Stéttarfélög og vinnudeilur

Fimmtudaginn 30. maí 1996, kl. 12:11:40 (6821)

1996-05-30 12:11:40# 120. lþ. 154.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 154. fundur

[12:11]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að benda hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur á það að ég geri ekki ráð fyrir það hafi verið einhver takmarkaður, fyrir fram ákveðinn tími sem hafi gefist, þannig að ég geri ráð fyrir því að þagnir stjórnarliðsins hafi stafað af einhverju öðru en eintómri miskunnsemi við þingið. Kauptryggingarsamningana eru vissulega úrræði til bóta, ég ætla ekki að gera lítið úr því. En ég vil líka benda hv. þm. á að skömmu áður en síðustu kjarasamningar runnu út, ég held ég fari rétt með það, gaf Vinnumálasambandið yfirlýsingu í þeim dúr að það mundi ekki gera fleiri kauptryggingarsamninga við verkafólk. Það lýsir því í raun og veru yfir að menn fari ekki eftir þessum samningsákvæðum og það alveg kinnroðalaust.

Ég fylgdist ekki svo nákvæmlega með því hvernig frá þessu var gengið eftir síðustu kjarasamninga. En þetta er kannski dæmi um það að launafólk á í ýmsum útistöðum við atvinnurekendur og jafnvel samtök þeirra.