eins og við var að búast ályktaði það þing um málið og þingfulltrúar létu sjá sig margsinnis á pöllum til þess að ítreka andstöðu sína við frv. Því stendur eftir sú spurning þegar við erum að hefja 3. umr.: Ætlar ríkisstjórnin ekkert tillit að taka til þessara mótmæla? Ætlar hún virkilega að hleypa öllu í bál og brand í haust? Það er alveg ljóst að það verður látið reyna á þessi lög með ýmsum hætti. Það má telja algerlega ljóst, t.d. ákvæði um viðræðuáætlanir og ýmislegt fleira. Við hljótum að spyrja okkur eftir að það er orðið nokkuð ljóst hver niðurstaðan er í málinu: Hvert stefnir ríkisstjórnin með þessum vinnubrögðum og hvað er hún eiginlega að gera? Er verið að gera einhvers konar valdamælingu í samfélaginu, hver er sterkastur, hver getur beitt yfirgangi, hvern er hægt að brjóta niður eða valta yfir í þessum málum eða hvað er eiginlega á seyði? Það mun reyna mjög á stéttarfélögin í haust þegar þau fara að sýna styrk sinn í viðræðum, samningum og hugsanlega í ýmiss konar aðgerðum. Ég fæ því ekki betur séð en með samþykkt þessa frv. sé verið að stefna öllu í átök. Það er afar sérkennilegt þegar ríkisstjórn gengur fram með þessum hætti og ber málin þannig fram að þau vekja svona mikla andúð og mikil viðbrögð annars aðilans er alveg ljóst að það er verið að taka málstað annarrar hliðarinnar á kostnað hinnar.

Við erum svo sem búin að fara í gegnum þetta allt saman en eftir stendur þetta: Hvert er ríkisstjórnin að stefna með þessu og hver er stefna hennar hvað varðar það sem við getum kallað vinnumarkaðsmál eða vinnumarkaðshagfræði? Þetta er afar margslungið mál og við í minni hlutanum höfum oft tekið upp þessa umræðu um stefnur sem eru uppi í vinnumarkaðshagfræði, annars vegar norræna og evrópska módelið og hins vegar þessi nýsjálenska leið eða leið einstaklingssamninganna. Ég las út úr upphaflegu frv. og álitsgerðinni sem fylgdi í upphafi málsins frá nefndinni sem var að störfum að norræna módelið væri sú leið sem stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins vildu fara með stórum heildarsamningum. En eins og niðurstaðan er orðin í málinu fæ ég ekki betur séð en þetta sé allt saman komið í einn hrærigraut og spurningin er enn þá þessi og ég vildi gjarnan fá hæstv. félmrh. til að ræða einmitt þessa hlið á málunum, þ.e. þessa vinnmarkaðshagfræði og vinnumarkaðsstefnu. Er hann þeirrar skoðunar að það eigi að reyna að beina samningum inn í einn farveg og telur hann að það komi heim og saman við þá samfélagsþróun sem hér er að verða og einnig þá þróun sem er að verða í tengslum við sífellt opnari vinnumarkað? Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að ríkja samningsfrelsi. Hinir ýmsu aðilar eigi að hafa rétt til þess að semja um kaup og kjör, þetta eru grundvallarréttindi. Hitt er svo annað mál um hvað menn koma sér saman hugsanlega í stórum hreyfingum eða stórum félögum en samningsrétturinn er grundvallarmannréttindi. Hinn endinn á málinu er að menn séu komnir yfir í það að vera nánast með einstaklingssamninga eins og okkur hefur verið tjáð að sé að gerast t.d. í Svíþjóð, meira að segja meðal opinberra starfsmanna. Þar hefur verið farið meira og meira í að gera einstaklingsbundna samninga. Þetta býður upp á mikla mismunun, mikið launamisrétti, launalengd og fleira slíkt sem er ekki æskilegt. Greinilegt er að miklar breytingar eru að eiga sér stað og við verðum að gera okkur grein fyrir því hvert stefnir. Í máli ýmissa þeirra sem sendu inn álit til félmn. og tjáðu sig um þessi mál var þetta atriði um styrk lítilla félaga. Ég held að hæstv. félmrh. hafi margnefnt það sjálfur sem þeir kalla þegar þessi litlu sterku félög eru að skríða upp eftir bakinu á öðrum og fá betri samninga. Þar er um að ræða félög sem hafa mjög sterka stöðu á vinnumarkaðnum.

Þeir hafa líka samningsfrelsi. Þeim ber að hafa samningsfrelsi. En frv. tekur ekki á nokkurn hátt á þeim vanda ef ber að skilgreina þetta sem vanda. Það nær ekki á nokkurn hátt utan um þetta sem manni heyrðist vera meginvandamál og megintilgangur þessara breytinga. Ég vísa þar t.d. til ummæla fulltrúa Vinnumálasambandsins sem tjáðu sig alveg sérstaklega um þetta og hvað það væri blóðugt að horfa upp á það þegar þessi minni en sterku félög koma eftir á og knýja fram betri samninga í krafti samningsstöðu sinnar en á þessu er alls ekki tekið í þessu frv. ef það er yfir höfuð hægt.

Í ljósi þess sem ég hef verið að kynna mér um þessi mál og þær miklu breytingar, sem eru að verða á vinnumarkaði, hef ég efasemdir um að sú stefna að reyna að stýra öllu inn í einn farveg eins og gekk svo ágætlega í Svíþjóð á meðan allt lék í lyndi sé framkvæmanleg þegar menn eru komnir í þá stöðu að vera að keppa um vinnuaflið, bæði innbyrðis á markaði og jafnframt á milli landa. Ég er fyrst og fremst að tala um þetta sérhæfða vinnuafl því að eins og ég rakti í síðustu umræðu hefur sú breyting átt sér stað að laun hafa lækkað hjá hinum almennu launþegum en þau hafa hækkað gífurlega hjá fólki sem hefur sérmenntun.

Síðan er líka þetta mikla vandamál, atvinnuleysið. Af því að þetta verður væntanlega síðasta tækifærið til þess að ræða vinnumarkaðsmál áður en þingi lýkur get ég ekki látið hjá líða að koma aðeins að atvinnuleysinu og vekja sérstaka athygli á því að við í félmn. höfum einmitt verið að fjalla þar um frv. um reynslusveitarfélög sem við afgreiddum reyndar út úr nefnd í gærkvöldi. Í því sambandi vorum við að kynna okkur ýmislegt sem tengist atvinnuleysinu og þá kom upp sú nöturlega staðreynd að atvinnuleysið í Reykjavík er meira núna en það var á sama tíma í fyrra, það er meira meðan það er að draga úr atvinnuleysi úti á landi. Sá aukni afli og sá uppgangur, sem víða má sjá, skilar sér í minna atvinnuleysi úti á landsbyggðinni en það gerist ekki í Reykjavík. Annaðhvort gerist það síðar eða það er einfaldlega komið upp það ástand að það gerist ekki.

Þá kem ég að því sem ég var að rekja úr bandarísku greininni, sem ég gerði að umtalsefni við 2. umr., að meðan fyrirtækin hafa verið að taka til hjá sér eins og þau hafa verið að gera í mjög ríkum mæli hér á landi hafa menn fyrst og fremst verið að fjárfesta í tækni. Það hefur verið fjárfest í hagræðingunni en brugðist við með þeim hætti að fækka fólki og við erum einfaldlega með þessa staðreynd að í Reykjavík eru þúsundir atvinnuleysingja. Þar af er stór hópur sem er á aldrinum 17 ára upp í 25 ára og þetta er gífurlegt alvarlegt mál. Þó að efnahagslífið sé að taka við sér megum við ekki horfa fram hjá því að því miður bendir allt til þess að atvinnuleysi á bilinu 4--6% sé orðið varanlegt. Það bendir því miður allt til þess.

[10:15]

Ég hvet hæstv. félmrh. til þess að nýta sumarið eða næstu vikur til þess að setja í gang rannsókn á orsökum atvinnuleysis. Menn hafa einbeitt sér mikið að afleiðingum og það er mjög mikilvægt að átta sig á því hverjar eru afleiðingarnar en til þess að ná einhverjum tökum á vandanum verða menn að gera sér grein fyrir orsökum. Ég minnist þess að í frv. til fjárlaga fyrir um tveimur árum voru töluverðar vangaveltur höfunda þess frv. um atvinnuleysið og orsakir þess og ég hef ekki þann texta fyrir framan mig. Þar voru ýmsar athyglisverðar kenningar en ég held að þetta sé mál sem við þurfum að skoða mjög rækilega. Enda þótt atvinnuleysið sé ekki nema 4--6% er það samt nógu alvarlegt. Þetta er mjög alvarlegt mál, ekki síst í litlu samfélagi og að menn fari að horfa upp á það hér að jafnvel í sömu fjölskyldunum séu 2--3 kynslóðir atvinnuleysingja eins og menn hafa upplifað bæði í Bretlandi og Danmörku. Þetta er vandamál sem við þekkjum frá öðrum löndum en þurfum að greina á okkar hátt og reyna að átta okkur á því hverjar eru orsakirnar og hvað er hægt að gera við vandanum.

Menn hafa einblínt mjög mikið á menntun sem er mikilvæg. Það er mjög mikilvægt ekki síst að byggja upp einstaklingana og þá get ég aftur vitnað til þess að við fengum dæmi um það frá ýmsum aðilum hvað hefur verið gert í menntamálum og að reyna að byggja einstaklingana þannig upp að þeir þori út á vinnumarkaðinn, að þeir þori að takast á við lífið því að langvarandi atvinnuleysi er svo niðurbrjótandi fyrir sjálfsmyndina. Annars vegar þurfa að verða til störf en eins og hv. þm. Pétur Blöndal benti á í gærkvöldi, og hann hefur töluvert velt þessum málum fyrir sér, skiptir líka miklu máli að koma einstaklingunum áleiðis til þess að fara að skapa sjálfir, til þess að taka á málum sínum eins og við höfum raunar mörg dæmi um, ekki síst utan af landi. Þá hugsa ég einkum til kvenna og þess framtaks sem þar hefur orðið vart varðandi ýmiss konar atvinnusköpun, handverk o.fl. sem hefur skapað töluverða vinnu, en við þurfum að horfa á þennan alvarlega vanda í heild.

Ég nefni það aftur að það er mjög sláandi að vandinn skuli vera langmestur í Reykjavík og að ekki skuli draga úr atvinnuleysinu hér. Reyndar spáir Þjóðhagsstofnun því, og þeir eru mjög glöggir þar að mínum dómi, að þrátt fyrir efnahagsbatann muni ekki draga úr atvinnuleysinu meira en orðið er. Það verði á þessu bili. Þeir hafa ekkert breytt sínum spám hvað það varðar. Eins og ég sé þessi vinnumarkaðsmál finnst mér þetta vera svo miklu brýnna viðfangsefni og svo miklu brýnna að ná samstöðu um það að taka á þessum málum en vera að keyra á verkalýðshreyfinguna og breyta því starfsumhverfi og þeim lögum og reglum sem stéttarfélögin eiga að vinna eftir. Í stað þess að menn einbeiti sér að hinum raunverulega vanda vinnumarkaðarins er efnt til styrjaldar við stéttarfélögin í landinu. Í stað þess að verkalýðshreyfingin geti einbeitt kröftum sínum að úrbótum hvað varðar atvinnuleysið og það að taka á sínum innri málum eru þeir komnir í styrjöld við ríkisvaldið og munu fram eftir hausti og vetri vera í átökum við ríkisvaldið.

Hvers konar áherslur eru þetta? Hvert stefnir svona pólitík? Ég spyr hæstv. félmrh.: Hefði ekki verið brýnna að reyna að sameina menn um það að taka á vandanum í stað þess að vera með þessar einskis nýtu breytingar sem menn eru alls ekki sammála um? Ég get endurtekið það hér að ég fæ ekki séð að þær breytingar sem verið er að gera á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur muni leiða til neinna úrbóta í þessum málum hafi þeirra yfir höfuð verið þörf. Menn voru að þróa sig áfram í vinnubrögðum. Ef einhvers staðar var þörf og get ég endurtekið það enn einu sinni þá er það hjá ríkisvaldinu og samninganefnd ríkisins og ef einhvers staðar var þörf á viðræðuáætlunum þá var það þar.

Þetta voru þær spurningar sem ég vildi koma á framfæri við síðustu umræðu. Ég ítreka andstöðu mína við þetta mál og harma enn og aftur að ríkisstjórnin skyldi fara þá leið að efna til átaka við stéttarfélögin í stað þess að reyna að einbeita sér að þeim málum sem þarf raunverulega að taka á. Fyrir utan atvinnuleysismálin er það að reyna að jafna kjörin og reyna að bæta hag þeirra lægst launuðu með ýmsu móti. Ýmsar leiðir eru til þess eins og við þekkjum úr hagkerfi okkar en jafnframt hefði verið ástæða til þess að ræða og fara rækilega í gegnum þá stefnu sem verkalýðshreyfingin og þar á meðal þing ASÍ hefur rætt í þessum málum sem er einmitt sú leið að félög, landssambönd, geri samninga beint við vinnuveitendur sína. Það er greinilegt að gagnrýnin á þá miklu miðstýrngu sem ríkir hjá Vinnuveitendasambandinu hefur aukist mjög og menn telja að sú stefna sem VSÍ rekur liggi eins og mara á vinnumarkaðnum. Maður hlýtur að spyrja sig í hverra þágu sú stefna sé. Hún hefur leitt til þess að við búum við margfalt launakerfi, launakerfi sem byggist á alls konar yfirborgunum og duldum greiðslum vegna þess að mjög margir vinnuveitendur vilja borga sínu fólki vel. Þeir vilja borga vel. Mig minnir að það hafi verið á Vestfjörðum sem voru gerðir samningar fyrir nokkrum árum sem Vinnuveitendasambandið varð alveg vitlaust yfir og heimtaði að þeir tækju samningana til baka. Eins og ég hef margoft komið að ríkir einhver afar sérkennilegur hugsunarháttur í Garðastrætinu. Ég veit ekki hvort það er einhver andi frá Ólafi Thors í húsinu sem leggst svona á þá. Þó var hann ekki frægur fyrir stífni eða neitt slíkt heldur var hann mikill maður mannúðar og reyndist mörgum vel, sá merki pólitíkus þó að hann væri mikið íhald eins og menn sögðu oft á árum áður. Það er a.m.k. enn stefna ríkjandi þarna hjá Vinnuveitendasambandinu sem mér finnst ekki vera á nokkurn hátt í takt við tímann og ég held að geti orðið hættuleg íslenskum vinnumarkaði, samkeppnishæfni fyrirtækjanna, bæði innbyrðis og á milli landa. Við verðum að átta okkur á því og taka tillit til þess að við erum orðinn hluti af stórum vinnumarkaði og við þurfum að laga okkur að því eins og menn hafa verið að taka stefnuna á að átta sig á kjörum á Norðurlöndum og reyna að marka stefnu í þá veru að við náum þeim lífskjörum sem þar ríkja þó að þau séu breytileg. Þar eru líka að eiga sér stað miklar breytingar en við erum í þessu umhverfi, við megum ekki sitja og hafast ekkert að meðan fjöldi fólks sér sér ekki annan kost vænni en flytja úr landi. Öll þessi mál, hæstv. félmrh., eru miklu brýnni en það að vera að efna til átaka og ófriðar og ég hvet hæstv. félmrh. enn og aftur til þess að marka stefnu í vinnumarkaðsmálum, í friði við stéttarfélögin og vinnuveitendur og menn einbeiti sér að því að horfa til framtíðar. Ég hvet hann eindregið til þess að leggja vinnu í að gera könnun á orsökum atvinnuleysis hér á landi og jafnframt að menn leiti leiða til þess að draga úr þessu vaxandi launamisrétti sem hér á sér stað eins og reyndar annars staðar. Við erum ekkert sérstök hvað það varðar.

En allra síðast, hæstv. forseti, hvet ég hæstv. félmrh. til þess að draga þetta frv. til baka og kalla saman aðila málsins þannig að menn geti nýtt sumarið til þess að komast að samkomulagi um þær leikreglur sem hafa reyndar verið í mótun. Menn verða þar að taka tillit til mismunandi aðstæðna opinberra starfsmanna og þeirra sem eru á almennum vinnumarkaði en það hlýtur að vera samfélaginu og framtíð þjóðarinnar til góðs og það besta sem við getum gert er að reyna að vinna hlutina í sameiningu, samráði og friði.