Stéttarfélög og vinnudeilur

Fimmtudaginn 30. maí 1996, kl. 13:15:57 (6839)

1996-05-30 13:15:57# 120. lþ. 154.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 154. fundur

[13:15]

Svavar Gestsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Þegar verkalýðshreyfingin á Íslandi hefur síðan 1990 aftur og aftur gert samninga við atvinnurekendur og ríkisvald um að halda þannig á málum að verðbólgan fari ekki aftur á stað, þegar verkalýðshreyfingin hefur haldið þannig á málum að menn hafa vísvitandi í raun og veru verið að semja um lægri kaupmátt en ella hefði verið, þá koma þeir með handjárnin hér. Hvað er það sem Alþýðusamband Íslands segir í þessari stöðu? Það segir þetta, með leyfi forseta:

,,Verkalýðshreyfingin ítrekar andstöðu sína við þau frv. ríkisstjórnarinnar um árásir og réttindi launafólks sem nú eru til umfjöllun á Alþingi. Sameinuð íslensk verkalýðshreyfing hefur varað stjórnvöld við þeim yfirgangi sem viðhafður er til að breyta samskiptareglum á vinnumarkaði. Verkalýðshreyfingin hefur einnig öll varað eindregið við þeim breytingum á réttarstöðu verkafólks og samtaka þeirra sem samþykkt frumvarpanna hefði í för með sér. Ef ríkisstjórnarflokkarnir beita meiri hluta sínum á Alþingi með þeim hætti sem nú er fyrirhugað og hunsa sjónarmið verkalýðshreyfingarinnar en styðja sjónarmið atvinnurekenda er ljóst að þeir valda miklu uppnámi í öllum samskiptum aðila á vinnumarkaði. Verkalýðshreyfingin telur að með samþykkt frumvarpanna muni ríkisstjórnin koma í veg fyrir að efnahagsbatinn nýtist til að efla atvinnulífið, bæta kjörin og tryggja stöðugleika. 38. þing Alþýðusambands Íslands skorar því á alþingismenn að stöðva framgang frumvarpa ríkisstjórnarinnar svo ráðrúm gefist til þess að fullreyna hvort samkomulag náist milli aðila vinnumarkaðarins um samskiptareglur sín á milli.``

Á þetta ákall allrar verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi á Alþýðusambandsþingi vildu þeir ekki hlusta sem hér ráða ríkjum.