Stéttarfélög og vinnudeilur

Fimmtudaginn 30. maí 1996, kl. 11:09:13 (6807)

1996-05-30 11:09:13# 120. lþ. 154.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 154. fundur

[11:09]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur fyrir frábæra ræðu. Hún var frábær sérstaklega hvað varðar starfið í þinginu. Og það er alveg hárrétt hjá henni að flest mál eru unnin mjög faglega og mjög málefnalega en það heyrist ekkert um það. Það er alveg ótrúlegt að sitja hérna stundum klukkutímum saman hér fyrir framan þennan ræðustól og hlusta á góðar umræður og svo fer maður heim til sín og horfir á fréttirnar. Þá er eitthvað allt annað sem blasir við manni í fréttum af störfum þingsins þann daginn. Það er eins og maður hafi bara ekki verið viðstaddur.

En það eru nokkur atriði sem ég vildi spyrja hv. þm. um. Menn hafa mismunandi skoðun á hlutunum en það má ekki segja og ég segi ekki við þingmanninn að það sem hann haldi fram sé rangt og bull og vitleysa heldur er það vegna þess að hann lítur hlutina öðrum augum. Maður verður að viðurkenna að við höfum öll okkar mismunandi lífssýn. Það er kannski það sem menn átta sig ekki á. Menn eiga að virða skoðanir hvers annars þótt þeir geti ekki fallist á þær.

Hv. þm. talaði um að smærri hópar klifruðu upp eftir bakinu á öðrum. Tengireglan stóðst því miður ekki samning okkar við ILO, hún stóðst ekki. Við gátum ekki haldið henni við. Og ég spyr hv. þm.: Sér hann einhverja leið til að jafna það að verkfallsrétturinn gefi þeim hæst launin sem valda mestum skaða? En varðandi það að þetta sé helmingastjórn sem geri lítið vil ég benda á að stjórnin er komin fram með framhaldsskólafrv., fjárreiðufrv., frv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, stéttarfélög og vinnudeilur, fjármagnstekjuskatt, nýtt álver og Póst og síma. Er þetta lítið? Ekki finnst mér það.