Stéttarfélög og vinnudeilur

Fimmtudaginn 30. maí 1996, kl. 12:08:38 (6819)

1996-05-30 12:08:38# 120. lþ. 154.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 154. fundur

[12:08]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að gera lítið úr því ágæta fólki sem er með mér í félmn. Það sem ég var fyrst og fremst að gagnrýna í ræðu minni er sú staðreynd hversu fáir úr stjórnarliðinu, óbreyttir þingmenn úr stjórnarliðinu, tóku þátt í umræðum í þinginu. Þótt tillögur hafi verið unnar af meiri hluta félagsmálanefndarmanna sem vissulega eru margar hverjar til bóta, ekki síst þær tillögur sem beinlínis eru gerðar til að gera frv. þannig úr garði að það standist ákvæði alþjóðasamninga, var að sjálfsögðu á þetta bent af stjórnarandstöðuliðinu í þingræðum. En það sem ég var fyrst og fremst að gagnrýna var hin pólitíska umræða í þinginu. Hún var því miður allt of mikið eintal.

Varðandi kauptryggingarsamningana er vissulega rétt að það hefur verið reynt að bæta úr skorti á starfsöryggi fiskvinnslufólks með kauptryggingarsamningum. En þá hefur það verið þannig að launafólk hefur haft rétt á að gera kauptryggingarsamning en sá réttur felur ekki endilega í sér þá tryggingu að hann sé gerður. Þar þurfa auðvitað tveir að koma til. Það hefur vissulega verið reynt í kjarasamningum að ráða einhverja bót á þessu fyrirkomulagi með kauptryggingarsamningsákvæðunum. Ég tel samt sem áður að enn þurfi mikið að gerast til þess að bæta aðstöðu þessa fólks, þrátt fyrir þessi ákvæði.