Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 30. maí 1996, kl. 15:15:39 (6854)

1996-05-30 15:15:39# 120. lþ. 155.1 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, SighB
[prenta uppsett í dálka] 155. fundur

[15:15]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Um hvað fjallar þetta frv. sem hér er til 2. umr.? Ríkisstjórnin og stuðningsmenn hennar segja að frv. fjalli um skattlagningu fjármagnstekna. Það er út af fyrir sig mikið réttlætismál og mikill meiri hluti þingheims er sammála því að það skuli gert. Hins vegar fjallar frv. ekki um skattlagningu fjármagnstekna. Þar sigla menn undir fölsku flaggi. Frv. fjallar um skattalækkanir til stóreignamanna, mestu eignatilfærslu til stóreignamanna á Íslandi sem saga íslenska skattkerfisins kann frá að greina. Frv. fjallar um skattalækkun arðs, um skattalækkun söluhagnaðar, um skattalækkun til fyrirtækja, um skattalækkun á leigutekjum og um skattahækkun á þeim sem eiga inni sparifé í bönkum og lánastofnunum, sem samkvæmt upplýsingum þeirra sjálfra eru fyrst og fremst gamalmenni, unglingar og börn.

Ef við lítum aðeins á nokkur efnisatriði í því frv. sem hér er til 2. umr. og reynum að draga það saman í stuttu máli má segja að meginefnisatriði þess séu sjö. Í fyrsta lagi er aðaltilgangur frv. lækkun skatts á fjármagnstekjur til þeirra sem eitthvað eiga. Þeim mun meira sem menn eiga, þeim mun meiri er skattalækkunin. Skattur á arð og söluhagnað er nú 42--47% hjá allflestum sem hans njóta. Nú er lagt til að lækka hann í 0--10%. Yfir helmingur þeirra tekna sem við tölum um hér er í vörslu örfárra einstaklinga og fjölskyldna hér á landi. 10% Íslendinga eiga meira en helminginn af eignunum í þessu þjóðfélagi og það er til þeirra sem verið er að færa skattlausan arð fyrirtækjanna, það er vegna hagsmuna þeirra og þeirra aðstæðna sem verið er að lækka skatt sem verið hefur á þeim úr 42--47% í 0--10%.

Við getum tekið fjölmörg dæmi til þess að sýna hvað hér er verið að gera. Við skulum taka eitt dæmi. Samkvæmt ársreikningum eins fyrirtækis sem birti ársreikning sinn fyrir skömmu mun tekjuskattur tíu einstaklinga sem eiga helming í fyrirtækinu og eru í hópi mestu stóreignamanna landsins lækka um 5--7 millj. kr. á ári hjá hverjum og einum vegna tekna þeirra af þessu fyrirtæki einu. Og eiga þeir þó margir hverjir hlut í öðrum stórfyrirtækjum til hliðar við þetta.

Sams konar dæmi mætti taka af aðaleigendum flestra stórfyrirtækja landsins. Skattar þeirra munu lækka stórlega, aukin heimild hlutafélaga til að greiða út skattfrjálsan arð mun gera þetta skattaskjól stöðugt vinsælla og stöðugt arðbærara á næstu árum.

Annað meginefni þessa frv. er lækkun skatta á fyrirtæki. Það er verið að auka heimild hlutafélaga til að greiða út skattfrjálsan arð sem þannig mun lækka tekjuskatt sem þessi fyrirtæki hafa borgað. Skattfrjáls útborgaður arður mun hækka um hundruð milljóna króna verði þetta frv. samþykkt og leiða til tekjutaps fyrir ríkissjóð. Og hverjir verða þá að bera það? Aðrir skattborgarar í hækkuðum sköttum. Frádráttarbær útborgaður arður var nær einn milljarður kr. á síðasta ári og lækkaði skattgreiðslur hlutafélaga um 300--400 millj. kr. En nú erum við að tala um að tvö- til þrefalda þá fjárhæð. Við erum sem sé að tala um að veita þessum fyrirtækjum skattalækkun upp á 900 til yfir 1.000 millj. kr. Á hvers kostnað? Á kostnað annarra skattborgara sem þá verða að hlaupa undir bagga til þess að bjarga ríkissjóði frá hallarekstri.

Í þriðja lagi er megintilgangurinn með þessu frv. að uppsafnaður, óskattlagður hagnaður verði gerður nærri skattfrjáls og eigendum hans gefnar hundruð milljóna kr. Með því að lækka skatt á söluhagnaði úr 42--47% eins og hann er í dag verða tekjur fyrri ára, sem frestað hefur verið að greiða út, gerðar nærri skattfrjálsar. Sama er að segja um söluhagnað sem er t.d. tilkominn vegna úthlutunar á réttindum eins og t.d. fiskveiðikvótum og einokunaraðstöðu og var þó næg gjöf færð fyrir þegar þjóðin hefur látið ríkisstjórn sína afhenda nokkrum einstaklingum í landinu án endurgjalds aðgang að sameiginlegri auðlind sem fiskstofnarnir eru og heimilað þeim að braska með það sín á milli eins og þeim best þykir. Nú er til viðbótar verið að færa þessum sömu mönnum möguleika á því að lækka skattana á söluhagnaði af viðskiptum með þessa þjóðareign úr 42--47% niður í 0--10%.

Við skulum enn taka dæmi og styðjast þá við sama fyrirtæki og ég ræddi um áðan. Ef þessir tíu einstaklingar sem eiga helming fyrirtækisins ákveða að selja hlutabréf sín í því mundi skatturinn eins og áður sagði lækka um 200--300 millj. kr., verðmæti hlutabréfanna fyrir hluthafana hækkar um þá fjárhæð eða 20--30 millj. kr. á hvern þeirra að jafnaði. Og það má nú segja að gjafir eru yður hér gefnar.

Annað dæmi. Uppsafnaður óskattlagður hagnaður Sameinaðra verktaka, aðaleigenda Íslenskra aðalverktaka, er talinn vera 2--2,5 milljarðar kr. Ríkið fór nýlega í mál sem það vann til að fá staðfestan rétt til að skattleggja útborgun á þessum arði. Nú á að fella þann rétt ríkisins niður sem það hefur fengið fyrir dómstólum og lækkar þá skattur af þessari arðsútborgun um 700--800 millj. kr. sem eigendur Sameinaðra verktaka fá í sumargjöf frá ríkisstjórninni, 700--800 millj. kr. á einu bretti sem eru færðar til nokkurra einstaklinga í samfélaginu sem flestallir eru vel efnaðir fyrir.

Í fjórða lagi felur frv. í sér að verið er að opna fleiri leiðir til skattundanskots fyrir sjálfstæða atvinnurekendur. Með frv. verður opnuð leið fyrir atvinnurekendur og sjálfstætt starfandi aðila, eins og lögfræðinga, endurskoðendur, lækna, tannlækna o.fl., til að koma tekjum sínum undan skattlagningu. Með stofnun einkahlutafélaga verður auðveldara fyrir þá en nú að breyta tekjum sínu í arð, í húsaleigu og í vexti, þ.e. tekjur sem verða skattfrjálsar allt að 6 millj. kr. hjá hjónum en bera 10% skatt þar fyrir ofan.

Í fimmta lagi er til þess að kosta þessar gjafir til stóreignafólksins verið að leggja skatt á smásparendur, á launafólk, á lífeyrisþega, á líknarfélög og önnur félagasamtök. Á móti verður skatti létt af raunverulegum fjármagnseigendum og þeim færðar gjafir í stórum stíl, en í staðinn tekinn skattur af smásparendum, af vöxtum af launareikningum fólks, af vöxtum af reikningum lífeyrisþega, af vaxtatekjum líknarfélaga, íþróttafélaga, sveitarfélaga og annarra slíkra samtaka.

Í sjötta lagi er það hin pólitíska stefna með þessu frv. að gera eigendur fjármagns að ómögum á framfæri launafólksins í landinu. Með lögum er verið að gera skattleysismörk fyrir þá sem eingöngu hafa fjármagnstekjur, 2 millj. 950 þús. kr. fyrir einstakling og 5,9 millj. kr. hjá hjónum. Skattleysismörkin hjá launafólkinu sem hefur tekjur sínar eingöngu af launaðri vinnu eru hins vegar 700 þús. kr. hjá einstaklingi og 1,4 millj. hjá hjónum. Þetta eru skattleysismörk fólksins sem þarf að vinna fyrir sér hörðum höndum. 700 þús. kr. hjá einstaklingi og 1,4 millj. kr. hjá hjónum. En það er verið að búa til ný skattleysismörk fyrir þá sem eingöngu hafa tekjur sínar af braski með verðbréf og hlutabréf og þau skattleysismörk eru 2 millj. 950 þús. kr. hjá einstaklingi og 5,9 millj. kr. hjá hjónum. Með öðrum orðum, hjón sem eingöngu fást við verslun og viðskipti með hlutabréf og eru ekki í neinni atvinnu sem launafólk geta haft 5 millj. 990 þús. kr. í skattfrjálsar tekjur áður en þau fara að borga skatt. Hafi þau 6 millj. kr. í tekjur af slíkum viðskiptum, borga þau 10 þús. kr. í skatt á ári. Og hafi þau meira í tekjur af slíkum viðskiptum en 6 millj., við skulum segja bara 12, hvað borga þau þá í skatt? Þessar sömu 10 þús. kr. vegna þess að frv. gerir ráð fyrir því að heimila í slíkum tilvikum að umrædd hjón geti fengið að fresta skattgreiðslum af þeim tekjum sem eru umfram 6 millj. í tvö ár og áður en tveggja ára tímabili lýkur þurfa hjónin eingöngu að hafa vit á því að hafa notað hagnaðinn til að kaupa sér ný verðbréf og selja þau aftur til að framlengja frestinn á skattgreiðslunum og framlengja hann í það óendanlega. Við erum því að tala um að fólk sem eingöngu leggur það fyrir sig að nota eignir sínar til viðskipta á hlutabréfamarkaði með verðbréf og hlutabréf greiði ekki meira í skatt af þeim tekjum en 10 þús. kr. á ári. Þetta styður Alþýðusamband Íslands. Þetta styðja landssamtök erfiðisfólks hér á landi. Og mér er spurn: Vita þau hvað þau eru að gera?

Hverjir haldið þið, ágætu þingmenn og herra forseti, að eigi svo að greiða herkostnaðinn af þessum gjöfum sem verið er að gefa stóreignafólkinu? Það eru að sjálfsögðu aðrir launamenn sem verða að bæta ríkissjóði upp tekjutapið sem hann verður fyrir vegna gjafanna til stóreignamanna í formi hækkaðra skatta. Það er að sjálfsögðu launafólkið sem verður að borga mismuninn.

[15:30]

Það er engin tilviljun, herra forseti, að einstaklingar í þessum sal sem hafa alltaf verið harðir á móti skattlagningu fjármagnstekna lýsa fylgi sínu við þetta frv. Hafa þeir skipt um skoðun? Eru þeir orðnir fylgjandi skynsamlegri skattlagningu fjármagnstekna sem mest voru á móti því fyrir síðustu kosningar? Nei. Þeir hafa ekki skipt um skoðun. Af hverju styðja þeir þá þetta frv.? Vegna þess að það eru önnur atriði í þessu frv. sem þeir telja að vegi þyngra á hagsmunavoginni en sú skattlagning fjármagnstekna sem þar er verið að veita, vega svo miklu þyngra á hagsmunavoginni en fjármagnstekjuskatturinn sem látið er í veðri vaka að sé megintilgangurinn með þessu frv. Og hvað er það sem vegur svona miklu þyngra á hagsmunavoginni hjá þeim sem hafa verið á móti fjármagnstekjuskatti alla sína ævi og allt sitt pólitíska líf? Það er meginatriði þessa frv., sú stórkostlega eignatilfærsla sem á sér stað samkvæmt því til stóreignakynslóðarinnar í landinu og jeppafólksins. Þeir styðja þetta frv., sem þeir kalla frv. um vaxtaskatt, vegna þess að hagsmunir stóreignafólksins vega svo miklu þyngra í málinu en skattlagning á vexti og fjármagnstekjur. Svo einföld er sú skýring, svo einföld eru rökin fyrir því að þeir stjórnmálamenn sem hafa talað mest gegn skatti á fjármagnstekjur tala nú mest með þessu frv.

Það var lagður fyrir hv. Alþingi annar valkostur, frv. formanna þriggja stjórnmálaflokka þar sem lagt var til að skattlagning fjármagnstekna ætti sér stað með sama hætti og skattlagning annarra tekna, þ.e. það yrði litið á tekjur af fjármagni sömu augum gagnvart skattkerfinu og litið er á aðrar tekjur þannig að það skipti ekki máli hver uppspretta teknanna væri, hvort hún væri vinna með hug og höndum eða hvort hún stafaði af því að viðkomandi ættu eignir sem þeir hefðu arð af. Þá var að sjálfsögðu gert ráð fyrir því að einnig í þeim tilvikum yrði um frítekjumark að ræða eins og í hinu almenna skattkerfi þannig að þeirri reglu yrði viðhaldið að þeim mun hærri tekjur, þeim mun hærra hlutfall er greitt í skatta. Þetta er sú almenna regla sem viðgengst í tekjuskattskerfinu gagnvart atvinnutekjum og þetta var sú meginregla sem átti að viðhafa ef frv. formannanna þriggja hefði verið samþykkt. Í staðinn er lagt til að því meiri tekjur sem menn hafa af ávöxtun eigna sinna, arði af sölu þeirra, tekjum af útleigu þeirra, þeim mun minni skatta skuli borga.

Ég vildi gjarnan fara nokkrum orðum um samanburð á þessum tveimur leiðum og um áhrif fjármagnstekjuskatta á vexti og fjárflótta sem nokkuð hefur verið talað um. Því hefur verið haldið fram af andstæðingum skattlagningar á vexti að hún muni draga úr sparnaði, hækka vexti og draga úr fjárfestingu og uppbyggingu atvinnulífsins. Engin fræðileg rök hafa hins vegar verið færð fyrir þessum fullyrðingum og engar athuganir vísindamanna eða fræðimanna staðfesta þær. Þvert á móti eru allar vísbendingar í aðra átt.

Við skulum líta í fyrsta lagi á áhrifin á sparnað af skattlagningu fjármagnstekna. Meint áhrif á sparnað heimilanna eru rakin til þess að þegar einstaklingur velur á milli þess að nota fé til neyslu eða leggja það til hliðar til notkunar síðar hafi væntanleg ávöxtun einhver áhrif á ákvarðanir hans. Sé fyrirsjáanleg ávöxtun lægri en ella vegna þess að skattlagning skerði hana, leiði það til þess að í fleiri tilvikum en ella verði neysla tekin fram yfir sparnað. Þetta eru rökin sem höfð eru uppi.

Ef við lítum á það hvort þau standast dóm reynslunnar skulum við fyrst skoða sparnað heimilanna og skatta á vexti. Samkvæmt kenningum hagfræðinnar eru áhrif vaxta á sparnað heimilanna í besta falli óljós, yfirleitt talin engin. Talið er að aðrir þættir, svo sem heildartekjur viðkomandi, öryggi og margt fleira, hafi miklu meiri áhrif í þessu efni en ávöxtunin. Þetta á einnig við um áhrif skattlagningar á vexti og hefur þessi niðurstaða verið staðfest í mörgum rannsóknum.

Í öðru lagi skulum við líta á hverja á að skattleggja, annars vegar samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar, hins vegar samkvæmt tillögum flokksformannanna þriggja. Samkvæmt stjfrv. nær skattlagning vaxta til allra sem hafa vaxtatekjur nema lífeyrissjóða sem eru stærstu sparendurnir. Skattlagningin nær líka til félagasamtaka og fleiri slíkra aðila. Samkvæmt frv. formannanna mun hins vegar einungis hluti skattborgaranna, þ.e. 10--20%, greiða skatta af vaxtatekjum því að frv. formannanna, ólíkt frv. ríkisstjórnarinnar, gerir ráð fyrir því að sett verði skattleysismörk í vaxtatekjum, en undir þeim verður fólk ekki skattlagt fyrir vaxtatekjur. Hafi skattlagning vaxta á annað borð áhrif á sparnað er því ljóst að þau áhrif eru meiri af stjórnarfrv. en af frv. formannanna þar sem aðeins lítill hluti sparenda mundi horfast í augu við lækkaða ávöxtun vegna skattsins ef fylgt yrði þeirri leið sem formenn flokkanna þriggja leggja til.

Í þriðja lagi skulum við athuga sparnað og neysluhneigð. Samkvæmt stjfrv. nær skattlagning vaxta til allra sem hafa vaxtatekjur hvort sem þær eru miklar eða ekki og hvort sem viðkomandi hafa háar heildartekjur eða ekki. Samkvæmt frv. formannanna mun fyrst og fremst tekjuhæsti hluti skattborgara greiða skatta af vaxtatekjum. Hjá þeim aðilum sem hafa mestu tekjurnar er neyslan þegar orðin svo mikil að valið stendur yfirleitt ekki á milli neyslu og sparnaðar heldur á milli þess hvernig eigi að nota umframtekjur til fjárfestingar. Samkvæmt stjfrv. mun skatturinn einnig snerta meðaltekjur og lægri tekjur þar sem valið stendur hins vegar í miklu meira mæli á milli neyslu og sparnaðar. Hafi skattlagning vaxta á annað borð áhrif á sparnað er einnig af þessum ástæðum líklegt að þau áhrif séu meiri af stjfrv. en af frv. formannanna.

Ef við lítum svo að lokum á skattlagningu vaxtatekna á þjóðhagslegan sparnað er um það að segja að jafnvel þótt skattlagning kunni að hafa áhrif á sparnað heimilanna er líklegt að skattlagning vaxtatekna auki heildarsparnað þjóðarbúsins sem er samtala af sparnaði heimilanna og tekjuafgangi eða halla ríkissjóðs. Heildarsparnaður minnkar því aðeins að með skattlagningunni aukist neysla heimilanna meira en sem nemur fjárhæð skattsins, sem ekki er líkleg niðurstaða.

Niðurstaðan af því sem ég hef sagt er því greinilega sú í fyrsta lagi að skattlagning vaxtatekna er ekki líkleg til að leiða til minni sparnaðar heimilanna. Í öðru lagi gæti hún orðið til að auka heildarsparnað í þjóðfélaginu vegna áhrifa hennar á afkomu ríkissjóðs. Í þriðja lagi er ljóst að skattlagning vaxta samkvæmt frv. formannanna er síður líkleg til að draga úr sparnaði heimilanna en stjfrv. og jafnvel líklegri til að auka sparnað þjóðarbúsins í heild.

Herra forseti. Við skulum næst skoða áhrifin af skattlagningu fjármagnstekna á vexti, en þar er því haldið fram annars vegar að sparendur muni eftir þá skattlagningu krefjast hærri vaxta til að ná þeirri ávöxtun sem þeir áður höfðu og hins vegar að þar sem sparifé sé minna en áður verði jafnvægi á milli framboðs á lánsfé og eftirspurnar til þess að hækka vaxtastigið. Því er jafnframt haldið fram að í fyrirliggjandi frumvörpum séu áhrif til vaxtahækkunar meiri af frv. formannanna en af stjfrv. en báðar þessar staðhæfingar eru meira en hæpnar og skal ég nú tilgreina ástæður.

Í fyrsta lagi hef ég varðandi vaxtakröfu, eins fram er komið, rakið þá niðurstöðu að ekki sé líklegt að sparnaður heimilanna dragist saman svo verulegu nemi. Framboð af sparifé mundi þannig ekki minnka. Ekki er líklegt að sparendur séu almennt í aðstöðu til að krefjast og fá í gegn hærri vexti þótt skattlagning skerði ávöxtun þeirra, en hvað bæði þessi atriði varðar er líklegt að áhrif af frv. formannanna séu minni en af stjfrv. Í fyrrnefnda tilvikinu, þ.e. samkvæmt leið formannanna, eru flestir sparendur ekki skattlagðir og hafa þess vegna ekki ástæðu til að krefjast hærri vaxta. Þeir tiltölulega fáu sem greiða skatt samkvæmt frv. formannanna verða ekki í aðstöðu til að þrýsta upp vöxtum sem allur fjöldi sparenda ásamt óskattskyldum aðilum eins og lífeyrissjóðirnir eru reiðubúnir til að sætta sig við.

Í stjfrv. hins vegar er sá fjöldi sem stendur andspænis lægri ávöxtun miklu meiri og því miklu líklegra að sá fjöldi þrýsti á um hækkun vaxta. Þessi rök styrkjast enn af því, eins og áður var bent á, að í frv. formannanna lendir skatturinn fyrst og fremst á þeim tekjuhærri sem verja minna af viðbótarráðstöfunarfé til neyslu en hinir tekjulægri.

Í öðru lagi skulum við líta á jafnvægi framboðs og eftirspurnar. Þau rök sem telja vexti hækka vegna þess að hlutfall framboðs og eftirspurnar á lánsfé raskist eru ekki sterk. Eins og áður er bent á er líklegt að heildarsparnaður þjóðarbúsins vaxi vegna þess að tekjur ríkissjóðs aukist og halli minnki umfram hugsanlegan samdrátt í sparnaði heimilanna. Þetta leiðir til þess að eftirspurn ríkisins eftir lánsfé minnkar og heildareftirspurn eftir lánsfé minnkar meira en nemur lækkun á sparnaði, ef hún verður einhver. Líkur á vaxtahækkun til að ná jöfnuði á lánsfjármarkaði eru því ekki miklar og enn minni ef skattlagning verður samkvæmt frv. formannanna.

Í þriðja lagi skulum við líta á hið opna hagkerfi og frjálsa fjármagnsflutninga. Á síðustu árum hefur fjármagnsmarkaðurinn verið opnaður og ekkert er lengur því til fyrirstöðu að lántakendur taki lánsfé erlendis ef það er hagstæðara. Þetta hefur m.a. þau áhrif að vaxtastig mun ekki fyrst og fremst ráðast af innlendum markaði heldur fylgja því sem gerist á heimsmarkaði þó einhver mismunur verði til staðar. Fyrir lántakanda skiptir engu máli hvort vextir verða skattlagðir hjá lánveitanda eða ekki. Hann mun væntanlega taka lán erlendis eða innan lands eftir því einu hvað hagstæðast er fyrir hann. Þar með verður innlendi lánveitandinn að sætta sig við það vaxtastig sem erlent fjármagn setur hverju sinni og er það gersamlega óháð því hvort vextir eru skattlagðir eða ekki.

Að lokum skulum við líta á reynslu annarra ríkja, en í flestöllum öðrum ríkjum hafa vextir verið skattlagðir eins og aðrar tekjur eða jafnvel meira. Það bendir ekkert til þess að skattlagning vaxta hafi haft nein áhrif þar á vaxtastigið. Þvert á móti er það t.d. staðreynd að nú er lægsta vaxtastig í Evrópu að finna í Þýskalandi þar sem jaðarskattar á vexti eru mjög háir og miklu hærri en lagt er til bæði í stjfrv. og í frv. formannanna. Af framansögðu má því vera ljóst að rök fyrir hækkun vaxta við skattlagningu vaxtatekna eru hæpin. Það er enn fremur ljóst að ef þau áhrif eru til staðar eru þau minni við skattlagningu samkvæmt frv. formannanna en stjfrv. þar sem frv. formannanna mun draga meira úr eftirspurn eftir lánsfé og hafa minni áhrif á sparnað.

[15:45]

Ef við lítum í þriðja lagi á áhrif á fjárfestingar sem einnig hafa verið nefnd í umræðum um þessi tvö frumvörp eru áhrif vaxta á fjárfestingu í atvinnulífinu byggð á þeirri kenningu að vextir, þ.e. kostnaður við fjármögnun, hafi áhrif á hversu fjárfesting sé arðbær og þar með á það hvort lagt verður út í fjárfestinguna eða ekki. Þessi kenning er að vísu ekki óumdeild en þó eru þessi tengsl talin líklegri en tengsl vaxta og sparnaðar, en talið er að aðrir þættir en þetta skipti miklu meira máli við ákvörðun um fjárfestingar. Eins og rakið hefur verið er ólíklegt að skattlagning vaxtatekna hafi áhrif á vaxtastig og tilefni til að gera ráð fyrir áhrifum slíkrar skattlagningar á fjárfestingu í atvinnulífinu er því ekki til staðar.

Ástæða væri til þess að ræða sérstaklega um þær fjárflóttakenningar sem einnig hafa verið hafðar uppi í þessari umræðu og vil ég aðeins benda á nokkur atriði í því sambandi. Í fyrsta lagi er það staðreynd að skattlagning vaxtatekna í öðrum löndum en á Íslandi er yfirleitt mun hærri en bæði frumvörpin gera ráð fyrir, bæði stjfrv. og formannafrv. Í hæsta skattþrepi er yfirleitt 50--60%, enda er það almenn regla að vaxtatekjur séu skattlagðar eins og hverjar aðrar tekjur, eins og frv. formannanna gerir ráð fyrir. Í þeim fáu löndum sem fjármagnstekjur eru sérgreindar frá öðrum tekjum er meðalskattur fjármagnstekna hærri en meðalskattur á launatekjur og jaðarskatturinn hærri en í báðum frumvörpunum. Það er því ekki ástæða til þess að ætla að svo lág skattheimta eins og hér um ræðir valdi fjárflótta úr landi vegna þess að í öðrum löndum sem við eigum viðskipti við er skattlagning fjármagnstekna yfirleitt miklu hærri en hér.

Það er hins vegar spurning um það í huga manna hvort bjóðist erlendis betri ávöxtun og kjör og öruggari fjárfestingar en hér á landi. Þá verður að líta til þess að til viðbótar skerðingum sem kunna að vera vegna skattlagningar erlendis skerðast tekjur íslensks fjárfestis sem vill festa fé sitt í öðrum löndum eða ávaxta það erlendis vegna þess kostnaðar sem hann hlýtur að verða fyrir vegna milliliða. Í mörgum þessara landa er tekin 10--25% staðgreiðsla af vaxtagreiðslum til erlendra aðila og auk þess er upplýsingaskylda fjármálastofnana rík. Það eru því engar líkur til þess að íslenskur fjárfestir, sem vill flytja fé sitt til annarra landa til þess að koma í veg fyrir það að greiða skatt af fjármagnseign sinni hér á landi, hafi nokkuð út úr því nema fyrirhöfnina og kostnaðinn. Hann þarf að greiða hærri skatt af ávöxtunartekjum sínum þar en hér. Hann þarf að greiða staðgreiðsluskatt sem nemur allt að 25% sé hann erlendur fjárfestir. Upplýsingaskylda banka og lánastofnana er mjög rík þannig að það er mjög erfitt fyrir viðkomandi aðila að komast hjá því að veita íslenskum skattyfirvöldum upplýsingar um fjármagnstekjur sínar erlendis. Sé ekki um tvísköttunarsamning að ræða við það land þar sem hann ætlar að festa fé sitt þarf hann auk þeirra skatta sem hann þarf að greiða í því landi vegna fjármagnstekna sinna að greiða skatta á Íslandi vegna sömu tekna og hlýtur hver heilvita maður að sjá að það er ekki ábatavænlegt fyrir þá sem vilja hafa arð af eignum sínum.

Virðulegi forseti. Það er líka ástæða til þess að kíkja aðeins á áhrif á tekjur ríkis og sveitarfélaga í frumvörpunum báðum. Reiknað er með því að skatttekjur ríkisins af stjfrv. gefi um 1.100 millj. kr. í skatt þegar fram líða stundir. Sú áætlun er þó líkast til of há þar sem vaxtatekjur einstaklinga virðast ofmetnar miðað við upplýsingar skattframtala og Seðlabanka Íslands. Nær lagi er að tekjurnar gætu orðið 900--1.000 millj. kr. á ári.

Á móti þessum tekjum kemur hins vegar tekjutap af lækkaðri skattlagningu arðs og söluhagnaðar um 200 millj. kr., af húsaleigu. Gæti tapið orðið 50 millj. til viðbótar þannig að í heild verða reiknaðar tekjur ríkisins aðeins 600--700 millj. kr. af samanlögðum áhrifum þessarar skattlagningar þegar til lengri tíma er litið. Vantalinn er þó skattur af húsaleigutekjum sveitarfélaga og arði til þeirra sem gæti orðið einhverjir tugir eða jafnvel par hundruð milljónir kr. Frv. formannanna gefur á sömu tekjuforsendum hins vegar 1.500--1.600 millj. kr. í tekjur í heild. Þar af renna um 300 millj. til sveitarfélaganna en 1.200--1.300 millj. til ríkisins. Tekjuöflun ríkisins er þannig tvöföld á við tekjuöflunina samkvæmt stjfrv. Það sem meginmáli skiptir, virðulegi forseti, er að þeir sem mestar eignir eiga og hæstar eignatekjur og arðstekjur og sölutekjur hafa greiða þá skatta samkvæmt tillögum formanna stjórnarandstöðuflokkanna, en það eru þeir sem minnstar tekjur hafa, sparifjáreigendur almennt, sem greiða þessi gjöld samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar, auk þess að greiða hundruð millj. kr. í sumargjafakostnaðinn til þeirra og stóreignamanna sem eru að fá ívilnanir með frv. ríkisstjórnarinnar.

Þess vegna er ástæða til þess að líta á dreifingu skattbyrðarinnar sem kemur fram í frumvörpunum báðum. Meginreglan í tekjuskattskerfum allra þróaðra ríkja er að leggja byrði af opinberri starfsemi á þegnana með hliðsjón af greiðslugetu þeirra. Þeir sem hafa mesta greiðslugetuna eru látnir greiða mest. Þeir sem hafa minnstu greiðslugetuna eru látnir greiða minnst.

Ef við lítum á vaxtatekjurnar samkvæmt þeim frumvörpum sem hér liggja fyrir eru vaxtatekjur hér á landi að stærstum hluta í höndum hinna tekjuhæstu. Um það bil helmingur þeirra verður til hjá um það bil 10% skattborgaranna sem hæstar heildartekjur hafa en 90% þjóðarinnar hefur hinn helminginn í vaxtatekjur. Skattleysi vaxtatekna nýtist því fyrst og fremst hinum tekjuhæstu og samrýmist ekki því að greiða skatta eftir greiðslugetu. Bæði stjfrv. og frv. formannanna afnema skattfrelsi vaxtatekna, en með ólíkum áhrifum. Samkvæmt stjfrv. kemur lágur skattur á vaxtatekjur í stað skattfrelsis. Mikið vantar á að greiðslubyrði dreifist í samræmi við heildartekjur vegna þess að samkvæmt frumvörpum ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir því að greiddur sé skattur af minnstu vaxtatekjum með sama hætti og þeim mestu. Frv. formannanna dreifir hins vegar skattbyrðinni þannig að þeir sem minnstar vaxtatekjur hafa borga ekkert. Þeir sem mestar vaxtatekjur hafa borga mest. Um 80--90% almennings sem hefur einhverjar tekjur af innstæðum sínum í bönkum og sparisjóðum borgar ekki vaxtatekjuskatt samkvæmt tillögum formanna stjórnarandstöðuflokkanna heldur er hann borinn af þeim efnamestu, af þeim 10% þjóðarinnar sem eiga meira en helming allra eigna Íslendinga.

Í öðru lagi er verið að taka upp tvískipt skattkerfi. Það er í reyndinni verið að búa til tvö skattkerfi í landinu. Annað skattkerfi er fyrir laun, lífeyri og sumar fjármagnstekjur, fyrst og fremst rekstrarhagnað einstaklinga í rekstri. Í því skattkerfi eru skattleysismörk einstaklinga 700 þús., jaðarskatturinn yfir 40% og meðalskattar um 20%. Í hinu skattkerfinu, skattkerfi eignafólksins, eru skattleysismörk einstaklinga 3 millj., jaðarskatturinn 10% og meðalskatturinn undir 5%.

Það eru líka til orðnar tvær þjóðir í þessu landi með tilliti til skattamála. Annars vegar launamaðurinn sem er með 700 þús. kr. í frítekjumark og borgar jaðarskatt upp á yfir 40% af því sem þar er umfram og meðalskatt um 20%. Hin þjóðin er eignamaðurinn, sá 10% hluti þjóðarinnar sem á meira en helming eigna hennar. Hjá þeirri þjóð er skattleysismarkið 3 millj. á einstakling, jaðarskatturinn 10% og meðalskatturinn undir 5%. Af því að hér situr hinn ágæti þingbróðir minn, séra Hjálmar Jónsson, spyr ég: Er þetta kristilegt? Er þetta kristileg framkvæmd skattlagningar, virðulegi forseti? Er þetta sanngirnin sem boðuð er í þeirri helgu bók að skipta þjóðinni með þessum hætti í tvær þjóðir, í skattlausu þjóðina og sköttuðu þjóðina?

Möguleikinn til þess að sniðganga skattkerfið er miklu meiri eftir þá breytingu sem hér á að gera en jafnvel er í dag áður en hún er gerð. Það kemur m.a. fram í umsögnum þeirra aðila í skattkerfinu sem ekki voru hafðir með í ráðum um samningu þessa frv. fyrr en á elleftu stundu þegar þeir fengu að koma að frv. og lýsa skoðunum sínum á því. Hvaða aðilar í skattkerfinu eru það sem ekki fengu að koma að frv. fyrr en á síðustu stundu? Það eru t.d. skattrannsóknarstjóri ríkisins, ríkisskattstjóri og aðrir þeir aðilar sem eiga að framkvæma umrætt kerfi. Við skulum aðeins líta á hvaða álit þeir hafa á því kerfi sem hér á að innleiða.

Ef við lítum aðeins á umsögn skattrannsóknarstjóra ríkisins segir þar fyrst um bankana að ekki sé ástæða til þess að ætla annað en bankarnir standi skattyfirvöldum skil á öllum þeim sköttum sem þeir eiga að innheimta af sparifjáreigendum og viðskiptamönnum sínum. En síðan segir skattrannsóknastjóri, með leyfi forseta:

,,Það sama er hins vegar ekki unnt að fullyrða um ýmsa aðra aðila sem ætlað er að innheimta skattinn. Þar má m.a. nefna þá sem atvinnu hafa af milligöngu af fjárvörslu og innheimtu fjárkrafna án þess að slík starfsemi sé talin umfangsmikil.``

Síðan segir skattrannsóknarstjóri, með leyfi forseta: ,,Um sniðgöngu vegna skattlagningar vaxta verður að telja að þar felist möguleikar að komast hjá skattlagningu af ýmiss konar skuldum. Er það m.a. unnt að gera með því að hækka höfuðstól um áætlaðar eða fyrir fram reiknaðar vaxtagreiðslur. Afar ósennilegt er að unnt sé með nokkrum vitrænum hætti að taka á slíku nema beinlínis liggi fyrir játningar aðila á háttsemi sinni. Sönnun fyrir háttseminni er aðalatriðið og ekki er líklegt að unnt sé að sanna hana með öðrum hætti en persónubundnum sönnunargögnum.``

Þá segir: ,,Um er að ræða skattsniðgöngu og hinn ætlaði undandráttur gæti þá orðið andlag skattlagningar. Þá eru án efa einnig fyrir hendi alls konar flækjur og umsnúningur hvers kyns kúlubréfa og verðbréfa í því skyni að komast hjá skattgreiðslum.``

Niðurstaða skattrannsóknarstjóra ríkisins er þessi, með leyfi forseta:

[16:00]

,,Niðurstaða varðandi vaxtaþátt skattlagningarinnar er sú að litlar líkur eru á að viðurkenndar fjármálastofnanir standi í skattsvikum, skilasvikum eða skattsniðgöngu. Hið sama verður ekki sagt með sömu vissu um minni aðila sem versla með verðbréf og fjárkröfur eða annast umsýslu þeirra. Þar eru nokkrar líkur á undanskoti og haldast í hendur líkur á skattsvikum almennt og svik á vaxtasköttum sem m.a. eru háð stærð fyrirtækja.``

Um arð og söluhagnað, sem einnig er fjallað um í stjfrv. að breyta og því sem næst afnema skattlagningu á, segir skattrannsóknarstjóri ríkisins, með leyfi forseta:

,,Þar eru fyrir hendi alls kyns möguleikar á skattundan\-drætti, skilasvikum og skattsniðgöngu.``

Skattrannsóknarstjóri bendir á að það fari oft saman arðsmóttaka og launagreiðslur frá sama aðila. Hann segir: ,,Sömuleiðis er það oft á tíðum arðsmóttakandi sem ákveður arðsgreiðsluna.``

Loks segir: ,,Verður að telja öruggt að einhver hópur sjálfstætt starfandi einstaklinga muni breyta formi rekstrar síns í því skyni að lækka skattgreiðslur sínar með því að taka fé út úr félögunum í formi arðs að svo miklu leyti sem eigið fé leyfir slíkt.``

Svo segir skattrannsóknarstjóri líka um margumrætt atriði sem hv. þm. Pétur H. Blöndal er sífellt að tönnlast á að ekki sé rétt með farið af hálfu okkar stjórnarandstæðinga. En nú leiði ég skattrannsóknarstjóra til vitnis. Hvað segir hann um framkvæmdina á því atriði í tillögum stjórnarliðsins? Hann segir:

,,Verulegir hagsmunir munu verða af því að stofna einkahlutafélög og fá greiðslur frá því í formi arðs.``

Ég er hér að tala um jeppafólkið, virðulegi forseti, sjálfstæða atvinnurekendur, tannlækna, lögfræðinga, lækna, endurskoðendur o.s.frv. Um þá segir skattrannsóknarstjóri:

,,Verulegir hagsmunir munu verða af því að stofna einkahlutafélög og fá greiðslur frá því í formi arðs. Mörg undanfarin ár hafa skattyfirvöld þurft að endurákvarða opinber gjöld fjölmargra sjálfstætt starfandi einstaklinga vegna tilrauna til sniðgöngu þeirra á reiknuðum launum. Samkvæmt fyrirliggjandi frv. [ríkisstjórnarinnar] verða slík ágreiningsmál úr sögunni þar sem rekstraraðilum verður í sjálfsvald sett hvaða fjárhæð þeir telja til launahluta og hvað sé arður.``

Síðan segir skattrannsóknarstjóri einnig, með leyfi forseta:

,,Auk þess sem hér hefur verið rakið um laun og arð eru fyrir hendi ýmsir möguleikar til sniðgöngu, einkum varðandi 6. gr. frv. til breytinga á lögum um tekjuskatt og eignarskatt. ... Hugsanlega gætu skattyfirvöld hnekkt slíku sem sniðgöngu. Þá er að öllum líkindum unnt að fara í kringum takmörkun téðrar 6. gr. með því að leigja íbúðarhúsnæði áfram til annarra félaga sem afhenti það aftur til eigenda endurgjaldslaust.``

Um söluhagnað og lækkun á skattlagningu af honum og möguleika til skattundandráttar varðandi meðferð söluhagnaðar segir skattrannsóknarstjóri ríkisins, með leyfi forseta:

,,Engin ástæða er til að halda að breyting á skattlagningu söluhagnaðar geri menn sérstaklega fúsa til að greiða skatt vegna þess. Allar heimildir skattalaga til að fresta, dreifa eða fyrna söluhagnað eru áfram til staðar og engin efni eru til annars en að telja að þær heimildir verði notaðar áfram. Þá er líklegt að sniðganga söluhagnaðar verði áfram stunduð, m.a. með því að hagræða samningum eftir því sem efni standa til í því skyni að komast hjá réttum skattgreiðslum. Á hinn bóginn verður að telja afar líklegt að aðilar sem eiga mikinn uppsafnaðan söluhagnað nýti sér væntanlegar heimildir til útgreiðslna meðan skattprósenta arðs og söluhagnaðar er 10% í stað þeirrar almennu skattprósentu sem aðrar tekjur eru skattlagðar eftir.``

Þetta segir skattrannsóknarstjóri. Um hvern er hann hér að tala? Hann er m.a. að tala um Sameinaða verktaka sem eiga 2--3 milljarða af óskattlögðu eigin fé til úthlutunar til eigenda sinna samkvæmt þeim ákvæðum sem skattrannsóknarstjóri er hér að lýsa áhrifunum af, verði frv. ríkisstjórnarinnar samþykkt. Niðurstaða hans er þessi og er hann þar að tala um frv. ríkisstjórnarinnar:

,,Auknir möguleikar eru hins vegar á ýmiss konar sniðgöngu, flutningi launatekna yfir í fjármagnstekjur auk þess hagræðis að greiða mun lægri skatta af arði, söluhagnaði og leigum en launatekjum.``

Þannig talar einn af æðstu embættismönnum í skattkerfi okkar Íslendinga, skattrannsóknarstjóri ríkisins. Þetta er álit hans á því hvað stjórnarflokkarnir eru nú að gera. Þeir eru ekki bara að flytja hundruð milljóna króna í skattlausu fé yfir til helstu eignamanna þessa þjóðfélags, þeir eru líka að opna hverja smuguna á fætur annarri til að hjálpa þeim sem betur mega sín til að sleppa við að greiða skatta með löglegum eða ólöglegum hætti. Það þarf ekkert að hafa orð okkar stjórnarandstæðinga fyrir því. Ég var hér að vitna í álit skattrannsóknarstjóra ríkisins til efh.- og viðskn. um áhrifin af tillögum ríkisstjórnarinnar og stuðningsflokka hennar.

Það er hægt að nefna mörg fleiri dæmi þar um. Við skulum t.d. skoða umsögn annars yfirmanns í skattkerfinu, ríkisskattstjóra. Hann segir, m.a.:

,,Enginn vafi er á því að ef tilteknar tekjur eru skattlagðar með mun lægri skattprósentu en launatekjur mun það valda því að reynt verður að breyta launatekjum yfir í það form sem skattlagt er með lægri prósentu.``

Það er enginn vafi á því, segir ríkisskattstjóri um þau ákvæði frv. ríkisstjórnarinnar að skattleggja tekjur af arði og söluhagnaði með mikið lægri prósentu en almennar tekjur. Hann er að vekja athygli á því að með þeirri ákvörðun munu þeir sem eiga þess kost breyta launatekjum sínum yfir í arð og hagnað sem er skattlagður með 10% í stað 42--47% ef um launatekjur er að ræða. Hann segir ljóst vera að ef allar fjármagnstekjur verði skattlagðar með mun lægri skattprósentu en launatekjur muni það örugglega hafa þau áhrif að þeir sem eigi þess kost muni taka út laun í formi vaxtaarðs eða leigu. Hverjir eiga þess kost? Er það fólkið? Er það hinn almenni launamaður sem á þess kost? Nei, það eru þær forréttindastéttir sem hæstv. ríkisstjórn stendur nú vörð um. Það er jeppafólkið t.d., herra forseti. Hann segir að í stjfrv. sé gert ráð fyrir því að arður, leigutekjur og aðrar fjármagnstekjur verði skattlagðar með 10% skatti sem muni hafa það í för með sér að launatekjur verði teknar út úr fyrirtækjunum í formi fjármagnstekna.

Ríkisskattstjóri kemur víðar við. Hann vekur m.a. athygli á því að í landinu eru nú 26.563 einstaklingar sem séu í hvers konar rekstri og reikni sér endurgjald. Hann segir, með leyfi forseta:

,,Ætla má að langflestir rekstraraðilar séu með einhverjar vaxtatekjur. Ljóst er af framangreindum upplýsingum að um mjög marga aðila er að ræða sem fá skattinn endurgreiddan eða hann dreginn af öðrum opinberum gjöldum.

Skattyfirvöld munu ekki hafa við neitt annað að styðjast en framtaldar upplýsingar þessara aðila. Þessar upplýsingar eru skráðar áður en álagning fer fram.`` Síðan segir ríkisskattstjóri:

,,Alltaf er hætta á svikum þar sem skattyfirvöld geta ekki sannreynt þessar upplýsingar nema með nokkurri fyrirhöfn.``

Í öðru bréfi frá ríkisskattstjóra er enn vikið að því sama. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Tekjuskattur þeirra sem eru með reiknað endurgjald og/eða hreinar rekstrartekjur nemur gróflega áætlað u.þ.b. 5,4 milljörðum kr. Ef 1/3 af reiknuðu endurgjaldi og hreinum rekstrartekjum er umbreytt yfir í arð, söluhagnað og húsaleigu,`` --- eins og verið er að opna fyrir í frv. ríkisstjórnarinnar, --- ,,má gera ráð fyrir því að tekjuskattur lækki um 1,1 milljarð kr. miðað við þær forsendur sem gefnar eru.``

Á hverjum er verið að lækka þetta endurgjald? Á hverjum er verið að lækka þessa skatta um 1,1 milljarð kr.? Á fólkinu sem er í fyrirrúminu hjá Framsfl.? Nei, ekki á því. Sérhagsmunavörslugengið í ríkisstjórninni sér um sína. Það er ekki fólkið sem átti að vera í fyrirrúminu sem þar er verið að tala um.

Virðulegi forseti. Það væri hægt að halda lengi áfram að lýsa því frv. sem ríkisstjórnin vill nú fá samþykkt í nafni hagsmuna stóreignamannanna í landinu og valkostinum sem formenn þriggja stjórnarandstöðuflokka lögðu fram um aðrar og betri leiðir. Um raunverulegan fjármagnstekjuskatt sem þeir greiða sem hæstar hafa fjármagnstekjurnar en 80% landsmanna sem litlar eða engar eignir eiga, hvorki í bönkum, hlutabréfum eða verðbréfum sleppa við, eða leið ríkisstjórnarinnar um flatan vaxtaskatt jafnvel á smæstu sparendurna. En um leið er meginatriðið í tillögu þeirra stórfelldar eignatilfærslur til stóreignamanna í þessu þjóðfélagi.

Virðulegi forseti. Ég tel ekki verjandi fyrir Alþingi Íslendinga, og enn síður út frá sjónarmiðum þeirra aðila sem eiga að framkvæma skattlagninguna og hafa lýst framkvæmdarerfiðleikunum með þeim hætti sem ríkisskattstjóri, skattrannsóknarstjóri og aðrir embættismenn skattkerfisins hafa gert, að ganga nú til afgreiðslu á frv. ríkisstjórnarinnar um skattalækkun á stóreignamenn. Ég ítreka því þá tillögu sem hv. þm. Ágúst Einarsson mælti fyrir hér áðan fyrir hönd okkar stjórnarandstæðinga um að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar, afgreiðslu frestað og sumarið notað til að ná einhverju landi, þó ekki væri nema við þá sem eiga að framkvæma kerfið og lýsa því eins og ég áður vitnaði til, þannig að hægt verði að leggja fram nýtt frv. á Alþingi Íslendinga í haust, frv. um raunverulegan fjármagnstekjuskatt en ekki fyrst og fremst um lækkun á skattgreiðslum stóreignamanna og mestu eignatilfærslu til auðmanna sem saga íslenska skattkerfisins kann frá að greina.