Stéttarfélög og vinnudeilur

Fimmtudaginn 30. maí 1996, kl. 11:23:28 (6814)

1996-05-30 11:23:28# 120. lþ. 154.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 154. fundur

[11:23]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Nú mundi flokksbróðir minn góður, Össur Skarphéðinsson, segja: Jæja, eru nú karlar að mæra karla.

Virðulegi forseti. Mér finnst þetta andsvar hv. þm. Guðjóns Guðmundssonar ómaklegt. Það er ómaklegt litið til þeirrar ræðu sem ég hef flutt á þessum morgni vegna þess að í henni flutti ég fyrir því talsverð rök hve vinnusamt þingið er, hve vel þingmenn stjórnar og stjórnarandstöðu vinna saman, í hversu ríkum mæli lög eru afgreidd frá Alþingi í sátt allra þingmanna, hve fá málin eru sem eru þess pólitíska eðlis að okkur greinir á eins og okkur greinir á í þeim tveim málum sem nú eru að verða að lögum og hafa tekið um 100 klukkustundir af störfum þingsins.

Virðulegi forseti. Ég færði fyrir þessu mjög góð rök í ræðu minni og það er ómaklegt að halda því fram að í ræðu minni felist að stjórnarandstöðuþingmenn séu bara á móti og fúlir á móti. Þetta er mjög rangt. Við vinnum mjög efnislega, leggjum mikla vinnu af mörkum í nefndum og erum þaulsætin við að fjalla hér um mál. Hlutverk okkar er að veita aðhald, hlutverk okkar er að benda á galla og ég færði fyrir því sterk rök að lagfæringarnar á þessu frv. sem hér er að verða að lögum eru til komnar sökum vinnu stjórnarandstöðunnar í félmn. Ekki í upphrópunarstíl, eins og hv. þm. þekkir sjálfur úr nefndarstarfi, heldur vegna faglegrar og góðrar vinnu sem vissulega hefur afstýrt því að þessi lög verði jafnmikið slys og þau hefðu orðið ef við værum bara í upphrópunarstíl og hasar eins og hv. þm. gaf til kynna.