Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 30. maí 1996, kl. 13:35:49 (6846)

1996-05-30 13:35:49# 120. lþ. 154.3 fundur 464. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (flutningur grunnskólans) frv. 79/1996, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 154. fundur

[13:35]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Þegar þetta mál kom til umræðu síðdegis í gær komu fram efasemdir eða vangaveltur um það að ekki væri nægilega vel gengið frá ákveðnum þætti málsins sem snúa að sveitarfélögunum eða fjármunalegum samskiptum sveitarfélaga og ríkisvalds, fyrst og fremst hvað varðaði áhrif sem yrðu af væntanlegri lagasetningu um fjármagnstekjuskatt og tilheyrir ekki beint þessu máli. En af þessu tilefni efndi ég til fundar í morgun og gengið hefur verið frá sameiginlegri yfirlýsingu fjmrh. og félmrh. fyrir hönd ríkissjóðs og Sambands íslenskra sveitarfélaga sem eru sammála um eftirfarandi:

1. Við samþykkt fyrirliggjandi frv. um skattlagningu fjármagnstekna samþykkir ríkissjóður að bæta sveitarfélögunum að fullu þau fjárhagslegu áhrif sem þau verða fyrir vegna álagningar skattsins.

2. Þetta verður gert með því að létta verkefnum af sveitarfélögum og/eða hækka útsvarsprósentu samhliða lækkun tekjuskatts.

3. Gengið verði frá endanlegu samkomulagi milli aðila og nauðsynlegum lagabreytingum fyrir árslok 1996.

Undir þetta rita Friðrik Sophusson fjmrh., Páll Pétursson félmrh., Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, og Þórður Skúlason, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Raunar hefði átt að vera búið að ganga frá þessu máli en vegna utanfarar ráðuneytisstjóra í fjmrn. sem falið var að vinna að þessu ásamt fyrirsvarsmönnum Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur það dregist. En nú liggur þessi sameiginlega yfirlýsing fyrir og vænti ég þess að það greiði fyrir framgangi þessa máls og menn eigi ekki að þurfa að velkjast í vafa lengur um þetta atriði.