Stéttarfélög og vinnudeilur

Fimmtudaginn 30. maí 1996, kl. 12:25:20 (6827)

1996-05-30 12:25:20# 120. lþ. 154.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 154. fundur

[12:25]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 3. þm. Vestf. fyrir það að koma í stólinn og hvetja þar með til þess að hér haldi umræðu áfram um þessi mál vegna þess að hann hreyfði við ýmsum grundvallatriðum. Það er sem betur fer bersýnilega skoðun stjórnarmeirihlutans að hér gefist nægur tími til umræðu og ég fagna því.

En ég vil í tilefni orða hans spyrja: Úr því að verkalýðshreyfingin er svona ábyrg og hefur alltaf verið ábyrg, af hverju mátti þá ekki semja við hana um þessi mál? Fyrst verkalýðshreyfingin hefur alltaf sýnt að hér er um sameiginlega hagsmuni að ræða, eins og hv. þm. sagði, af hverju mátti þá ekki semja um þessi mál? Fyrst verkalýðshreyfingin hefur alltaf skilið að þetta er einn vefur, eins og þingmaðurinn sagði, af hverju mátti þetta ekki vera einn vefur? Af hverju þurfti að rífa þessa hluti af verkalýðshreyfingunni? Skilur hv. þm. ekki hvað hann er að gera? Hann er að rjúfa sátt sem hefur ríkt á Íslandi um áratuga skeið og hans ábyrgð er mikil.