Stéttarfélög og vinnudeilur

Fimmtudaginn 30. maí 1996, kl. 13:11:15 (6836)

1996-05-30 13:11:15# 120. lþ. 154.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 154. fundur

[13:11]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Fyrst er til að taka að hv. þm. Svavar Gestsson verður eins og aðrir að finna orðum sínum stað hér í þessum ræðustól. Hvorki við þessa umræðu né neina aðra hef ég haft í frammi skæting. Aldrei, ég neita því. Nú eru það ekki efnisatriði, herra forseti, sem um er að ræða í þessu frv. heldur er það málsmeðferðin. Nú er það málsmeðferðin. Ég gat þess í 1. umr. um þetta mál að ég vissi ekki hverjum það væri að kenna, hvort það væri ríkisvaldið, atvinnurekendur eða verkalýðshreyfingin, að ekki tókst að semja eða komast lengra í þessum samningum en raun bar vitni. Ég veit það ekki enn. Það liggur ekki fyrir. En það var mat ráðuneytisins að ekki yrði lengra komist og á það var fallist.

Það er nú þannig, herra forseti, að þær þjóðir sem hafa komist á það stig að geta borgað launþegum hæst kaup, þar sem kjörin eru best og afkoman best, eru þær þjóðir sem hafa tileinkað sér umfram aðra hagfræði hins aukna svigrúms. Þar hafa menn getað greitt fólki laun og þar er afkoma manna best. Að því erum við að stefna í þessu þjóðfélagi að hafna höftum, hafna fákeppni, taka upp frelsi í viðskiptum, taka upp frjálsa verðmyndun á öllum sviðum. Það er að skila okkur árangri í þessu samfélagi. Það er þess vegna sem við í dag erum að lifa það sem aldrei hefur gerst áður í langan tíma að kaupmáttur fólksins er að vaxa í þessu samfélagi umfram það sem samið var um og gert ráð var fyrir í kjarasamningum. Það er þessi þróun sem er að skila okkur árangri. Enda er það markmið allra heiðarlegra manna að vilja byggja upp þjóðfélag sem getur veitt þegnunum sem best kjör. Þetta er aðferðin. Þetta er hin kapítalíska aðferð, það er alveg rétt. En sem betur fer var sósíalískum leiðum á Íslandi hafnað. Við höfum hafnað boðum og bönnum og einangrun.