Stéttarfélög og vinnudeilur

Fimmtudaginn 30. maí 1996, kl. 12:06:28 (6818)

1996-05-30 12:06:28# 120. lþ. 154.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 154. fundur

[12:06]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vildi í upphafi bregðast við málflutningi hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur um störf félmn. Það mátti skilja á hennar málflutningi að þær breytingartillögur sem gerðar hafa verið og hún telur greinilega mjög til bóta, séu allar minni hluta félmn. að þakka. Þannig skildi ég hennar málflutning. En ég vil taka það fram, eins og kom fram m.a. í málflutningi hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur áðan, að vinnan í félmn. var var mjög góð og það var öll félmn. sem stóð að þeirri vinnu, bæði að leita eftir umsögnum, taka á móti gestum og hlusta á þeirra rök. Það var hins vegar meiri hluti félmn. sem vann þær breytingartillögur sem hafa verið lagðar fram og minni hluti félmn. vildi ekki koma að þeirri vinnu með þeim rökum sem minni hlutinn færði fram.

Ég tel rétt að þetta komi fram. Það var meiri hlutinn sem stóð að þeim breytingartillögum sem menn telja hér mjög til bóta fyrir frv.

Mér fannst heldur ekki koma nægilega skýrt fram þegar var verið að ræða um Atvinnuleysistryggingasjóð og kjör fiskvinnslufólks að fiskvinnslufólk á rétt á fastráðningarsamningum. Og að þeim samningum hafa væntnalega komið ríkisvaldið, verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur.