Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 30. maí 1996, kl. 13:48:31 (6848)

1996-05-30 13:48:31# 120. lþ. 155.1 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, Frsm. meiri hluta VE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 155. fundur

[13:48]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nál. meiri hluta efh.- og viðskn. vegna breytinga á lögum um tekjuskatt og eignarskatt og vegna frv. til laga um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur og brtt. á þskj. 1115 og 1116 vegna frv. um sömu mál.

Nefndin hefur fjallað um þessi tvö frv. að undanförnu og fengið umsagnir frá allmörgum aðilum og fengið á sinn fund nokkra þeirra að auki og gerði grein fyrir því á þskj. 1114.

Ég mun nú gera grein fyrir þeim brtt. sem meiri hluti nefndarinnar leggur til að gerðar verði á frv.

Í 1. lið brtt. vegna frv. til laga um tekjuskatt og eignarskatt vil ég nefna að það er tillaga um breytingu á 1. gr. frv. Það eru tvær breytingar sem eru fyrst og fremst tæknilegs eðlis, um að haft sé samráð við Seðlabanka Íslands vegna útreiknings á gengishagnaði og eins er orðalagsbreyting.

Í 2. lið brtt. er breyting við 4. gr. frv. Þar er lagt til að komi inn tvær nýjar málsgreinar í stað 2. mgr. Í fyrsta lagi er verið að skilgreina þar söluverð og kaupverð hlutabréfa og mismun þar á sem hagnað og enn fremur slit á félagi, hvernig það skilgreinist sem söluhagnaður. Í b-lið er tekið á því að í skattalögum hefur verið ákvæði um að söluhagnaður af hlutabréfum sem eru skráð á markaði væri skattfrjáls innan ákveðinna marka og það er verið að taka það út. Í c-lið er mál sama eðlis. Í d-lið er bætt við nýrri málsgrein sem er svohljóðandi, með leyfir forseta:

,,Unnt er að fara fram á frestun á tekjufærslu söluhagnaðar manns af sölu hlutabréfa um tvenn áramót frá söludegi að svo miklu leyti sem fjárhæð hans er umfram 3.000.000 kr. hjá einstaklingum og 6.000.000 kr. hjá hjónum. Kaupi hann önnur hlutabréf í stað hinna seldu innan þess tíma færist söluhagnaðurinn til lækkunar á því kaupverði hinna nýju bréfa sem ákvörðun söluhagnaðar samkvæmt þessari grein miðast við. Nemi kaupverð hinna keyptu hlutabréfa lægri fjárhæð en söluhagnaðurinn telst mismunurinn til skattskyldra tekna á kaupári hinna keyptu bréfa. Ef hlutabréf eru ekki keypt innan tilskilins tíma telst hagnaðurinn með skattskyldum tekjum á því ári þegar hann myndast. Ákvæði þessarar málsgreinar taka ekki til söluhagnaðar sem myndaðist í atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi.``

Í 3. lið brtt. er gerð tillaga um breytingu á 5. gr. Í a-lið eru lagðar til smátilfærslur. Í b-lið er jafnframt verið að leggja til smátilfærslur vegna þess að núgildandi frádráttarregla vegna kaupa á hlutabréfi í staðfestum félögum heldur sér. Í c-lið er verið að bæta við nýjum tölulið sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Nú verður greiðslufall á kröfu sem vextir, sbr. 2. mgr. 8. gr., hafa verið reiknaðir af og frestast þá greiðsla skatts af slíkum vöxtum.

Heimilt er að mótreikna tapaða vexti við fjármagnstekjur hafi skattur þegar verið greiddur af vöxtunum. Skal það gert á því ári þegar sýnt er að krafa sem vextir voru reiknaðir af fæst ekki greidd og skal gera grein fyrir henni í skattframtali viðkomandi tekjuárs.``

Þetta er skýrt betur út í breytingartillögunni. Síðan eru orðalagsbreytingar í d-lið og e-lið þessarar brtt.

Í 4. lið brtt. er gerð breyting á 6. gr. þar sem segir að frádráttur skuli vera 7% af nafnvirði hlutafjár, þ.e. að þegar fyrirtæki greiða út arð þá mega þau draga frá allt að 7% af nafnvirði hlutafjár. Síðan er haldið inni í frv. ákvæði um að sé í eigu hlutafélagsins íbúðarhús, sumarhús, fólksbifreiðar, skemmtibátar eða aðrar eignir sem ekki tengjast rekstrarþörf félagsins og ætlaðar eru til einkaþarfa hluthafa, stjórnarmanna eða framkvæmdastjóra félagsins eða skylduliðs þeirra manna skal verðmæti þeirra eigna dregið frá nafnverði áður en arður er samkvæmt þessum tölum ákvarðaður.

Enn fremur er breyting þess efnis að ef hlutafélag nýtir ekki að fullu frádráttarheimild samkvæmt þessum tölulið þá er heimilt að flytja ónýtta frádráttarheimild til næstu ára. Arður samkvæmt þessum tölulið er frádráttarbær frá tekjum þess árs sem hann er reiknaður af.

Í 5. lið brtt. er gerð breyting á 7. gr. Þar er tekið á söluhagnaði af hlutabréfum og enn fremur við innlausn, t.d. við slit félags eða lækkun hlutafjár. Ákvæðin um 10% skattlagningu á slíkum hagnaði eiga einungis við ef hagnaðurinn er innan við 3 millj. fyrir einstaklinga og 6 millj. hjá hjónum.

Í b-lið eru felld brott orðin: ,,við útreikning tekjuviðmiðunar barnabótaauka samkvæmt lögum þessum``. Meiningin er sú að fjármagnstekjurnar komi inn við tekjuviðmiðun vegna barnabótaauka.

Í 6. lið brtt. er gerð breyting á 9. gr. frv. Þar eru brtt. við 69. gr. laganna þar sem fyrst og fremst er verið að fjalla um tekjuskilgreiningar sem þar eru og eiga einkum við um vaxtabætur og barnabótaauka.

Í 7. lið brtt. er gerð tillaga um breytingu á 10. gr. sem er fyrst og fremst uppröðunarmál og orðalagsbreytingar.

Í 8. lið brtt. er tillaga um nýja grein sem verði 11. gr. Þar er um að ræða orðalagsbreytingu á 110 gr. skattalaganna sem hljóðar svo:

,,Álagða skatta, að frádregnu því sem greiða ber fyrir álagningu skv. 2. mgr. þessarar greinar auk mismunar sem fram kemur á álagningu tekjuskatts og staðgreiðslu launamanns, sbr. 35. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, að frádreginni staðgreiðslu samkvæmt lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur og að frádregnum bótum skv. 69. gr., skal greiða með sem næst jöfnum greiðslum á þeim gjalddögum sem eftir eru á árinu þegar álagning fer fram.``

Hér er um að ræða að dreifa greiðslum á þessum skatti ef hann er lagður á í einu lagi.

Í 9. lið er lögð til ný málsgrein við 12. gr. sem er fyrst og fremst varðandi gildistökuákvæði á söluhagnaði, ákvæði vegna söluhagnaðar í því skyni að viðskipti með hlutabréf stöðvist ekki fram að áramótum.

Þá er síðast en ekki síst gerð tillaga um að orða ákvæði til bráðabirgða eins og kemur hér fram í brtt. Þar er fyrst og fremst verið að skilgreina jöfnunarverðmæti sem á að reikna út í árslok 1996 og kveða á um það hvernig þetta jöfnunarverðmæti getur hækkað milli ára. En jöfnunarverðmætið sem er reiknað út í árslok 1996 myndar grundvöll fyrir það sem er talið vera kaupverð hlutabréfa sem eru eldri en frá þeirri dagsetningu. Síðan hækkar þetta jöfnunarverðmæti milli ára eða lækkar eftir verðvísitölu og miðað við þann stofn hækka eða lækka arðgreiðslur og eignarskattsmat, þ.e. ef fyrirtæki gefa út jöfnunarhlutabréf upp í það jöfnunarverðmæti.

Á þskj. 1116 eru brtt. vegna staðgreiðslufrv. Þar eru lagðar til nokkrar breytingar. Þær eru fyrst og fremst tæknilegs eðlis, þ.e. þær brtt. sem eru í 1.--7. lið brtt. Í 8. lið brtt. eru lagðar til tvær nýjar greinar sem fjalla fyrst og fremst um upplýsingaskyldu, heimildir til skatteftirlits og skattrannsókna. Í b-lið, sem verður þá ný 16. gr., er fjallað um skatteftirlit og skattrannsóknir. Í 9. tölul. er tæknileg breyting og í 10. lið er ný grein sem fjallar um möguleika til að stöðva atvinnurekstur vegna vanskila. Í 11. lið er tæknileg breyting. Í 12. lið er gert ráð fyrir þremur nýjum greinum varðandi refsingar, málsmeðferð og fyrningarreglur og uppgjör í staðgreiðslu.

Hæstv. forseti. Eins og ég sagði hefur nefndin fjallað um þetta mál á allmörgum fundum og þessar brtt. eru viðamiklar því þetta mál er að sjálfsögðu eitt af umdeildari málum þingsins. Ég á þess vegna von á því að ekki séu allir á einu máli um það samanber nefndarálit frá minni hluta nefndarinnar. Ég vil hins vegar þakka nefndarmönnum öllum, bæði í meiri hluta og minni hluta, fyrir störf þeirra að þessu máli og ég vonast til að það geti orðið að lögum á þessu þingi.