Stéttarfélög og vinnudeilur

Fimmtudaginn 30. maí 1996, kl. 13:31:41 (6843)

1996-05-30 13:31:41# 120. lþ. 154.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 154. fundur

[13:31]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég tel engar þversagnir í þessu, eins og hæstv. félmrh. heldur fram. Ég var að benda á það áðan í ræðu minni að þráteflið, einmitt þráteflið sem um er að ræða varðandi starfsöryggi, er búið að standa yfir frá því um miðjan níunda áratuginn, ef ég man rétt. Það þrátefli hefur staðið yfir í rúm tíu ár. Það má þá vera einhver mikill snúningur af atvinnurekenda hálfu ef þeir eru skyndilega tilbúnir til að samþykkja þessar samþykktir. Ég var einungis að benda á það að úr því að hæstv. félmrh. er tilbúinn til að ganga svo ,,vasklega`` fram, eins og hann hefur gert gagnvart verkalýðshreyfingunni gegn hennar vilja, hlyti að vera kominn tími til að höggva á hnútinn í þrátefli sem hefur staðið yfir í rúm tíu ár. Og ég benti á það hér til samanburðar að það þrátefli sem hann kallar um samskiptareglur á vinnumarkaði er einungis búið að standa yfir í rúmt ár, ef ég man rétt. Mig minnir að nefndin hafi verið skipuð í október 1994 eða eitthvað slíkt og upp úr samstarfi slitnar í byrjun árs 1996. Til samanburðar hefur margoft verið bent á það hér í umræðunum að þegar svo stórir lagabálkar á sviði vinnumarkaðar hafa verið teknir til endurskoðunar hefur slíkt samráð staðið yfir mun lengur en raun varð á í þessu tilviki. Þannig að ég neita því að hér sé um einhverja þversagnir að ræða.