Stéttarfélög og vinnudeilur

Fimmtudaginn 30. maí 1996, kl. 12:04:02 (6817)

1996-05-30 12:04:02# 120. lþ. 154.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 154. fundur

[12:04]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það var allt rétt sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sagði hér áðan. Hafi hann skilið orð mín á þennan veg, hef ég ekki verið nægilega skýrmælt. Ég geri mér fullkomlega grein fyrir þessum lagaramma. Ég er líka sammála honum í því að mér finnst að þetta eigi ekkert að vera svona, en ég veit að þetta eru lög. Það er löglegt þegar verið er að setja fólk á atvinnuleysisskrá vegna hráefnisskorts.

En ég var líka að tala um misnotkun annarra fyrirtækja sem við höfum verið að heyra af í fréttum nú nýverið. Ég vil ekki fullyrða að svo sé, en einhvern veginn virðist slíkt tengjast Flugleiðum. Þegar ég hins vegar tala um með misnotkun í fiskvinnslunni, hv. þm. Einar Oddur, á ég við það þegar hugtakið hráefnisskortur hefur verið teygt svo langt að það hagkvæmnisatriði að landa afla einhvers staðar annars staðar, eins og gerðist í dómsmálum fyrir nokkrum árum, er talið falla undir hugtakið hráefnisskort. Þar hefur verið teygt of mikið á hugtakinu. Það gerist auðvitað þannig að atvinnurekendur bera við hráefnisskorti í einhverju ákveðnu tilviki og dómstólar staðfesta það síðan. Í fiskvinnslunni hefur þetta því verið innan ramma laganna, því er ég sammála, en þar hefur verið teygt of mikið á hugtakinu. Mér finnst það mjög slæmt vegna þess að þegar þetta var upprunalega sett inn í lögin í samstöðu, eins og hv. þm. bendir á, var auðvitað verið að reyna að tryggja verkafólki einhver úrræði vegna þess að fiskvinnslan gat ekki tryggt því nægilegt starfsöryggi. Ég er hins vegar ekki sammála því að það sé verið að tryggja rétt launafólks með því að heimila að það sé flutt milli atvinnuleysisskrár og launaskrár nánast gegn vilja sínum. Ég er hins vegar sammála því að það þarf að finna einhver úrræði fyrir fiskvinnsluna. Ég er bara ekki sammála þessari aðferð.