Stéttarfélög og vinnudeilur

Fimmtudaginn 30. maí 1996, kl. 11:11:18 (6808)

1996-05-30 11:11:18# 120. lþ. 154.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 154. fundur

[11:11]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kemur mér ekki á óvart að hv. þm. Pétur H. Blöndal taki undir orð mín varðandi þingið. Hann hefur frá þeirri stundu sem hann kom hingað inn látið bæði til sín taka og fylgst mjög vel með málum. En það er einmitt það sem fjölmargir þingmenn gera og ekki síst þingmenn stjórnarandstöðu. En það gera ekki bara þingmenn stjórnarandstöðu og ekki bara Pétur H. Blöndal frá stjórnarflokkum heldur þorri þingmanna. Því miður þó með þeim undantekningum að hér innan veggja þings er fólk sem kemur og fer og eru glæsilegir þingmenn á kostnað félaga sinna sem eru í vinnunni. Hér eru líka þingmenn sem eru í störfum annars staðar, skapa þá mynd að þingstörfin séu létt og löðurmannleg og gera okkur hinum það nærri óbærilegt að útskýra hvernig á því standi að árum saman hafi maður farið að heiman frá sér í vinnuna klukkan átta og varla komið heim í kvöldmat. Hvernig má það vera að þingmenn geti verið í hálfu og heilu starfi úti í bæ? Þannig er nú þingið. Ég hef ekki notað orðin rangt, bull og vitleysa. Þessi orð eru þá lögð mér í munn. Ég hef notað gagnrýni, beitta gagnrýni. Ég er í eðli mínu ósammála pólitík Sjálfstfl. Ég hef gert málamiðlanir sem stjórnarliði við Sjálfstfl. Við erum hér fyrir ýmsa flokka af því að við höfum ólík viðhorf. Samt komum við okkur oft saman, eins og ég hef áður sagt, um góðu málin. Tengireglan stóðst ekki, það er alveg rétt. Það uppgötvast ekki fyrr en í þingnefnd að ráðherrann sem vinnur með alþjóðsamþykktirnar, þar sem alþjóðasamþykktir ILO eru vistaðar, setti fram frv. sem stóðst ekki alþjóðasamþykktir Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar. Það er athyglisvert. Ég er ekki með neinar tillögur um það hvernig á að standa að því í lagasetningu að koma böndum á það að litlir hópar skríði ekki upp eftir stóru hópunum, ég vil ekki að litlu hóparnir geri það. Ég vil að við finnum leiðir til þess saman. Ekki með lögum.