Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 30. maí 1996, kl. 16:19:36 (6858)

1996-05-30 16:19:36# 120. lþ. 155.1 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 155. fundur

[16:19]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil nú líta á það þannig að hv. þm. hafi verið í hlutverki skemmtikraftsins áðan þegar hann ávarpaði þingbræður sína héðan úr þessum ræðustól sem hálfgerða villimenn. Ég hélt satt að segja að hæstv. forseti mundi gera athugasemd við það. En ég lít nú svo á að þetta hafi ekki verið í alvöru mælt heldur hafi hv. þm. þarna verið í hlutverki skemmtikraftsins eða kannski trúðsins. Það fer honum ekki vel.

Ég ætla hins vegar að benda hv. þm. á að ég var ekki að tala um mismunun í skattlagningu á milli fyrirtækja og fólks. Ég var að tala um mismuninn í skattlagningu eftir því hvort einstaklingurinn væri launamaður eða eignamaður. Það er að skipta fólki í tvær þjóðir, hv. þm. Ég hef stuðlað að því með flokki hv. þm. sl. fjögur ár að gerbreyta umhverfi atvinnufyrirtækja ekki síst í skattamálum. Ég sé ekkert eftir því því það hefur borið drjúgan ávöxt. En ég er að tala um að skipta fólki ekki í tvær þjóðir, í þjóð launamannsins með háu skattana og þjóð eignafólksins með lágu skattana.